miðvikudagur, janúar 24, 2007

Fundinn litningur

Mér fannst Gerður Kristný fjandi góð í Fréttablaðinu í dag. Ummæli Snæbjörns Valdimarssonar um Stelpurnar, sem hún vitnar í, vöktu mig til frekari umhugsunar. "Þrátt fyrir yfirgnæfandi hlutdeild kvenna eru þættirnir fjarri því að vera einsleitir eða lyktandi af karlfyrirlitningu og femínisma."

Af ummælum þessum má draga eftirfarandi ályktanir:
a) Að Snæbjörn Valdimarsson sé með þeim að telja í kynbræður sína kjark til að horfa á þættina, vegna þess að alltaf þegar konur framleiða skemmtiefni sé karlfyrirlitning og femínismi svífandi yfir vötnum. Því eins og allir vita hefur voðalega mikið verið framleitt af slíku gegnum tíðina....
b) Snæbjörn gengur út frá því sem vísu að þegar konur taka sér það fyrir hendur að vera fyndnar, þá sé það alltaf á kostnað karlmanna. Ástæðan fyrir því að hann heldur þessu fram hlýtur að vera sú að karlmönnum er kvenfyrirlitning eiginleg.

Ef þessar forsendur sem Snæbjörn hefur gefið reynast réttar eru niðurstöður genarannsókna minna í sjónmáli.
Karlfyrirlitningurinn erfist til kvenna á X-litningi og er því víkjandi. Það er því einungis mikill minnihluti kvenna sem er haldinn karlfyrirlitningu.
Kvenfyrirlitningurinn erfist aftur á móti til karla á Y-litningi, rétt eins og geirvörtur, og því eru allir karlar haldnir henni og ganga því út frá því sem vísu að allar konur hafi eitthvað sambærilegt í sínum haus.

Mér finnst títtnefndur Snæbjörn nú hafa farið heldur illa að ráði sínu með því að gefa mér þessar forsendur, því niðurstöður rannsóknarinnar eru karlmönnum bersýnilega í óhag.

Við þetta langar mig einnig að bæta að um daginn var ég að þýða teiknimynd sem var stútfull af karlfyrirlitningu af hálfu konu. Mér varð nóg um þegar viðkomandi kvenpersóna fór svo að syngja lag um vonleysi og leti karmanna. Ég þurfti því að koma á prent karlfyrirlitningu, sem ég er mjög fjarri því að vera haldin, bæði í bundnu máli sem óbundnu. Ég tók mér því skáldaleyfi og dró allverulega úr hundfúlum boðskap söngtextans, sem í ofanálag var ekkert fyndinn. Þetta gerði ég, konan, feministi grande, vegna þess að ég get ekki séð að það geti orðið konum til framdráttar í jafréttisbaráttu heimsins að kúka á karlmenn. Svo gáði ég að því hver í ósköpunum ætti nú heiðurinn að þessum handritaskrifum og kom ekki auga á neitt kvenmannsnafn. Sumsé, karlfyrirlitning skrifuð upp í kvenpersónu af karlmönnum. Útkoman sérlega ófyndin og ákaflega misheppnuð. Kom mér samt ekki á óvart. Ætli þessir tilteknu karlmenn hafi haldið að þeir gerðu konum þessa heims einhvern greiða með því að hafa kvenpersónu í þættinum sem haldin væri karlfyrirlitningu?

Og eitt að lokum. Ég var að ljúka við að þýða mína fyrstu bók. Barnabók um mannslíkamann. Spliff, donk og gengja.

3 ummæli:

  1. Nafnlaus1:28 e.h.

    Til hamingju með bókarþýðinguna, megi þær verða mikið fleiri í framtíðinni!

    og, já það er viljandi sem ég vil ekki blanda mér inn í umræðu um karlrembu og kvenrembu. Geri það frekar yfir kaffisopa

    SvaraEyða
  2. Heyr, heyr.

    Kynlægur dilkadráttur er hallærislegur. Kynin eru ekki nema tvö, á þeim er allverulegur munur en þó byggður á sama hormónagenauppeldisaðstæðnagrunni.

    Fólk er einstaklingar sem ætti að sýna virðingu. Ekki fyrir að vera af kyni heldur fyrir sérstöðu sína sem einstaklingar.

    Vil benda þér á pistil vorn í dag, hann er af skyldum stofni.

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus8:42 f.h.

    Til hamingju með þýðinguna. Sjálf er ég haldin djúpstæðri mannfyrirlitningu sem ég kýs að beina fyrst og fremst að hinu loðnara kyni enda er ég viðkvæmari fyrir dindilmennum og duttlungum þeirra en dindilhosum.

    SvaraEyða