laugardagur, apríl 25, 2009

Handboltatromp

Lafði Handboltadrottning spilar út athygliverðu trompi í dag. Skrifar grein um að nú þegar höfum við vinstristjórn og kominn tími til að setja loksins hnefann í borðið, löngu komið nóg. Því miður, Lafði Þorgerður, ég beið í 18 ár eftir að kjósendum þóknaðist að horfast í augu við veruleika íhaldsins, ég vorkenni þér lítið að þurfa að bíða í 4 ár, þó það sé voðalega sárt að horfa á einhvern annan í sætinu sínu.
Salóme Þorkelsdóttir, sem gegnir því athygliverða embætti, formaður eldri sjálfstæðismanna, hvetur Sjálfstæðismenn að ganga upplitsdjarfa að kjörborðinu. Henni finnst trúlega eitthvað skorta á hroka og sjálfsöryggi flokkssystkina sinna.
Nokkrum greinum síðar bendir Guðrún Eva Mínervudóttir réttilega á að lífið er ekki fótbolti og pólitík lýtur ekki sömu lögmálum og hollusta við fótboltalið. Ef hún hefði bara skrifað hand í staðinn fyrir fót hefði hún hitt naglann svo fullkomlega á höfuðið. Því á næstu blaðsíðu þar á eftir kemur Þorgerðar-trompið. Ólafur Stefánsson skrifar nokkurra setninga klausu um ágæti nýrrar forystu Sjálfstæðisflokksins. Í dag gildir að sýna að maður kunni að standa með sínu liði, hvort sem það vinnur eða tapar. Silfurdrengurinn sem allir eru svo stoltir af, sem handboltadrottningin flaug í tvígang út til Kína til að klappa á kollinn, sem hún fagnaði með því að klappa ráðherra og borgarstjóra upp á svið, því það er jú þeim það þakka að Íslendingar nái árangri á erlendri grund. Mér hefur oft þótt Ólafur áhugaverð manneskja og ef hann hefði skrifað bitastæða grein hefði ég örugglega ekki veitt því neina athygli. En lítil klausa um að standa með sínu fólki, sama hvað tautar og raular, frá handboltakónginum þegar útlitið er fyrir að handboltadrottningin og félagar hennar bíði afhroð í kosningum finnst mér afar ódýrt handboltatromp. Ég bendi þeim sem klóra sér í hausnum eftir að hafa lesið þessa grein og hugsa sem svo: Ég verð að gera eins og silfurdrengurinn segir... að fletta aftur um eina blaðsíðu og lesa aftur grein Guðrúnar Evu. Það má þá í huganum setja hand í staðinn fyrir fót.

Í dag er annars fallegur dagur og ekkert í Mogganum olli mér gremju. Ég er í góðu skapi og ætla að vera þangað til ég fer næst að sofa, sem verður hugsanlega eftir nákvæmlega sólarhring.

Góðar stundir.

2 ummæli:

  1. Mér líkar ekki að það sé alltaf tekið fram að hún sé ljóshærð. Það ber vott um ákveðna fyrirlitningu. Annars finnst mér hún vanþroskuð og vanhæf í alla staði.
    Og Ólafur á bara að kasta bolta. Ekki tjá sig.

    SvaraEyða
  2. Það er rétt, ég fjarlægði háralitinn.

    SvaraEyða