þriðjudagur, júlí 08, 2008

Leiðbeiningar

Að einu leyti, ef ekki mörgum fleirum, sver ég mig fullkomlega í ættina Íslendinga. Ég les ekki leiðbeiningar. Þegar ég kaupi mér hluti, þá byrja ég á því að henda leiðbeiningabæklingnum frá mér, helst týni ég honum um leið og byrja svo að fikta í hlutnum og finna út úr því hvernig hann virkar. Að vísu gerir eðli hlutanna það oft að verkum að leiðbeiningar eru allt að því óþarfar. En við Davíð deilum ekki þessu leiðbeiningahatri. Davíð er nefnilega þannig úr garði gerður að hann getur ekki horft á bókstafi á prenti sem er raðað í skipulega röð öðru vísi en að lesa þá, greina merkingu orða og helst líka undirliggjandi boðskap og hulda merkingu textans.

Á laugardaginn áttum við að mæta í grillveislu út í sveit og ég sá mér leik á borði. Nú væri rétti tíminn til að vígja lautarferðarsettið sem ég fékk einhvern tíma gefins frá bankanum mínum. Hnífapör, diskar, glös og græjur í bakpoka, kyrfilega merktum Sparisjóði Reykjavíkur og nágrenis (sem brátt mun heyra sögunni til ef marka má nýjustu fréttir úr viðskiptalífinu). Nema hvað. Ég næ í bakpokann, byrja á því að henda leiðbeiningamiðanum á eldhúsborðið og byrja að rífa matarstellið úr pokanum til að þvo það. Davíð greip miðann á lofti og setti á öruggan stað. Eftir að hafa þvegið matarstellið helltum við upp á kaffi og Davíð byrjaði að lesa. Eftir smá stund sagði hann: Ég held að þetta sé framleitt í Kína.
Ég: Nú, eru hrísgrjón í bakpokanum?
Davíð: Nei, þetta er á svo lélegri ensku...
og fór að lesa leiðbeiningamiðann fyrir mig. Þetta reyndist hin besta skemmtun og það sem meira var, við komumst að því að græjurnar komu beint frá Kína. En hér er miðinn. Tilvitnunin er þráðbein, allt skrifað upp nákvæmlega orðrétt. Góða skemmtun:

----

WARNING

All equipment in this bag is not a toy, to avoid danger, please keep them away from babies and children.

Please wash all the picnic ware in warm soapy water before use.

Sharp blades or points in this bag, use great care when unpacking, using or cleaning these items.

All the picnic ware are not suitable for microwave use.

Bottle opener (if included) is non-food contact item, please don't contact any food and drink.

----

Leiðbeiningabæklingar þurfa ekki að vera svo afleitir eftir allt saman. Að gleðinni ógleymdri sem fylgir því að læra ný orð. Nú er orðið non-food contact item mikið notað á heimilinu.

5 ummæli:

  1. Nafnlaus12:38 f.h.

    Þetta er alla vega skemmtilegra leiðbeiningarblað en fylgdi með garðborðinu mínu. Það var bara mislukkað, ekki einu sinni hægt að brosa að því.
    kv.
    Rannveig Árna

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus8:32 f.h.

    Hahahaha snilld! Kv. Dagmar

    SvaraEyða
  3. Þetta er einmitt öfugt á mínu heimili, þar er það ég sem sest niður og les leiðbeiningar en maðurinn minn sem bölsótast og fiktar og skilur ekkert í þessu "helv... drasli" :)

    SvaraEyða
  4. Þið ættuð að sjá leiðbeiningarbæklinginn sem fylgdi sekkjapípunum mínum. Skrifaður á ensku í Pakistan og ber þess nokkur merki. Hef ekki enn náð hljóði úr pípunum.

    SvaraEyða
  5. Ég er að reyna að sjá fyrir mér hvaða slys gætu hlotist af því að nota tappatogara eða flöskuopnara sem food contact item og eins hvernig notandinn myndi þá beita slíku verkfæri.

    SvaraEyða