miðvikudagur, maí 28, 2008

Gott eða vont?

Yfirleitt er ég á því að allt hafi verið betra þegar ég var lítil heldur en það er í dag.
En stundum finnst mér svindl hvað allt breytist hratt og er miklu meira spennandi heldur en í þá daga. Að vísu finnst mér afar glatað að ég geti t.d. sagt: "Fyrir 20 árum síðan... " og munað rosalega VEL eftir því sem ég er að tala um. T.d. man ég mjög greinilega að fyrir 20 árum síðan fór ég í mína fyrstu utanlandsferð með mömmu og pabba og Kristínu Örnu. Við fórum til Mallorca. Ég man mjög greinilega eftir því að þar t.d. varð ég fyrir stærstu vonbrigðum lífs míns. Ég hafði bara séð sykurflos í kvikmyndum og hélt að þetta væri besta nammi í heimi. Strax og ég sá sykurflos í boði varð ég náttúrulega að fá að prófa. Þetta er eitt það viðbjóðslegasta sem ég hef á ævi minni smakkað og hef aldrei reynt það síðan. Það er til mynd af mér með sykurflosið sem ég kláraði ekki og ætlaði aldrei að jafna mig á því að þetta stórkostlega girnilega ævintýrabómullarnammi væri bara vont á bragðið. Það hlaut eitthvað alvarlegt að vera að mér. Sykurflosið var að vísu það eina vonda sem fyrir mig kom í ferðinni. En svo man ég bara rosalega margt fleira, bæði sem gerðist fyrir 20 árum síðan og meira að segja miklu fyrr. Ég get þó huggað mig við það að ég er ekki með grátt hár á hausnum ennþá.
Síðan ég þurfti að bíta í súra sykurfloseplið um árið hef ég reyndar oft þurft að sætta mig við að mér finnst yfirleitt eitthvað annað en hinum í heiminum og yfirleitt hafa fylgt því nokkrar vangaveltur um það hvort eitthvað sé að mér eða hvort eitthvað sé að öllum hinum í heiminum. Yfirleitt er þó auðveldast að líta í eigin barm, en farsælast að sætta sig bara við að vera jólasveinn.
En þegar tímarnir breytast hratt upplifir maður mörg vonbrigði. Oftast upplifi ég þau í tengslum við námsframboð. Þegar ég var gelgja átti ég mér þann draum að fara eftir stúdentspróf til Rússlands og læra dramatúrgíu. Ég hafði kynnst Ásdísi Þórhallsdóttur, leikstjóra, sem lærði einmitt þar í landi og hún bauðst meira að segja til þess að aðstoða mig við að komast í samband við fólk svo ég hefði einhvern til að tala við þar ytra. En ég hætti við, þar sem ég hafði enga möguleika á að læra rússnesku, en það hafði Ásdís gert í menntaskóla. Svo bara leiddi eitt af öðru og ég var bara upp um alla veggi og súlur, endaði einhvers staðar úti í buskanum og var eiginlega búin að gleyma þessum draumi.
En svo áðan, þá álpaðist ég fyrir tóma slysni inn á heimasíðu menntaskólans míns gamla og fyrir einhverja þaðan af meiri rælni ýtti ég á tengilinn 'námsframboð'. Og hvað skyldi vera með því fyrsta sem ég rek augun í? Jú, rússneska. Og ekki bara 103 og ekki bara 203 heldur 303! SVINDL!!! Þegar ég lauk stúdentsprófi var ekki einu sinni hægt að læra rússnesku í háskólanum!
Til fjandans með fæðingarárið 1981. Af hverju get ég ekki verið lítil NÚNA? Þá kynni ég kannski að nota dót eins og ipod og facebook og kynni emo mál og svoleiðis. Þá myndi ég skrifa svona:
Ógó gegt fokkíngs ruggggggl a þúst úst st st st þa ariggi rúss-ska þer é ar í menntskla?

3 ummæli:

  1. Alyktunin sem eg dreg af tessum posti er: "aldrei ad lata namsframbod menntaskolans i sveitabaenum tinum breyta plonum tinum" - ae ju og eitt annad, eg er viss um ad russland se betri vettvangur til ad laera russnesku en ME, to teir bjodi upp a 303 :D Taktu Ker og Hafdu Fön. LOVE YOU! K

    SvaraEyða
  2. Sammála síðasta ræðumanni. Ég lærði frönsku allan menntaskólann, og var alltaf best í bekknum enda ákveðin í að fara út. Samt skildi ég ekki orð og var eins og haltur hani í eitt ár. Maður lærir ekki tungumál fyrr en á staðnum.
    Og mikið er ég fegin að hafa þurft að lesa síðustu setninguna þrisvar til að skilja hana.

    SvaraEyða
  3. Þar sem enn finnast unglingar sem tala fallega íslensku er ég nokk viss að þú hefðir hvort eð er verið í þeim hópi. Hvað varðar rússneskuna, blessuð vertu skráðu þig í hana hjá ME og notaðu hvert tækifæri að heimsækja fólkið þitt.
    Kommón, allir eiga skilið að láta æskudraumana sína rætast, þegar og ef það er í boði.

    SvaraEyða