Mamma hringdi í gærkvöldi og spurði hvort ég væri ófrísk. Ég sagði orðrétt: "Haaaaaaaa???" en kvað svo nei við og hugsaði að nú hefði einhver öldruð frænka birst henni í draumi og vitjað nafns, þó fjölskyldan mín sé ekki beint þekkt fyrir berdreymi og miðilsgáfu. Ég spurði hvers vegna í ósköpunum hún væri að velta þessu fyrir sér. Þá var raunin sú að frænka nokkur, sem reyndar er sprelllifandi hafði heyrt það frá sveitunga sínum, en þrátt fyrir að hafa mótmælt í hvívetna, fullyrti sveitunginn að svo væri. Mamma sagðist hafa svarað þessum fullyrðingum á þann veg að henni þætti ólíklegt að ég hefði bara sisvona gleymt að láta sig vita, en hún skyldi nú samt komast að raun um það áður en hún fullyrti að sveitunginn færi með fleipur. Sjaldan lýgur almannarómur og allt það.
Ég varð náttúrulega að spyrja að því hvað konan hét sem vissi meira um einkalíf mitt en ég. Í ljós kom að ég hef nú bara aldrei á minni lífsfæddri ævi séð umrædda konu né nokkru sinni við hana talað. Ég vissi ekki einu sinni að hún vissi að ég væri til, hvað þá að hún gæti sagt mér svona mikið um frjósemi mína. Ég var að spá í að slá á þráðinn til hennar seinna í dag og spyrja hana hvað ég sé komin langt á leið og hver sé faðirinn, það gæti eitthvað forvitnilegt komið út úr því. Hver veit nema ég sé komin fimm mánuði á leið eftir Stein Ármann og Davíð og Jenný sitji með sárt ennið. Það er þá eins gott að hefjast handa við að greiða úr þessum dramatísku aðstæðum. En hvur veit. Kannski hefur Gróan farið á fund Oddbjargar, hinnar spakvitru spákonu okkar Fellamanna, sem hefur lesið þetta úr bollanum konunnar sem ég þekki ekki neitt... og þá er nú vissara að spara stóru orðin. Ég held ég ætti því að hlaupa hið snarasta út í Apótek og kaupa óléttupróf áður en ég fullyrði nokkuð um stöðu mála.
Bless á meðan....
Heldurðu kannski að þetta sé einhver forspá?
SvaraEyðaHAHA, mamma var einmitt að spurja mig að því hvort þú værir ólétt (sem ég neitaði auðvitað staðfastlega). Þessi saga hefur greinilega verið vinsæl á Héraði
SvaraEyðaEf ég ætti að giska, alveg úr í bláinn, myndi ég giska á að einhversstaðar hefði barneignarsagan ruglast frá Grétu yfir í Þórunni Grétu, sama fjölskyldan og allt það.
SvaraEyðaÖruggasta leiðin til þess að vera fyrstur með fréttirnar er auðvitað að búa þær hreinlega bara til ;)
SvaraEyðaég "lærbrotnaði" í jarðskjálftanum 2000, en tókst samt einhvernveginn að taka þátt í leiklistarhátíðinni á Akureyri viku seinna. Svona er ég harður
Góð kjaftasaga þarf ekki mikið til að umbreytast í það sem fólk vill heyra. Sennilega hefur litli bróðir þinn morfast yfir í óléttu.
SvaraEyða