Viðhengið fór hamförum í Hagkaupum á miðvikudaginn. Við kassann stóð fín frú og þegar hún er að tína vörurnar upp á færibandið dettur dularfull blá kremtúba í gólfið. Davíð er kurteis maður fram í fingurgóma, beygir sig niður, réttir fínu frúnni og spyr “Átt þú þetta?” Hún kvað nei við og skellihló.
Ég var aðeins of sein að grípa inn í atburðarrásina, því ég sá náttúrulega strax að þetta var helblátt sleipiefni með blómailmi sem selt er við kassa í öllum betri matvælaverslunum landsins nú til dags og á stendur stórum stöfum durex. Ég sagði því stórhneyksluð: “Nei, þetta á að vera ÞARNA í hillunni!” “Ó” sagði Davíð og áttaði sig ekki á neinu. Horfir upp í loftið og eftir dúk og disk sér hann svo hvað stendur á túbudruslunni. Roðnar þá náttúrulega fram í fingurgóma, snýr sér við og segir við mig stundarhátt: “Æjjjji! Mig langar í ópal!” og leit ekki af ópalrekkanum fyrr en fína frúin var horfin á braut. Ég keypti handa honum ópal og á meðan við bruddum ópalinn sagði hann mér að hann hefði bara verið sannfærður um að þetta væri handáburður, bölvaði durex í sand og ösku fyrir að merkja ekki varninginn betur og Hagkaupum fyrir að geyma þetta á svona asnalegum stað. Hver vill svo sem sagt hafa við fína frú: “Heyrðu, eruð þetta kitlusmokkarnir yðar, kæra frú?”
Að öðru leyti hefur nýja árið gengið stórslysalaust fyrir sig. Komum heim 3. jan og héldum matarboð bæði í gær og í dag. Hreindýr var borið á borð fyrir tengdaforeldrana en Hulda og Krissi fengu spínatböku.
Já, hjartans þakkir fyrir hreindýrið, langt síðan ég hef borðað svona góðgæti. Maður hálfskammast sín fyrir að bjóða ykkur svo alltaf í lamb!
SvaraEyðaGleðilegt ár, það var gaman að sjá þér "bregða fyrir" á sjúkrahúsinu fyrir jólin.
SvaraEyðaAnnars hristist ég hér af hlátri yfir síðustu færslu og kunni ekki við annað en kvitta fyrir komunni. Kv Stína
Fliss!
SvaraEyðavá ég hló upphátt yfir þessari bloggfærslu! það gerist ekki oft:)
SvaraEyðaFyndið að stjórnandi kláblaðs í denn skyldi roðna yfir kremtúbu.
SvaraEyða