þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Ritskoðun

Mér varð á... já, eins og oft áður. Punkturinn minn í færslunni hér áðan snerist upp í andhverfu sína í fljótfærnislega skrifuðum athugasemdum og óþörfu skoti úr hinni ósmekklegu byssu kaldhæðninnar. Þessi færsla átti nefnilega ekki að snúast um innflytjendur, heldur ummæli þessa pólska manns sem skv. fréttum á sunnudaginn var að kynna fyrir Íslendingum atvinnumöguleika í Póllandi. Ég vil frjálst flæði vinnuafls milli landa og það angrar mig ekki nokkurn hlut þó ég þurfi að tala útlensku á Íslandi, jafnvel þótt ég þurfi að nota einhvers konar táknmál eða líkamstjáningu á almannafæri. Ég hef orðið ríkari manneksja af því að kynnast fólki af erlendum uppruna, hvort sem það hefur verið í útlöndum eða á Íslandi. Ég verð yfirleitt forvitin og upp með mér þegar fólk sér ástæðu til að sækja þetta land okkar heim, til skemmri tíma, hvað þá lengri, hvort sem það eru skiptistúdentar í skólanum eða hver annar. Ég vil sem mest af útlendingum hingað til lands. Ég vil að landið sé opið, en ég vil líka að önnur lönd séu opin fyrir mig og alla aðra. Heimssýn mín er einföld, heimurinn er heimili mitt og allra hinna í heiminum. Fólkið í heiminum eru landar mínir, meðbræður og -systur. Þjóðerni og landafræði eru þar aukaatriði. Þannig átti punkturinn sem útlagðist óvart svona: Fyrst Pólverjar gera kröfu um að útlendingar kunni pólsku til að geta stundað þar atvinnu eiga Íslendingar að gera það líka, að hljóma svona:
FYRST INNFLYTJENDUR Á ÍSLANDI GETA FENGIÐ VINNU ÁN ÞESS AÐ KUNNA MÁLIÐ, AF HVERJU GETA INNFLYTJENDUR Í PÓLLANDI ÞÁ EKKI LÍKA FENGIÐ VINNU ÁN ÞESS AÐ KUNNA MÁLIÐ?
Hvað gerir pólskan vinnumarkað frábrugðin íslenskum varðandi þetta atriði?
Ég væri alveg til í að vinna í Póllandi og geri mér fulla grein fyrir að ég fengi ekki vinnu á einhverjum virðulegum ráðuneytisvinnustað án þess að kunna málið, ég myndi bara fara í uppvask á veitingastað eða eitthvað tilfallandi... það ætti ekki að vera mikið mál ef yfirvöld setja ekki stein í götu mína.
En annar hluti og hinn svæsnari af hrösun minni í þessari færslu var að það sem vera átti skot á yfirvöld í Póllandi eða bara þetta pólska atvinnuráðunaut sem talaði í fréttunum varð að skoti á innflytjendur og biðst ég hér með afsökunar á því opinberlega. Ég mun biðjast afsökunar persónulega í fyrramálið, það er orðið of seint að hringja í fólk núna.
Mig langar mest til að eyða færslunni og verksummerkjum öllum, en það væri sögufölsun. Ég ætla frekar að vera fyrirmynd fyrir ríkisstjórnina og bæta fyrir brot mitt í stað þess að sópa mistökum mínum undir teppi.
Megi samskipti heimilisfólksins í heiminum verða hin friðsamlegustu um alla framtíð.

Góðar stundir.

7 ummæli:

  1. Nafnlaus12:07 f.h.

    Ef þú ert að hafa áhyggjur af mér kæra frænka þá er ég bæði alveg ómóðguð og glaðvakandi.

    Aðstæður á íslenskum vinnumarkaði hafa verið mjög óeðlilegar undanfarin ár og mikill skortur á vinnuafli. Þessvegna hafa margir vinnuveitendur verið tilbúnir að líta framhjá tungumálahæfileikum ef fólk hefur getað haldið á hamri, hellt uppá kaffi, mætt á réttum tíma í vinnu o.s.frv. Eftir því sem fleiri hafa komið hefur jafnvel ekki verið þörf á því (t.d. í byggingariðnaði) að fólk kunni ensku því vinnufélagar úr hópi samlanda þeirra hafa getað túlkað.

    Aðstæður á pólskum vinnumarkaði eru hinsvegar svipaðar og hér fyrir þenslu. Það er vinnu að hafa, en ef fólk getur ekki talað neitt tungumál sem heimamenn skilja (helst pólsku, rússnesku og þýsku) þá er lítil von til þess að það verði ráðið.

    Ég veit ekki hvaða maður þetta er sem þú vitnar í en mér heyrist hann ekki vera að banna Íslendingum að leita sér að vinnu í Póllandi, bara að lýsa aðstæðum af raunsæi.

    Og áður en ég hætti sníkjublogginu, þá vil ég taka fram að mér hefur aldrei dottið í hug að þú sért útlendingahatari.

    Góða nótt,
    Gunnhildur

    SvaraEyða
  2. Hæ, ég efast ekkert um góðvild þína, hvort er í garð útlendinga, íslendinga... dýra eða grasróta.
    Ég er ekki heldur hatari, hvorki útlendingahatari né neins annars hatari. En ég bið þig, elsku systir... að tala varlega um að opna allan heiminn öllum. Við erum aldar upp við gestristni og opið heimili, sem er gott og vel. En maður vill samt hafa eitthvað um það að segja hver kemur inn á heimili manns og hvenær heimsóknirnar eiga sér stað. Kossaflóð, K

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus7:48 f.h.

    Bara tilgáta - er enskukunnátta í Póllandi etv ekki jafn almenn og á Íslandi? Jafn mótfallin og ég er þessu tala-alltaf-ensku-við-útlendinga trendi sem tröllríður öllu á Fróni, þá getur nú komið sér vel að geta gripið til annarra leiða en látbragðsleiks. T.a.m. þegar maður þarf að ná í skattkort eða sækja um sjúkratryggingu...

    En mér finnst í raun eðlilegt og sjálfsagt að gera kröfu um að innflytjendur læri tungumálið. Hins vegar verða yfirvöld þá að gera fólki það kleift, með því að bjóða upp á ókeypis tungumálakennslu, kennslu á vinnutíma o.fl. Og þar hafa íslensk yfirvöld ekki staðið sig nógu vel til að geta krafið alla um reiprennandi gullaldarmálskunnáttu!

    Og nei, ég hélt ekki að þú værir orðin útlendingahatari : )

    Kv.
    Agnes

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus12:31 f.h.

    Ég hitti mann frá Tékklandi í sumar sem hafði verið hér í tvö ár og kunni ekki stakt orð í íslensku. Ég var líka einu sinni í tímum hjá prófessor við Háskóla Íslands sem hafði búið hér í mörg ár án þess að hafa fyrir því að læra íslensku. Hún kenndi allt á ensku, og gerði nemendum sínum að skrifa allar ritgerðir og öll próf á ensku. Það er til fólk sem bara nennir ekki að læra málið. Það þykir mér bjánaháttur.

    Ég vona samt að fólk haldi ekki að ég sé útlendingahatari heldur! Rétt er að það fylgi sögunni að mamma mín er útlendingur, og þar með ég líka, að hálfu leyti. Mamma þolir heldur ekki að panta á útlensku á veitingastöðum í Reykjavík, þó að það sé hennar eigið móðurmál. Enda kann hún góða íslensku.

    En ég stend fast á minni skoðun: það er ekki svona mikið mál að læra nýtt tungumál, og ég veit að hver sem vill læra íslensku á Íslandi, getur fengið að gera það. Það eru góðir mannasiðir að læra mál og siði þess lands sem maður flytur til, og dónalegt að gera það ekki. Geri maður það, á manni að sjálfsögðu að vera kleift að flytja hvert sem maður vill.

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus2:51 e.h.

    Sóley

    Ég held að það séu allir sammála, innflytjendur og innfæddir, um það að fólk sem ætlar að búa á Íslandi eigi að kunna íslensku. Þetta hefur verið mælt í könnunum hjá Alþjóðahúsi og þar voru 80% innflytjenda meira að segja á þeirri skoðun að íslenskukunnátta ætti að vera skilyrði fyrir ríkisborgararétti. Það að setja sig á háan hest og tala um “bjánahátt” út frá tveimur einstaklingum er mjög slappt.

    Langflestir útlendingar sem hafa komið hingað síðustu árin eru hinsvegar farandverkamenn sem ráða sig hingað í tarnavinnu í skamman tíma. Sumir þeirra reyna að læra að bjarga sér á íslensku, en flestir gera það ekki og mér finnst það bara mjög skiljanlegt. Það kostar mikinn tíma, vinnu og peninga og hefur afskaplega lítið uppá sig.

    Ég heyri fólk oft mótmæla þessu og segja: En þegar ég var skiptinemi í Frakklandi/au-pair á Spáni/nordjobbari í Svíþjóð þá notaði ég sko tækifærið og lærði tungumálið! Munurinn er m.a. sá að kunnátta í þessum tungumálum hefur mjög mikið notagildi fyrir Íslending, sem kunnátta í íslensku hefur ekki fyrir Pólverja, Portúgala eða hvern annan sem ætlar ekki að búa hér og er ekki þeim mun meiri málvísindanörd.

    Það er líka hægt að setja þetta upp svona: Íslenskur smiður sem er nýbúinn að missa vinnuna í kreppunni fær tilboð um að fara til Guajira í Kólumbíu og taka hressilega vinnutörn í byggingariðnaði í hálft ár. Það er nóga vinnu að hafa og gott kaup svo hann vinnur tólf tíma á dag, sex daga vikunnar og sendir peninga heim til að konan hans geti greitt af myntkörfuláninu. Verkstjórinn er Íslendingur, sem og margir vinnufélagar hans og hann fær úthlutað herbergi í íbúð með nokkrum öðrum Íslendingum. Þegar þeir fara út á meðal fólks er þeim oft mætt með tortryggni og mjög fáir sýna nokkurn áhuga á því að tala við þá. Hversu miklar líkur eru á því að þessi maður leggi peninga, tíma og fyrirhöfn í það að læra Wayuunaiki, tungumál heimamanna sem 300.000 manns í heiminum tala?


    Gunnhildur

    SvaraEyða
  6. Nafnlaus1:38 e.h.

    Fussumsvei. Maður er nú varla fluttur til lands ef maður dvelur þar í nokkra mánuði. Held að heilt ár þurfi, að lágmarki, til þess. Fólki sem er á landinu skemur en ár og gerir ekki annað en að þræla sér út er hér með náðarsamlegast fyrirgefið af konunni á háa hestinum, og formlega leystir undan titlinum "bjánar", enda var hann aldrei ætlaður þeim.

    Þar að auku er eðlismunur á því að vinna í byggingariðnaði, þar sem samskipti við heimamenn eru í lágmarki, og að vinna t.d. í þjónustu á veitingastað, þar sem viðkomandi þarf að tala við heimamenn á hverjum degi og hefur þar með næg tækifæri til að æfa sig.

    Neibb, ég er nú barasta ennþá ekki sannfærð!

    SvaraEyða
  7. Nafnlaus9:42 e.h.

    Sannfærð um hvað?

    Þar sem þú undanskilur farandverkafólk bjánastimplinum, geri ég ráð fyrir að hann hafi verið ætlaður innflytjendum sem eiga erfitt með að læra tungumálið.

    Það hefur verið mælt í könnunum að innflytjendur hafa nánast undantekningarlaust mikinn vilja til þess að læra íslensku. Ástæðurnar fyrir því að sumum vinnst það hægt eru fjölmargar. Sumar þeirra eru samfélagslegar, t.d. langur vinnutími, félagsleg einangrun og skortur á hentugri íslenskukennsku (sem hefur verið mikill og viðvarandi). Aðrar eru persónubundnar, t.d. kemur sumt fólk frá málsvæðum sem eru mjög frábrugðin því íslenska, og já, sumir eru hreinlega framtakslausir eða hafa litla hæfileika þegar kemur að tungumálanámi.

    Það liggur í augum uppi, eins og ég hef áður sagt, að fólk sem ætlar að búa á Íslandi á að tala íslensku. Mér finnst einfaldlega áhugaverðara og líklegra til árangurs að ræða afhverju það gengur stundum erfiðlega og hvernig sé hægt að bæta úr því, heldur en að fussa og hneykslast og kalla fólk bjána.

    Hér með er ég hætt að ræða þetta mál í kommentakerfinu hennar Þórunnar Grétu. Þú mátt gjarnan senda mér póst á gunnhildurf@gmail.com ef þú vilt.

    -Gunnhildur

    SvaraEyða