Víst er um að sitthvað hefur drifið á daga mína og til að fæla ekki lesendur frá síðunni með margra blaðsíðna langhundi held ég að mér sé hollast að birta hugleiðingar mínar í áföngum. Brátt mun koma í ljós hvort þau fögru fyrirheit verði að einhverju.
Í gær komum við heim úr 8 daga fjölskylduferðalagi. Heilmargt var aðhafst. Föstudaginn 23. maí lögðum við af stað og keyrðum sem leið lá heim í Hérað. Áningastaðir á leiðinni voru Alvörubúðin á Selfossi, en Jón Özur og Alda gáfu kaffi og nýbakað flatbrauð. Því næst var það Seljalandsfoss og þar á eftir Núpsstaður, þar sem við mátuðum Bænhúsið, Davíð altarið og ég orgelið/harmóníum-ið, sem var í toppstandi. Þaðan var straujað alla leið heim. Mamma bauð upp á miðnætursnarl og svo komum við okkur haganlega fyrir í Hólmavogi, hvar við höfðum náttstað allan tímann.
Síðan var tekið til við að sýna Austurland og var Fljótsdal gerð hvað best skil, en auk þess að labba upp að Hengifossi, heimsækja Skriðuklaustur og Valþjófsstað, gengum við upp með Jökulsá í Fljótsdal (frá bænum Egilsstöðum) og enduðum í lauginni þar sem Snæfellið blasti við og skartaði sínu fegursta. Mér var þó gert ljóst af ferðafélögunum að fleiri svona fjallgöngur yrðu ekki samþykktar það sem eftir var ferðarinnar og þar við sat.
Hestarnir á Skipalæk voru prófaðir, Seyðisfjörður skoðaður, lausleg úttekt gerð á mannskap og búfénaði á Kirkjubæ í Hróarstungu, en þar býr föðurbróðir minn. Reyndar tókst mér að draga ferðafélagana fótgangandi upp að Grettistaki á Ekkjufelli, einungis vegna þess að ekki er lengur leyfilegt að fara þangað á hesti. (Ég hef hugleitt að taka mér stöðu einhvern daginn við hlið Helga Hóseassonar með skilti sem stendur á "Hestamenn eru líka menn", því við erum alls staðar réttdræp á þessum síðustu og verstu tímum... a.m.k. í gróðrarstíunni þarna fyrir austan).
Afkvæmi Davíðs reru út í Hólma og skoðuðu unga. Mig minnir fjórar hreindýrahjarðir hafa orðið á vegi okkar, ein í Ási í Fellum, ein við Bessastaðaána og tvær á Jökuldal. Ég næ ekki alveg flottinu við þessar hreindýraveiðar, mér finnst þetta álíka mikið sport og að skjóta beljur úti í haga. Bændur gætu haft það í huga hvort ekki sé hægt að græða á því að selja veiðileyfi á sauðfé og kýr. Þeir gætu þá sparað sér ómakið við slátrunina og skotveiðimenn fá að skjóta. Allir græða.
Hvert sem við komum var slegið heimsmet í gestrisni og yndislegheitum og er Héraðsbúum og Seyðfirðingum öllum, sem vilja gangast við okkur, hér með þakkaðar veittar velgjörðir.
Aðalmaðurinn í ferðinni var þó að sjálfsögðu Sigurjón Torfi, sem sýndi mikla snilldartakta og öllum varð ljóst að hann er mikið og upprennandi gáfumenni. Fast á hæla hans fylgir Sigrún Ólafs-og Rannveigardóttir, en hún hefur margsýnt og sannað að hún er sko ekkert blávatn. Ég efast um að margir hafi drýgt jafnmargar hetjudáðir og hún hefur gert, rétt tæplega eins árs að aldri.
Þá kveð ég að sinni með tár á kinni-nni
(og hugsanlega nokkrum myndum ef bloggerinn lætur vel að stjórn)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli