Ég rankaði við mér eftir fyrstu vikuna í skólanum og áttaði mig á því að ég hafði bara eiginlega ekki talað við neinn í skólanum nema kennarana og þá sem ég hafði þekkt áður en ég byrjaði þar.
Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri afleit frammistaða og ákvað að taka mig saman í andlitinu. En nú er alkunna að "mingl" ... eða svona spjall við ókunnuga til þess að brjóta ísinn og segja eitthvað, það er bara ekki mín sterka hlið. Mér finnst þetta millistig milli þess að þekkja fólk og að þekkja það ekkert, frekar erfitt. Mér finnst þægilegra ef hinir gefa sig fyrst á tal við mig.. en veit jafnframt að það er ósanngjörn krafa, því ég á að leggja mig fram um að kynnast fólki ef ég vil þá á annað borð þekkja einhvern. Að vel ígrunduðu máli hóf ég að tala við flesta þá sem á vegi mínum urðu og spyrja þá til nafns alla þessa viku. Spurning hvort ég sé nokkuð að fara hamförum? Ætli mannorð mitt sé í hættu?
Samtal við sjálfa mig:
Ég: Hvað ætli fólki finnist um mig?
Samviskan: Í fyrsta lagi, þá kemur þér það ekki við. Í öðru lagi, heldurðu virkilega að fólk eyði mjög mörgum klukkustundum á dag í að mynda sér skoðanir á þér? Það er afar ólíklegt, þar sem flestir hafa annað og mikilvægara við tíma sinn að gera og eru auk þess trúlega að velta fyrir sér sínum eigin hugðarefnum þegar þeir mega vera að því að láta hugann reika. Í þriðja lagi, þá á annað fólk fullan rétt á því að mynda sér skoðanir um þig sjálft, án þess að þú reynir að hafa áhrif á skoðanamyndun þess... en að sjálfsögðu að því gefnu að fólkið ætli sér yfir höfuð að mynda sér skoðanir um þig, sem er allsendis óvíst og jafnvel minni líkur á því en meiri. Í fjórða lagi, það að ætla sér að hafa áhrif á hvað öðru fólki finnst um mann er almennt hættuspil. Þá verður maður eins og Susan í Desperat Housewifes.
Ég hef því komist að þeirri niðurstöðu að það skiptir ekki máli hvort maður slysast yfir fínu línuna eða ekki...
Einmitt. Nákvæmlega samtalið sem ég á reglulega viðo sjálfa mig... og virðist alltaf gleyma fljótlega aftur.
SvaraEyða>:-(
Mér finnst gaman að lesa bloggið þitt....
SvaraEyðahey og mamma þín heilsaði mér um daginn, hún mundi eftir mér frá því í fyrrasumar...og það sem meira er ég mundi eftir henni...þó ég myndi ekki alveg nafnið...
Gaman að þessu
Kv. Heiðdís :D
ég hélt að ég myndi nú komast yfir þetta svona um þrítugt. sjáum til. enn er rúmt ár til stefnu : )
SvaraEyðaLes bloggið þitt reglulega og hef mjög gaman af !Bara svo þú vitir það þá fannst mér áfkaflega skemmtilegt að kynnast þér í þýskalandsferðinni í sumar :) Svo ,, let go and let God"
SvaraEyðaBestu kveðjur úr Mosó, Arndís Linn
Heyrðu, ég er viss um að setningin "Fórstu til berja í haust?" er góð til að brjóta ísinn og stofna til kynna.
SvaraEyðaAlla vega virkar þessi setning alltaf vel á mínu heimili þegar leysa þarf upp vandræðalega stemningu.
Kveðja
Rannveig