þriðjudagur, október 14, 2008

Úr kýrhausnum

Já, við fyrsta árs nemar í Listaháskólanum vorum sumsé send í Skálholt í fimm daga, á námskeið í rythmískri þjálfun og til að kynnast hvort öðru. Skálholt er yndislegur staður og ferðafélagarnir hver öðrum yndislegri. Lítið sofið, mikið spilað, dansað, sungið og að sjálfsögðu borðað.
Annars er ég í svipuðum gír og síðast. Í skólanum er stuð, sérstaklega þegar maður hefur náð að sinna heimaverkefnunum sæmilega. Systkini mín eru langt í burtu frá mér og ég jafn langt í burtu frá þeim, sem mér þykir afar miður.

Ég er leið á þessu efnahagsbulli. Þetta er engu að kenna nema mennskunni. Engin manneskja höndlar völd. Sá sem er við völd of lengi, sama hvernig völd, verður klikkaður. Það er fasti. Engin manneskja höndlar heldur að sjá grilla í gróðavon. Enn verr höndlar manneskjan þegar hún eygir von um skjótfenginn gróða og þaðan af verr höndlar hún að eygja von um skjótfengan, stóran og mikinn gróða.
Ég efast um að anarkí hefði skilað okkur á verri stað en við erum á núna, þjóðin og heimsbyggðin.

Bára spurði á sínu bloggi hvort einhver muni hvað var í fréttunum áður en efnahagskreppan skall á. Ég man það alveg. Fréttir af skítkasti og fúlmennsku innan veggja ráðhússins, meirihlutaslit í Reykjavík og myndun nýs, þar á undan meirihlutaslit og myndun nýs og þar á undan meirihlutaslit og myndun nýs. Geir H. Haarde fúll og afundinn þegar hann var spurður um stöðu krónunnar. Davíð sneri út úr og öllum fannst það æðislega fyndið. Megi þeir hinir sömu endurtaka þann hlátur í fréttatíma í bráð. Þar á undan var mál REI og Geysis Green Energy. Þar á undan Friðarsúlan. Hún var að vísu aftur í fréttunum núna. Skál fyrir Yoko. Hún sagði, aðspurð hvort við myndum læra eitthvað af þessu ófremdarástandi: "Já, við verðum að gera það!" Við höfum ekkert val. Nú segja sumir: Já, en hvað á ég að læra af mistökum sem ég gerði ekki? Ég svara því þannig: Kjósa eitthvað annað en einkavæðingar- og auðvaldssinna og helst eitthvað annað en umhverfisfasista og stóriðjufíkla. Skila auðu ef ekkert af því sem er í boði er þér að skapi. Ég held reyndar að það yrði vænleg leið til að ná fram almennilegri uppstokkun að meirihluti kjörseðla væru auðir í næstu kosningum. Þá fer fólk kannski að hugsa sinn gang.

Speki dagsins, vikunnar, mánaðarins, ársins, aldarinnar og allra tíma:
Freedom is just another word for nothing left to loose.

PS. Þetta verður síðasta þjóðmálabloggið. Ég verð að fara að hugsa um eitthvað skemmtilegt. Jákvæðnisþerapían mín er greinilega öll á hvolfi.

3 ummæli:

  1. Nafnlaus8:48 f.h.

    Hérna, nú spyr ég eins og asni, hvað ertu að læra í Listaháskólanum?

    SvaraEyða
  2. Fyrirgefðu hvað ég er búin að vera lengi að svara þessari einföldu spurningu. Í fyrsta lagi, þá spyr maður aldrei eins og asni.. maður verður fyrst asni ef maður spyr einskis, því þá lærir maður ekkert! Í öðru lagi, þá er ég í leikhústónsmíðum og píanói í Listaháskólanum.

    SvaraEyða
  3. Þú ert svo nálæg mér, innst í hjartanu - gætir ekki verið nærri! Og það eruð þið bæði :* K

    SvaraEyða