þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Eyjaálfur á heimleið

Frá ársbyrjun hafa móðir mín og systir spókað sig í Eyjaálfu. Nú er ævintýrið á enda fyrir mömmu, en ég bíð spennt eftir ferðasögunni. Hún lendir á Keflavíkurflugvelli í eftirmiðdaginn á morgun. Ég hef fengið nokkur skeyti og verið sagt frá loftbelgjaferðum, fjallgöngum og heimsóknum í Ný-Sjálenskar prjónavörur, en mamma hefur gerst mikil áhugakona um Ný-Sjálenska ull. Hún er blönduð possom-hárum sem gerir hana vatnshelda. Það þótti mömmu víst afar spennandi, en svo þegar það rifjaðist upp fyrir henni að possom þýðir pokarotta, þá munu hafa runnið á hana tvær grímur. En ég held að það hafi jafnað sig eftir að hún komst að því að pokarotta er ekki nagdýr heldur pokadýr og því miklu skyldari pokabjörnum en rottum, svo ég býst við henni í heim í nýprjónuðu, vatnsheldu ullarsjali.
Ég held reyndar að þær mæðgur hafi lagt prjónana til hliðar við komuna til Melbourne og minna hugsað um ull, enda varla bætandi á mannskæða hitabylgju. Þær munu þó ekki hafa verið í lífshættu, en maðurinn sem sat við hliðina á þeim í flugvélinni á leiðinni þaðan missti víst hundinn sinn úr hita.
Svo bætti Kristín Arna því við í síðasta skeyti að mamma hefði alltaf verið að fá hrós fyrir að vera ungleg og sæt, svo þetta hefur verið sigurför í alla staði.

Kristín Arna ætti að vera komin aftur heim til Wellington, en mamma er lögð af stað frá Singapore.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli