miðvikudagur, maí 09, 2007

Fyrirsagnir

Ég hef lúmskt gaman að fyrirsögnum og vel þær iðulega af kostgæfni á þessari síðu. Nema ef vera skyldi þegar um er að ræða fréttatilkynningar, þá sleppi ég þeim oftast.

Það gerist þó oftar en ég kæri mig um að muna að ég fæ velgju þegar ég stend við kassann í matvörubúðunum og hef ekkert annað að gera en að standa í biðröð og stytta mér stundir með því að lesa fyrirsagnir á glanstímaritum. Ég veit að ég gæti sleppt því, en þarna er á ferðinni einn af mínum mannskæðu persónuleikabrestum; að elska að hata. Að neyta til að hafa enn haldbærari rök fyrir máli mínu þegar níða skal vöruna.

Fyrirsagnir eru mér hugleiknari í dag en oft áður, vegna þess að um daginn, þá neyddist ég til að kaupa mér glanstímarit. Ástæðan var sú að í því var viðtal við vinkonu mína frá fornu fari. Forsíðuviðtalið var þó af allt öðrum toga en viðtalið við vinkonu mína. Fyrirsögnin datt í hóp þeirra allra kjánalegustu: Játningar Johannsensystra. Mér finnst þetta svo kjánaleg fyrirsögn á viðtali við eflaust ágætar konur að þó blaðið hafi legið á skrifborðinu mínu síðan ég keypti það, þá bara get ég ekki lesið þetta viðtal fyrir skorti á löngun.
Ég vil taka það fram að ég er mikill aðdáandi ofstuðlunar, svona eins og dr. Tóta, en þegar fyrirsögnin er búin til BARA til að stuðla og reyna að gera Johannsensystur að einhverju meira spennandi fólki en Guðmundu í næsta húsi, þá dettur þetta algerlega um sjálft sig.
Sjáið þið bara: Játningar... eiga þessar blessuðu konur eitthvað sökótt við þjóðina? Er ritstjóri Nýs lífs í hópi þeirra sem er uppsigað við ríka fólkið og finnst það verða að játa upp á sig sökina? Ég hef aldrei skilið þá áráttu fólks, eins og Davíð Oddsson að fremja mannréttindabrot á ríka fólkinu, húsleit hjá Baugsfeðgum... ríkið hefur tapað nokkrum trilljónum í að rembast við að finna hjá þeim einhverja sök. Mér finnst ekkert vandamál að Johannsensystur eða Baugsfeðgar eða Pálmadætur séu ríkt fólk. Mér finnst aftur á móti vandamál hvað við hin erum fátæk. En Sjálfstæðisflokknum finnst gáfulegra að fá Pétur Blöndal til þess að rífast í sjónvarpinu yfir því hvað við þurfalingarnir séum miklir asnar og aumingjar og eyða á meðan öllum skattpeningunum sem við borguðum í að sakfella ríka fólkið fyrir að vera orðið svona ríkt. Hvað eiga þessar Johannsensystur svosem að hafa á samviskunni sem þeim varð lífsnauðsynlegt að játa í glanstímariti?
Þriðji póllinn í þessari fyrirsagnarhæð er síðan að ég bara hef ekki nokkurn einasta áhuga á daglegu lífi ríks fólks svona upp úr þurru. Ég les stundum viðtöl, en yfirleitt við fólk sem hefur áorkað einhverju áhugaverðu eða sloppið lifandi úr lífsháska. Mér finnst ekkert sérstaklega áhugavert að reka tískuvöruverslun, enda hefur mér frá 14 ára aldri verið svo uppsigað við náungann sem fann upp tískuna að ég hefði helst viljað henda honum á haugana. Hér get ég potað því inn að ég fagnaði megrunarlausa deginum frá mínum dýpstu hjartarótum og dansaði stríðsdans. Um leið og ég er búin að blogga þennan pistil ætla ég að skrá mig í stuðningshóp megrunarlausa dagsins og leggja mín lóð á vogarskálarnar svo tískuheimurinn megi detta niður dauður og megrunardraslið fari beina leið á haugana.

Svo er bara spurning hvort fyrirsögnin "Játningar Johnsen Árna" eða "Játningar Johns Lalla" hefði frekar vakið áhuga minn. Ég held ég hefði lesið viðtöl við þá félaga, án þess að nokkurt garantí sé fyrir því. Það mætti segja mér að viðtal við þá ágætu smákrimma yrði í formi sjálfsvorkunnarlangloku, því eins og allir vita er það þjóðfélagið sem lék þá svo óskaplega grátt. Þess vegna eiga þeir skylda samúð frá þjóðinni allri.

Sumsé, ef einhvern lesenda minna þyrstir í að lesa Játningar Johannsensystra, þá kíkið endilega í kaffi, blaðið er enn á skrifborðinu og ég býð upp á kaffi ÞVÍ ÉG ER BÚIN Í PRÓFUM!

María var með yndislega burtfarartónleika í gær og Erla Dóra yndislega áttundastigstónleika á sunnudaginn! Til hamingju, krúttin mín, ég skal sko lesa viðtöl við ykkur í glanstímaritum, því þið hafið sannarlega áorkað einhverju áhugaverðu!

Ég læt þessu þá lokið í bili.

PS. Kisa er farin að borða þurrmat og þar með hætt að brýna tennurnar á húsgögnunum. Sem er gott.

4 ummæli:

  1. Fyrirsagnir eru blátt áfram hámenningarlegar miðað við voðann sem boðið er uppá á hinni margrómuðu sjónvarpsstöð Sýn. Sem er þó sennilega Sín.
    Sem dæmi má nefna að leikmaður í knattspyrnuleik meiddi sig sennilega í fótnum eftir ósanngjarna byltu andstæðing síns?
    Ég ætla ekki að drulla neitt voðalega yfir fótboltann vegna þess að annar eins hroði og tröllríður hnefaleikum er ekki fólki bjóðandi.

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus11:35 e.h.

    Oseiseijá, heimsmet í kjánahrollsvaldandi ofstuðlun eiga þó þeir hjá Séð og heyrt. Muna ekki einhverjir eftir Salman Rushdie? Hann skrifaði bók sem ekki þótti hinum islamska heimi þóknanleg, þannig að þáverandi æjatolla í Íran sagði Rushdie réttdræpan. Fyrir nokkrum árum birtist svo smáklausa í Séð og heyrt, þess efnis að Rushdie blessaður væri búinn að finna sér kærustu. Fyrirsögnin? Jú, með upphrópunarmerki og alles:
    "Dauðadæmdur daðrari!"

    SvaraEyða
  3. nei ég get svossem ekki boðið neitt betur :) er bara alfeg að æla yfir tilhugsuninni að þurfa að vinna "eðlilega" vinnu í sumar og er svona að sjá hvort maður gæti einhvernveginn komist upp með að spila bara á tónleikum og vera artí.
    er samt alfeg versta manneskja í heimi í að sníkja styrki svo ég held þetta endi bara með 9-5 vinnu :) en ef þú ert til í eitthvað spilerí, þá gæti það nú verið soldið stuð...
    bara pæling....

    SvaraEyða
  4. Lestu um quantum physics og fíkn okkar í tilfinningar... þess vegna elskarðu að hata!

    En... góða mín... ef tíska væri ekki til myndi allt staðna, hönnunarheimurinn hrynja og við iða um í tilgangsleysi!! Við þurfum að skilja mikilvægi tískunnar og beina henni í rétta átt. Tíska er ekki megrun!!!

    Gott að frétta af Kisu, klórklór!

    Knús, K

    SvaraEyða