mánudagur, desember 15, 2008

ALVÖRU KONA

Jæja, þá er síðasta heimaverkefnið komið þangað sem það á að fara og síðasti dagurinn fyrir jólafrí í vinnunni á morgun. Af því tilefni hef ég ákveðið að leyfa mér að bloggblaðra svolítið. Passið ykkur þetta gæti orðið langhundur.

Ég var svo lánsöm að ná í miða á seinni tónleika Emilíönu Torrini, svo gærkvöldinu var eytt í Háskólabíó. Lay Low hóf leikinn ásamt sínum félögum. Yndisleg einlægni sveif því yfir vötnum allt kvöldið, því hún er eitt af því sem sameinar þessar tvær eðaltónlistarkonur, auk tilgerðarleysis og einhverrar óútskýranlegrar náttúrutengingar. Frum og frumfegurð, myndi ég trúlega skrifa í fræðiritgerð. Lay Low á í vasa sínum snjallar tónsmíðar, einfaldar hugmyndir sem hún útfærir á smekklegan hátt og minnir aftur og aftur á að minna er meira.
Emilíana steig svo á svið og tók til við að syngja og segja sögur. Ég veit ekki hvort eitthvað sé til í því, en mér finnst oft eins og stóru tónlistarstjörnurnar okkar fari á hálfgert trúnó við áhorfendur þegar þeir koma svona í lok heimsreisu og spila í litlu kjánalegu tónleikasölunum heima á fróni. Ég hef svosem ekki oft farið á tónleika með íslenskum tónlistarmönnum í útlöndum, en einu sinni sá ég Björk í Þýskalandi á risastórum útitóneikum og ég man ekkert eftir því að hún hafi mikið talað milli laga. Hins vegar leyfir hún yfirleitt nokkrum gullmolum að fjúka þegar hún spilar hérna heima.
Alla vega, þá var Emilíana dugleg við að segja sögur af sér og félögum sínum og strax eftir tvö eða þrjú lög hafði hún hleypt áhorfendum inn fyrir kjólinn sinn, í brjóstahaldarann og svo áður en varði ofan í nærbuxurnar líka. Lék skapahár á sviðinu og sagði stolt frá því að hún hefði skipst á kjólum við ófríska konu. Fyrst hugsaði ég með mér "Jæja, er þetta eitthvað sem ég þarf að vita"... en svo rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað! Auðvitað þarf ég að vita þetta, ég og allar konur í heiminum, þá sérstaklega hinum vestræna! Emilíana hefur gjarnan verið kölluð krútt og krúsídúlla, sem má til sanns vegar færa ef skilgreiningin á krútti er einlægni og tilgerðarleysi eins og títt er um börn, enda þau oftar kölluð krútt en fullorðið fólk. Mér hefur lengi þótt Emilíana vera ofurkona í faglegu tilliti. Hún er magnaður tónlistarmaður, tónskáld og flytjandi. En í gær komst ég að því að hún er ekki bara ofurtónlistarkona, heldur líka ALVÖRU KONA.
Hún minnti mig nefnilega á það í gær að ég þarf ekki að skammast mín fyrir að svitna undir brjóstunum og niður eftir bakinu, ég þarf ekki að skammast mín fyrir að vera með skapahár, ekki fyrir að langa til að standa upp í fínum samkvæmum til að taka nærbuxunar út úr rassinum, né heldur fyrir að nota sömu fatastærðir og ófrískar konur því það er óþolandi að þurfa alltaf að vera með inndreginn magann. Og þar með klappaði ég manna hæst þegar hún svo hélt áfram að segja sögur af samkvenlegum vandamálum.

En úff hvað tónleikarnir voru skemmtilegir.

2 ummæli:

  1. Nafnlaus2:17 f.h.

    Alveg er ég sammála þér þarna, gott að geta speglað sig í konum sem eru ekki hræddar við að vera konur.
    Óska þér og þínum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
    Ragnhildur A

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus6:10 e.h.

    Þetta fannst mér bara alls ekki langdregið og ég skemmti mér við þennan lestur :)

    Gleðileg jól!

    SvaraEyða