föstudagur, júlí 18, 2008

Keilir

Þegar ég flutti til Reykjavíkur var ég staðráðin í að klífa í það minnsta þrenninguna Esju, Keili og fara upp að Glym í Hvalfirði. Esjuna afgreiddi ég fyrir margt löngu síðan, svo löngu reyndar að það fer alveg að koma tími á að endurtaka leikinn, en Keilir komst ekki á afrekaskrána fyrr en í dag. Einhvern veginn hefur það yfirleitt æxlast þannig að ég hef ekkert verið að ganga á fjöll nema utan stórreykjavíkursvæðisins og nágrennis. Kann ég Brynju föðursystur minni hinar bestu þakkir fyrir að drífa mig í fjallgöngugírinn. Við lögðum af stað um hádegið ásamt Öldu Kravek, vinkonu Brynju frá Vancouver. Veðrið var ekki af verri endanum, að vísu vindbelgingur á uppleiðinni og svo blés líka vel á toppnum. En skyggnið bætti veðrið upp, en það reyndist fullkomið. Það sást varla skýhnoðri á himni og fjallahringurinn brosti allur til okkar að Snæfellsjökli, Laugarvatnsfjöllunum og Eldey meðtalinni. Yndislegt útsýni.
Á niðurleiðinni brugðum við á það ráð að fara aðra leið niður en við komum upp, en þá höfðum við, eins og lög gera ráð fyrir, gengið eftir stígnum. Minnugar vindbelgingsins ákváðum við að fara ótroðna slóð niður. Hún var nokkuð þungfær, ekki vegna klifurs, heldur vegna grjóts, sands og moldar sem átti erfitt með að standa kyrrt þegar stigið var á það. Ég mæli með því að þessi leið sé farin á niðurleiðinni, því við græddum ekki bara steikjandi hita í fullkomnu skjóli við fjallið, heldur líka afar skemmtilegt sjónarhorn á móbergið í fjallinu. Við áðum í miðju fjallinu, á litlum grasbala og eftir það var ég vart til viðtals, því ég uppgötvaði nýja stillingu á myndavélinni minni. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að taka myndir af pínulitlum hlutum, en komst að því í þessari fjallgöngu og lá því það sem eftir var ferðarinnar á maganum og tók myndir af krækiberjum. Næst þegar ég fer til útlanda mun ég eflaust bara taka myndir af skordýrum.

Að fjallgöngu lokinni töfraði ég fram linsubaunakássu frá hjartanu, kryddaðri með mikilli ást. Ástinni á náttúrunni. Á morgun ætla ég aftur að elda ástarmat. Mikilvægasta kryddið í hverjum rétti er ástin og mikilvægasta meltingafærið eru augun. Þar byrjar meltingin.

Með færslunni áttu að fylgja myndir af allri dýrðinni, en þær verða að bíða þangað til myndavélasnúrunni minni þóknast að birtast mér aftur.

Með sól í sinni,

1 ummæli:

  1. Nafnlaus7:19 e.h.

    voðalega rómantískt hjá þér :)

    semdu líka músíkina þína af ást! þá er auðveldara að spila hana :)

    SvaraEyða