miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Egósentrían

Átta staðreyndir um sjálfa mig.

Byrjum á fjórum staðreyndum úr nútíðinni:

1. Ég er orðin fastráðinn píanókennari til eins árs. Það munu vera tímamót.
2. Bráðum hefur göngu sína útvarpsþáttur á rás 1 sem heitir Ætti ég hörpu og fjallar um hljóðfærin í sinfóníuhljómsveitinni. Umsjónarmaður þáttarins er undirrituð, en hugmyndina að nafni þáttarins, sem mér finnst undurfallegt, átti Kristján Ketill Stefánsson. Hann á stórar og miklar þakkir skildar fyrir að hafa gefið mér hugmynd sína til afnota og það án nokkurra stefgjalda, stimpilgjalda, umsýslugjalda eða annarar tollheimtu. Ég lýsi því hér með yfir að í staðinn má hann koma í humarveislu heim til mín og má velja daginn sjálfur.
3. Ég er með ónýtan kjálka, get bara opnað munninn einn fjórða af því sem eðlilegt er og íslenskir læknar og tannlæknar kunna ekki að laga þetta. Ég get t.d. ekki bitið í banana af því hann er of þykkur til að komast á milli framtannanna. Með þessu verð ég víst að lifa héðan af.
4. Mér finnst margt skrítið í kýrhausnum.

Fjórir fortíðardraugar:

1. Ég er ennþá fúl yfir því að félagsmiðstöðin í Fellabæ hafi ekki verið látin heita Svalur salur, eins og við Garðar Eyjólfs stungum uppá.
2. Á grunnskólaárum mínum leið mér aldrei verr en þegar ég neyddist til að skrýðast leikfimibúningi og gera einhverjar æfingar. Mér fannst þetta eitthvað megahallærislegt.
3. Þegar ég var lítil fannst mér ekkert í heiminum jafnhræðilegt og ókunnugt fólk. Ég fór alltaf að hágráta þegar ókunnugir nálguðust. Þetta lagaðist við það að fara til Mallorca þegar ég var 7 ára, því þar var eintómt ókunnugt fólk og lítið fútt í því að grenja allan daginn. Það var einmitt í sömu ferð sem Helena vinkona opnaði fyrir mér undraheim prakkarastrikanna. Hápunktur prakkarastrikanna á Mallorca var síðasta daginn, en þá strukum við Helena til þess að þurfa ekki að fara heim, en okkur fannst það tilvalin leið til að fá foreldra okkar til að flytja til Mallorca. Ef þau misstu af flugvélinni, þá hlytu þau að hætta við að fara heim.
4. Ég hef gert nokkrar misheppnaðar tilraunir til þess að næra byltingasinnann innra með mér, en frumraunina þreytti ég ásamt nokkrum ungum og efnilegum kommum á Egilsstöðum nóttina fyrir Alþingiskosningar árið 1999 með því að draga sovét fánann að húni við kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins þar í bæ og sömu nótt dregið fána Framsóknarflokksins í hálfa stöng. Árangurinn var enginn, D og B rústuðu dæminu og mynduðu ríkisstjórn, svo ég missti trúna á aktivismann.

Best að klukka þá Davíð og Kristján Ketil.

2 ummæli:

  1. Til hamingju með píanókennarastarfið, og mér finnst fánaprakkarastrikið fyndið :-D

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus4:48 e.h.

    Úps... ég var víst klukkaður, verða að fara gera eitthvað í því ;)kveðja
    Kristján K

    SvaraEyða