laugardagur, október 13, 2007

Ekki Villa Dagur

... er um það bil hallærislegasta fyrirsögn sem ég hef á ævinni lesið. Minnir helst á fyrirsagnir í gamla Pésanum, málgagni nemenda ME, en í það var sjaldan lagður mikill metnaður, gelgja og hormónaflóð lak af hverri síðu og prófarkarlestur með minna móti.

Ég man ekki hvar það var sem ég las fyrirsögnina SVIPTUR SÁLFRÆÐI. Ég þurfti að lesa alla greinina til að komast að því að maðurinn sem um ræddi hafði ekki verið sviptur rétti sínum til að leita sér sálfræðiaðstoðar, heldur var hann sviptur sjálfræði. Ég verð að segja að þó það hafi verið heldur slæmar fréttir, a.m.k. fyrir hann, þá var það nokkur léttir fyrir mig. Það þarf að endurskoða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar farið verður að svipta menn sálfræði.

----- Meirihlutasamstarf D og B in memoriam-----

Þó ég sé alla jafna dugleg að röfla og rífast, þá hef ég aldrei hikað við að gefa þeim prik sem unnið hafa fyrir þeim. Sjálfstæðismenn í Reykjavík stigu stórt og mikilvægt skref í umhverfismálum meðan þeir voru við völd, sem var að gefa ákveðnum þjóðfélagshópi ókeypis í strætó. Við tónlistarnemar vorum reyndar skilin útundan til að byrja með, en það var leiðrétt nú í byrjun október, svo ég gaf þeim fjöður í hattinn sinn. Mér finnst sjálfsagt að eigna þeim sjálfstæðismönnum þetta, því þrátt fyrir að samstaða hafi verið um þetta í borgarstjórn, þá höfðu R-lista flokkarnir haft ... jah ... 12 ár til að gera eitthvað svipað, en létu þó ógert. Nú verð ég bara að vona að þeir í R-genginu bæti um betur og gefi öllum ókeypis í strætó áður en kjörtímabilinu lýkur.

Hins vegar finnst mér Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson varla hafa efni á því að kvarta yfir framferði Björns Inga. Hvað gat það orðið gáfulegt að taka flokk með sér í meirihluta sem hafði bara einn mann inni? Þessi eini maður gat þá að sjálfsögðu slitið samstarfinu einn og sjálfur. Fyrir svo utan það að Vilhjálmur Þ. var nú ekkert sérlega duglegur að mæta á fundi með þeim sem báðu hann um það um það bil sem hann náði kjöri.

Það er einhver diss-tíska í stjórnmálaheiminum á Íslandi í dag.

Megi sá syndlausi kasta fyrsta steininum úr glerhúsi.

3 ummæli:

  1. Nafnlaus9:42 e.h.

    já og svo má heldur ekki gleyma því að Júlíus Vífill sem formaður menntaráðs tók aldursfjötrana af tónlistarnáminu um leið og hann tók við. Vona bara virkilega að það verði ekki eyðilagt :o

    Heyrðu, hvernig er það, fá þá allir sem eru í framhaldsnámi strætókort, eða bara þeir sem eru í fullu tónlistarnámi og engu öðru? (Fífa mín tók sko miðstigið í vor en er enn í 10. bekk...)

    SvaraEyða
  2. Segðu...

    Varðandi Fífu, spurðu þá bara Kjartan Óskars hvernig þetta virkar, þetta er algjörlega honum að þakka, hann barði þetta í gegn.

    SvaraEyða
  3. Mér fannst þetta frábær fyrisögn, gott að koma með húmor inní þessa hundleiðinlegu fréttatíma.

    Ekki Villa dagur
    Ekki villa, Dagur
    Ekki Villa, Dagur

    SvaraEyða