miðvikudagur, janúar 14, 2009

Árið er 2009

Í upphafi nýs árs fyllist ég yfirleitt nýrri orku og böðlast áfram með fegurri fyrirheit í vasanum en nokkru sinni. Nema í fyrra, enda árið þar áður, það herrans 2007 í meira lagi öfgafullt gleði og sorgarár. Sigurðarbörn Grétarssonar urðu þrjú og föðurlaus á einu og sama árinu.

Örannáll 2008:
Í janúar hófst síðasta önnin mín í Tónó, a.m.k. að sinni.
Í febrúar ákvað ég að sækja um tónsmíðanám í Listaháskólanum.
Í mars varð Sigurjón Torfi eins árs og byrjaði að labba þann sama dag.
Í apríl fór ég í inntökupróf í Listaháskólann, varð svo 27 ára og veiktist alvarlega af 27 ára veikinni. Það er andlegur sjúkdómur sem lýsir sér í því að maður hugsar stöðugt um að maður sé 25+1+1 ára gamall, ekki búinn með neitt BA/BS próf, allt sem maður ætti að vera búinn að gera, hvað maður á eftir og svo framvegis.
Í maí komst ég inn í Listaháskólann og útskrifaðist úr Tónó.
Í júní fórum við í ofur skemmtilega ferð til Þýskalands, komum heim aftur og fórum beint austur.
Í júlí fórum við aftur austur, Bræðslan í þetta skipti.
Í ágúst voru það mannréttindin, Gay Pride, Friðarins kvöld og tilheyrandi kertafleyting og fleira.
Í september byrjaði skólinn.
Í október fór allt á hvolf. Hippinn í mér varð fyrirferðarmeiri en nokkru sinni fyrr, hatur mitt á auðvaldinu jókst en ég nennti ekki að gera margt annað í málunum en að fara á mótmæli þegar vel lá á mér og iðka yoga af enn meiri krafti en áður. Ooooooooooommmmmm.
Í nóvember fór allt meira á hvolf. Meira auðvaldshatur, meira yoga. Naaaaaaaammmmmm.
Í desember kórónuðu Ísraelar hvolfástand heimsins með heimsmælikvarðaheimsku og illyrmislegu innræti sínu. Ég hef síðan þá átt afar erfitt með að ná andlegu jafnvægi með hugleiðslunni, þar sem gremja og hatur getur orðið erfitt viðureignar. Huhuuuuuummmmmmmmmm.

Svo kom janúar. Ég fer hljóðlega af stað.

PS. Agnesi og Einari fer brátt fjölgandi sem gleður mig afar mikið, enda best að hafa nóg af góðu fólki í kringum sig og ég held hér áfram að árna þeim heilla. Ég hef tekið mér stöðu dómara sem dæmir um það hvort fólk sé orðið nógu gamalt við þessar aðstæður. Mælikvarðinn er BA/BS próf. Þau eru bæði með MA/MS próf upp á vasann, svo þau eru eiginlega orðin alltof gömul... eða alla vega var löngu kominn tími til.

5 ummæli:

  1. Nafnlaus10:10 e.h.

    Gleðilegt árið Þórunn mín.

    Megi það nýja verða þér og þínum til ómældrar ánægju og yndisauka.

    Iss piss - BA...MS...MA segir ekki neitt, bara bókstafir á blaði. :) Kveðja og knús að norðan.

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus9:42 f.h.

    Bestu þakkir heillin, en ég tek undir með Eyrúnu. Þessi stafasúpa segir ekki mikið um fólk. Hins vegar finnst mér voða gaman að geta sagt - við erum með FIMM háskólapróf, og kennsluréttindi!

    Sjáumst á föstudaginn : )

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus9:43 f.h.

    Þetta átti að sjálfsögðu að enda á:

    Kv.
    Agnes

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus6:27 e.h.

    Tek undir með Eyrúnu og Agnesi. Skv. aldurs/stafa formúlunni verð ég of gömul og Erik ekki nógu gamall þegar erfinginn okkar kemur í heiminn. Held samt einhvernveginn að þetta reddist:)

    SvaraEyða
  5. mér telst nú til að þetta séu "bara" 4 háskólapróf + kennsluréttindi.. en vissulega er það 5ta á hraðri siglingu í heimahöfn.

    Og gleðilegt árið Þórunn Gréta mín kæra :)

    SvaraEyða