laugardagur, febrúar 10, 2007

Fegurðin kemur að utan

Mér er allri að verða gersamlega lokið af útlitsdýrkun hins vestræna heims og eru Íslendingar síst til fyrirmyndar á þeim vettvangi. Dæmi úr daglega lífinu:

Bókatitill á borð við "Franskar konur fitna ekki" blasir allt í einu við mér hvar sem ég fer. Ég veit alveg af hverju franskar konur fitna ekki og þarf ekkert að lesa heila bók um það. Þær fitna ekki vegna þess að þær borða ekki neitt og reykja eins og strompar. Þannig að í staðinn fyrir að fá í framtíðinni kransæðastíflu vegna offitu, fá þær hana vegna reykinga. Ef sölumaður eða höfundur þessarar bókar ætlast svo í ofanálag til þess að ég trúi því að engin frönsk kona sé yfir kjörþyngd, þá getur sá hinn sami allt eins reynt að sannfæra mig um ágæti stríðsglæpa.

Það væri alveg hægt að gefa út bókina "Sumir fitna og sumir ekki" eða jafnvel ganga enn lengra og gefa út "Allir fitna á endanum ef þeir borða of mikið og hreyfa sig aldrei". Af hverju er þetta alltaf svona mikið mál? Og hvaða máli skiptir það hvort sumir fitni og sumir ekki? Fólk ber sjálft ábyrgð á heilsufari sínu þó það megi alveg deila um hversu skynsamlegt það er að lifa óheilbrigðu líferni, en það á enginn að þurfa að sæta eineltis og beins skítkasts af hálfu þjóðfélagsins fyrir það eitt að vera ekki súpermódel.

Í öðru hvoru ókeypisblaðinu sem heita svo ófrumlegum nöfnum að engin leið er til að muna hvað birtist hvar var í gær eða fyrradag myndasyrpa af óförðuðum ofurskutlum. Að baki framtakinu lá trúlega sú hugsun að við, óbreyttu ekkiskutlurnar, gætum huggað okkur við það að ofurskutlurnar væru ekkert svo miklar skutlur ómálaðar og ótilhafðar. Það sem gleymdist einhvers staðar var að segja: Sjáið hvað þær eru bara miklu fallegri ómálaðar og náttúrulegar. Í staðinn stóð næstum því við hverja mynd: Þetta er eins og hryllingsmynd, hún næði sér aldrei í karlmann svona, sko, hún er eiginlega bara ljót.
Þetta varð mér ekki til huggunar. Skilaboðin sem ég las úr þessu voru: "Ofurskutla án farða er ógeðslega ljót". Hvað er þá óbreytt ekkiskutla án farða? Skrímsli sem á aldrei eftir að upplifa hamingju í hinu gegnsýrða lýtaaðgerðasamfélagi vegna þess eins að hún er svo ljót? Og hvað er Courtney Love alltaf að gera á þessum listum? Skilaboðin: "Þú ert nú allt í lagi, þú ert alltaf skárri en Courtney Love". Fyrirgefið, en ég nærist bara ekkert á því að sjá að stundum séu konur krumpaðar og nývaknaðar, þó þær séu súpermódel. Mér finnst þessi skilaboð líka orka verulega tvímælis. Og fylla mig svartsýni. Samfélagið er greinilega troðfullt af Gilzneggerum, en á honum hef ég jafnmikið dálæti og á fúleggjum.

Jákvæða hliðin á þessu öllu saman er sú að nú hef ég litið augum glænýtt tækifæri til að hætta að láta þetta fara í taugarnar á mér og eyðileggja fyrir mér heilu og hálfu dagana. Mér finnst samt kenningin mín um að almennt finnist fólki fegurðin koma að utan, sannast á degi hverjum við lestur dagblaða og fréttaáhorf. Og mér finnst það fúlt.

2 ummæli:

  1. Ég veit ekki hvort það er aldurinn að færast yfir mig en ég finn hvernig ég verð alltaf meðvitaðir og meðvitaðri um allan þann farða sem fólk treður framan í sig. Og finnst það ljótt. Og óeðlilegt. Ég get ekki lengur séð fallega mynd heldur manneskju þakta brúnum blettum, svörtum strikum og klístruðum litum. Undir niðri má svo glitta í eðlilega fallega manneskju. Af hverju á það að teljast ljótt að hafa smá líf í andlitinu? Sminkliðið á RÚV er sérlega slæmt - ég get ekki lengur horft á fréttirnar. Gulbrúnar grímurnar hræða mig.

    SvaraEyða
  2. Hey, 3/4 af þessum pistli var neikvætt tuð - 1/4 var sárabót í jákvæðum stíl... svindl!!

    Ef til er bók sem heitir: "Frankar konur fitna ekki" þýðir það að einhver hefur eitthvað að segja um málefnið. Hvort sem það er að hann trúi því statt og stöðugt að franskar konur fitni ekki, eða eitthvað allt annað... :)

    haha, nú tuða ég 3/4 ofan á allt saman og fegra það síðan með 1/4 jákvæðni...

    Ég elska ykkur elsku systir og fjölskylda, hlakka til að sjá ykkur og heyra og njóta og drekka kaffi...

    hlýtt knús og hlýjar kveðjur
    K

    SvaraEyða