Ég hefi tekið eftir þeim hvimleiða kvilla í eigin fari að ég hef verið alltof neikvæð undanfarið. Ég hefi tekið þá ákvörðun að hætta því fyrir fullt og allt. Frá og með morgundeginum mun því ekki örla á neikvæðni, hvorki hér á síðunni né heima hjá mér. Það hefur í för með sér að ég neyðist til að þegja um ákveðna hluti. T.d. ríkisstjórnina og íslenskar kvikmyndir. Ég hefi frá barnæsku leitast við að sjá þær sem allra flestar og allra helst borgað mig á þær í kvikmyndahúsum í ljósi þess að ég hefi ávallt talið mig ungt og upprennandi kvikmyndatónskáld. Því hefi ég litið á það sem skyldu mína að styðja við bak kvikmyndagerðarlistarinnar hér á landi. Það hefir þó reynst mér þrautin þyngri undanfarið, þar sem mér hefir þótt það allmikil kvöl og pína að sitja undir heilli kvikmynd sem af íslensku bergi er brotin. Og hefir mér þótt það allmiður. Það rímar við Karl smiður. Ég hefi því hvorki séð Mýrina né Kalda slóð né Foreldra og skammast mín ekkert. Það þykir mér einnig jafn miður. Að ég skammist mín ekki, altso. Ég kem því ekki til með að fara í kvikmyndahús og sjá íslenskt bíó í nánustu framtíð nema vera dregin með töngum. Og mútað með vænni fjárhæð í beinhörðum péníngum. Og fá súkkulaðiköku og kakó eftir bíóið í sárabætur, bæði fyrir að hafa brotið odd af oflæti mínu og fyrir að hafa þurft að sitja í bíóinu, sem kemur til með að vera stofudrama og tilfinningaklám, eins og venjulega. Fastir liðir eins og venjulega. Ég viðurkenni þó að þær eru ekki allar slæmar, en þetta er alltof mikið drama og alltof mikið af því sama og ég hefi fengið mig fullsadda fyrir löngu. Haft var á orði við mig í dag að þeir sem væru ekki að gera neitt í málinu mættu ekki kvarta, en það er misskilningur. Ég veit að ég kann ekki að búa til kvikmynd og þess vegna læt ég kjurt liggja. En nú verður látið af neikvæðninni og e.t.v. verð ég búin að finna jákvæðan flöt á íslenskum kvikmyndum áður en langt um líður. Fylgist því með á næstu vikum.
PS. Ég er strax búin að finna eitt jákvætt. Íslenskar kvikmyndir geta aldrei orðið verri en War of the Worlds með Tom Cruise. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar þjáðst jafn mikið í bíó eins og þá. Og Lost in Translation hún var bara vond. Og Time Machine, hvað var Jeremy Irons að gera í þeirri mynd? Skoh, þetta er allt að koma.
Til hamingju með nýtt og glæsilegt útlit. Það er mjög jákvætt :)
SvaraEyðaHæ
SvaraEyðaÞetta er ekkert mál. Ég prófaði þetta einusinni og hef aldrei verið samur aftur. - mikið auðveldara líf
Lazy boy talar um þetta.
"Surround yourself with successful people
Don’t feel threatened by them
Challenge yourself
And learn from them because
Success as a mysterious way of attracting more success
Like negativity attracts more negativity"
til hamingju með framtakið -nýtt útlit OG afnám neikvæðninnar..
SvaraEyðaPollýanna er skemmtileg bók!
Ef þú segir einn tveir og klapp er þetta búið.
SvaraEyðaMaður verður að passa sig að detta ekki alveg inn í Ned Flanders vegna þess að þá fer fólk að forðast mann.
En jákvæð hugsun en meinholl og fullkomlega hægt að stjórna henni.