Á þessum fallega sunnudagsmorgni sit ég og dásama sólina og vorið með kaffi í bolla. Það eru flygsur í kaffinu mínu. Kannski eiga þær að minna mig á tunglið og stjörnurnar.
En meðfram því að dásama sólina og drekka kaffi er ég að reyna að finna út úr því hvernig splunkunýja tækniundrið mitt virkar. Kallið þið mig bara ullarsokk, en ég er samt að slást við fyrsta ipodinn minn. Ipod er ljótt útlenskt orð og verður hér eftir nefnt ípottur á þessari síðu, með vísan til þess að hægt er að líkja þessu við stóran pott sem maður setur í tónlist og grautar henni svo saman. Ég kann ekkert á þetta dót og kann yfirhöfuð lítið á tæki. Ég hef þó óljósan grun um að ípotturinn minn sé mikið snilldartæki þegar maður kann á hann. En þar sem ég sit og velti þessum hlutum fyrir mér, komst ég ekki hjá því að hugsa með hlýju til hins undursamlega segulbands, sem nú heyrir sögunni til. Vasadiskóið mitt er hér niðri í skúffu og bíður þess að ég fari með það á Þjóðminjasafnið.
Mikil arfasnilld var annars segulbandið. Mamma og pabbi áttu fullt af vinylplötum þegar ég var lítil, en ég mátti ekki koma við þær fyrr en ég var orðin nokkuð stór. Ég hef óljósan grun um að það sé einmitt ástæðan fyrir því að þær eru allar órispaðar í skápunum mínum hér í vesturbænum og unaður á að hlýða. Plötuspilarinn frá Ullartanganum er eins og nýr og magnarinn og sama má segja um magnarann og hátalarana sem mamma fékk í fermingargjöf. Vinyl formið er eitt af mínum eftirlætis tónlistargeymslum. Að heyra suðið í nálinni og að standa upp og snúa við. En hins vegar er dálítið fyrirtæki að fara út að skokka með tónlist á vinyl. Því var sjálfsagt og þarft að finna upp nýtt geymsluform sem hægt væri að flytja með sér og nota á ferð og flugi. Og það tókst mönnum með miklum ágætum þegar þeir fundu upp segulbandsspóluna og vasadiskóið. Segulbandsspóla er allt að því fullkomið form til að geyma hljóðupptökur og ef út í það er farið, þá er myndbandsspóla fullkomið form til að geyma myndir. Til þess að eyðileggja segulbandsspólu þarf einlægan brotavilja. Til þess að eyðileggja geisladisk eða DVD þarf að koma varlega við hann og passa hann vel. Þegar ég var lítil átti ég allt mitt á segulbandsspólu, allt frá Emil í Kattholti til Debut plötu Bjarkar Guðmundsdóttur (og já, tónlist var gefin út á segulbandi árið 1993, meira að segja miklu lengur). Þessar spólur eru allar heilar og ég hlusta oft á þær. Ég mátti handleika þær sjálf, bara ef ég passaði að toga ekki bandið. Árið 1993 fékk ég geislaspilara frá pabba og Grétu í jólagjöf, discman ferðageislaspilara. Mikil ágætisgræja. Hins vegar eru fáir geisladiskanna sem ég fékk það árið heilir og þrátt fyrir það hef ég passað þá eftir fremsta megni. Ósjaldan þegar maður fer út á leigu og tekur kvikmynd á DVD eru þeir rispaðir og vonlausir. Ég man ekki til þess að hafa handleikið ónýta myndbandsspólu á ævinni. Ég hef heyrt sögur um þær, en aldrei séð svoleiðis með eigin augum.
Síðast en ekki síst skal minnast þessa ágæta áhugamáls segulbandskynslóðarinnar, sem var að tala inn á spólur. Búa til útvarpsleikrit og þætti, syngja og láta eins og kjáni. Þegar ég var úti í Þýskalandi skrifaðist ég á við vini mína, oftast reyndar með penna á pappír, en stundum sendum við segulbandsspólur á milli.
Sú var tíðin.
Jákvæðnisrokkstig mánaðarins renna annars óskipt til Elísabetar Jökuls fyrir flugnatilgáturnar. Hins vegar komst ég aldrei að sannleikanum um flugurnar, svo vinningshafinn í gátunni er enn ókunnur.
Hjartanlega til hamingju með ípottinn, gæskan. Það hefur einmitt oft þvælst fyrir mér í þýðingum hvort ekki væri hægt að finna almennilegt íslenskt nafn á þetta fyrirbæri og nú hefur þú komið með það.
SvaraEyðaSjáumst á miðvikudaginn!
Til að eyðileggja kasettur: Já, einlægan brotavilja, eða gleyma þeim í buxnavasanum sem fara síðan í óhreinatauið. Móðir mín kunni mér litlar þakkir þegar hún þurfti einu sinni að rekja þvottinn út úr vélinni...
SvaraEyðaOg ég á líka ípott. Og endalaust magn af tónlist í húsi sem svosem væri alveg gaman að setja á hann og þramma svo með í eyrunum um bæinn...
En nennir maður því? Ég veit ekki einu sinni um kvikindið.
Þú, yndisfagra systir mín, ert embodiment nostalgíu. Það er dásamlegt hvað þú ert af heilum hug sannfærð um alsemdar dásemdar dýrð alls gamals og góðs. Og því elska ég þig meira en himinn og jörð, kjánaprikið mitt! Litla syss
SvaraEyða