sunnudagur, apríl 19, 2009

Ingólfur og ölið

Eins og oft hefur komið fram, þá er margt í heiminum sem ég á bágt með að skilja. En mér er smám saman að lærast að sjá dásemdina í ófullkomleikanum, það er svo mikið frelsi að þurfa ekki að vita allt. Burðast með einhverja þekkingu sem skiptir engu máli. Hverjum er ekki sama hvernig jörðin var til?? Það skiptir mig bókstaflega engu máli í mínu daglega lífi og ég efast um að mér liði mikið betur ef ég vissi það. Mér er líka skítsama hvort Ingólfur Arnarson hafi verið til eða ekki. Sagan af honum og félögum hans í öndvegissúludansinum er ágætis afþreying, hvort sem hún er sönn eða login.

En þrátt fyrir þetta sest ég af einhverjum ástæðum niður með reglulegu millibili og klóra mér í hausnum yfir tilurð heimsins og meira að segja hugleiddi ég þar sem ég labbaði yfir Arnarhól í gær hvort sagnfræðingar nútímans séu enn með kvíðaröskun yfir því hvort þeir þurfi að endurskrifa sögu landnámsins og troða nýjum sannleik í aðalnámsskrá grunnskóla, því margt bendir jú til að Ingólfur blessaður hafi ekki verið til. Það segir Sigurður Líndal að minnsta kosti og ég trúi flestu því sem sá maður hefur fram að færa. Nógu erfitt var að sætta sig við að Hvannadalshnjúkur er 8 metrum lægri en kennt var í áratugi, 2111 metrar í staðinn fyrir 2119.
Hér stenst ég heldur ekki að spyrja, fyrir hve mörgum leystist lífsgátan þegar þessi nýju sannindi voru sögð í hádegisfréttum útvarps árið 1993 eða þar um bil?

Í dag klóra ég mér svo enn í hausnum. Í Reykjavík er aftaka rok. Ég sat og æfði mig á píanóið í stofunni í nokkra klukkutíma áðan og reyndi að leiða hjá mér lætin í rokinu. Einbeitti mér að því að reyna að sjá fyrir mér hæðirnar á Anacapri eins og Debussy forðum. Ekki svo auðvelt fyrir manneskju sem aldrei hefur komið sunnar en til Austurríkis og það í sjálfu sér fékk mig líka til að klóra mér í hausnum.
Eftir að hafa spilað mig sadda fór ég út á svalir til að taka til í gosdósunum sem dingluðu til og frá. Við drekkum reyndar sárasjaldan gos á þessu heimili, en t.d. um páskana splæstum við í nokkrar dósir af malti og appelsíni, en mér fannst lætin samt meiri en svo að þetta gætu verið bara páskadósirnar okkar. Og viti menn. Þar sem ég kem út á svalir fæ ég fjúkandi framam í mig haug af heineken-öldósum. Leit niður á kjallaratröppurnar og sá jafnvel enn stærri haug. Hver var á fylleríi á svölunum hjá mér? Vofa Ingólfs, kannski? Það skyldi þó aldrei vera. Mér er nær að efast um tilvist hans...

2 ummæli:

  1. Hvar keypti Ingó ölið þá?

    SvaraEyða
  2. Góð spurning! Hvar skyldu vofur kaupa öl?

    SvaraEyða