miðvikudagur, september 26, 2007

Status quo

Þær eru fáar, afgangsmínúturnar í sólarhringnum. Ég reyni helst að nýta þær til hreinlætisiðkunar hvurs konar, hvort sem er á sjálfri mér, hólfum eða gólfum. Þetta þýðir þó ekki að ég arki um bæinn ilmandi eins og sjampóbrúsi og body lotion, né heldur að íbúðin mín sé bæði spikk og span.
Þetta er meira þannig að ég rétt næ að skola skítinn af sjálfri mér og halda íbúðinni í lagi með dyggri aðstoð frá miklubetri hemingnum.

----- Húsráðahornið -----

Um daginn varð mér hugsað til þess hvað börn eru miklu gáfaðri en fullorðnir.
Á forsíðu Blaðsins var mynd af nokkrum stelpum í pollagöllum og sagt frá því að þessar stúlkur hefðu haft í nógu að snúast í rigningunni. Þær höfðu fundið ánamaðk, sem þegar hafði fengið nafnið Elísabet og voru í óða önn við að finna handa henni kærasta.

Eigi veit ek svo ofboðslega gjörla hvort það sé æskilegt að hugsunarháttur stúlkna undir sex ára aldri snúist um nauðsyn þess að eiga kærasta. Þá hef ek eigi í hyggju að kryfja þann hluta málsins nokkuð frekar. En hitt veit ek, að ef fullorðnir væru jafn gáfaðir og börn, þá leyfi ég mér að efast um að þjóðfélagið væri jafn gegnsýrt af geðlægðum og orkuleysi og eirðarleysi og ófullnægju og öllum þessum samfélagslegu disfúnksjónum og raun ber vitni.
Barn, sem fer að tilskipan fullorðinna, út í rigningu, horfir í kringum sig í u.þ.b. hálfa mínútu og hugsar hvað það eigi að gera. Svo eftir hálfa mínútu er ánamaðkurinn Elísabet og leitin að vonbiðli hennar, búin að bjarga deginum.
Fullorðinn, sem ræður sér sjálfur, horfir út í rigninguna, fyllist vonleysi um leið og hann sér ósmurðu bíldrusluna sína, fær öll aukakílóin fimm á heilan og þau, ásamt raðgreiðslum og gluggapósti er búið að rústa deginum áður en hendi er veifað. Og ef það er ekki ósmurði bíllinn, aukakíló eða gluggapóstur, þá er það bara eitthvað tilfallandi á degi hvurjum.
Húsráðið að þessu sinni er því andlegt, en gæti dregið úr útgjöldum, ef ekki bara drýgt heimilistekjurnar: Spörum kostnað við geðlægðarslagsmálin, látum ánamaðka eða hvað annað tilfallandi, bjarga deginum.

-----

Ég fann snilld.com á netinu. Ég gæti flutt eitthvað langt, langt í burt á næsta ári. Allt um það seinna.

1 ummæli:

  1. nú er ég forvitin. við þurfum að fara að hittast í kaffi við skemmtilegri kringumstæður en síðast, langar þig ekki í bíltúr í næstu viku?

    SvaraEyða