Þetta mætti jafnvel heita opið bréf til ríkisstjórnarflokkanna, aðallega þess græna og þá öðrum flokksmönnum fremur til kvenráðherrana tveggja sem drituðu niður virkjun og álveri í fjórðungnum... að því er virðist aðallega til að friða heimtufrekju í landsbyggðarfólki. Önnur þeirra sem nú er heilbrigðisráðherra virðist vera jafn áhugasöm um heilbrigðisspjöll þar eystra eins og hún var og er um umhverfisspjöll meðan hún var umhverfisráðherra.
Ég hef verið að gera óvísindalega úttekt á uppganginum í minni gömlu heimabyggð í kjölfar virkjanaframkvæmda og álversbyggingar. Aðferðin sem ég nota eru mannlífsrannsóknir og samanburður við gamla Fljótsdalshéraðið, þar sem ég ólst upp. Það sem mér er efst í huga núna varðar heilbrigðisþjónustu þar eystra, þar sem fjölskylda mín hefur fengið að kenna á því undanfarna mánuði að henni er varla fyrir að fara.
Þegar móðir mín vann sem hjúkrunarfræðingur á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum voru, eftir því sem ég best veit, 36 legupláss auk fæðingardeildar og heilsugæslu alla daga vikunnar. Á Sjúkrahúsinu í dag eru í öllum uppganginum 26 legupláss, þar er ekki hægt að fæða börn og heilsugæsla af verulega skornum skammti. Þetta væri í sjálfu sér allt í lagi ef eftirspurnin eftir heilbrigðisþjónustu minnkaði í réttu hlutfalli við fjölgun íbúa á svæðinu. En því er því miður öfugt farið. Unnið hefur verið ötullega að því að sannfæra ungar, verðandi, nýbakaðar og hugsanlegar mæður á svæðinu um öryggi sitt og barna sinna þrátt fyrir fæðingardeildarleysið. Ég vona að því hafi endanlega verið hætt eftir að hún Rannveig frænka mín þurfti að fæða barn í flugvél milli Reykjavíkur og Egilsstaða þremur mánuðum fyrir tímann og sjúkraflutningasveppirnir höfðu ekki einu sinni haft vit á því að hafa súrefniskassa og viðeigandi búnað í vélinni. Þetta er það sem getur beðið ykkar sem hafið í hyggju að flytja austur. Því miður. Og ef þið þurfið af einhverjum ástæðum á þjónustu heilsugæslustöðva að halda, t.d. fara í blóðprufu eða eitthvað álíka, þá er það ekki hægt nema einu sinni í mánuði. Ef þið berið ykkur svo eftir björginni og krefjist þjónustu, þá fer læknirinn í fýlu. Afi minn liggur nú á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum og deilir herbergi með þremur öðrum. Hann hefur unnið flesta daga lífs síns, allt að því daglega frá barnsaldri eftir því sem ég best veit, borgað skattinn og verið góður og gegn þjóðfélagsþegn. Að auki hefur hann haft hátt um ágæti bláa ríkisstjórnarflokksins í gegnum áratugina og þetta eru þakkirnar sem hann fær frá vinum sínum, sjálfstæðismönnunum. Þeir hafa nú ekki verið feimnir við að þiggja kaffi á Skipalæk þegar erindið er að innheimta atkvæðið sitt. Spurning hvort þeir komi til með að heimsækja afa á fjögurra manna stofuna í framtíðinni.
Hins vegar hefur mjög göfugt starf verið unnið á sviði stóraukinnar sælgætissölu. Sjoppunum fjölgar jafnt og þétt og virðast lifa góðu lífi.
Sæl Þórunn Gréta
SvaraEyðaMig langar nú til þess að commentera smá á færsluna þína. Ég skil nú mæta vel afstöðu þína en hún er vissulega frekar einhliða. Heilbrigðisþjónustan á Egilsstöðum er auðvitað í rúst, en það er samt margt gott reynt að gera. Það má ekki gleyma því að starfsfólkið þar er að gera góða hluti þó svo að stofnuninn sé svelt fjárhagslega. Nú er pabbi búinn að liggja inni á sjúkrahúsinu í rúma 3 mánuði. Það er sko ýmislegt sem hefur gengið á í hans veikindum að undanförnu. Ég tel að hann hafi fengið afar góða þjónustu á Egilsstöðum miðað við allt. Ég tel að vandi heilbrigðisþjónustunar sé ekki aðeins peningaleysi heldur líka alveg ótrúlega lítið skipulag og nánast ekkert samstarf á milli sérfræðinga. Það virðist ekkert vera litið á sjúkrasögu viðkomandi heldur helst litið til nákvæmlega þess kvilla sem sérfræðingurinn er sérhæfður í. Það kostar mikla peninga að þeyta fólki á milli landshluta og sérfræðinga í staðin fyrir að líta á sjúklinginn í einhverju heildrænu samhengi. Við fengum þá ráðleggingu frá Rannveigu móðursystur þinni á sínum tíma að við þyrftum að vera rosalega frek og fylgjast mjög vel með því hvað var "ekki" verið að gera fyrir pabba. Þannig er nú það. Þetta er helvíti hart að þurfa að horfa upp á.
Ég vil síðan bæta því við að það er gott að búa á Egilsstöðum, þrátt fyrir alla þá vankanta sem þú telur upp, allavega ekki verra en í Reykjavík :).
Kveðja Fjóla
Margblessuð og sæl... þetta átti alls ekki að vera færsla um að það væri verra að búa á Egilsstöðum en annars staðar, þvert á móti. Þessar hugrenningar eru skrifaðar vegna þess að ég fæ því miður ekki betur séð en að þjónusta við íbúa á Héraði fari minnkandi í réttu hlutfalli við fjölgun á svæðinu, sem skýtur allverulega skökku við í mínum huga. Þegar ég bjó fyrir austan og allt var á niðurleið (sem ég varð reyndar ekki vör við), þá var bara ekkert síðra að vera þarna en í dag.
SvaraEyðaÞaðan af síður átti þetta að vera skot á starfsfólk sjúkrahússins sem eflaust leggur hart að sér. Það eina sem ég er að benda á er að það er ekki nóg að drita niður álveri og virkjun og segja svo bara: Þið eruð búin að fá nóg, þið fáið ekki meira. Það er engin byggðastefna í þessu fólgin ef það á fyrir ungum mæðrum að liggja að fæða börnin sín í flugvélum. Þá vill fólk bara frekar búa annars staðar. Sumsé, ekkert illt til héraðsmanna, bara til stjórnvalda. Svo er eflaust rétt að taka fram að þessi pistill er nokkuð örugglega skrifaður í óþökk afa míns...
Sumsé, þetta áttu bara að vera hugleiðingar um það hvort þessi stóriðja séu jafn mikið gull og jafn grænir skógar og haldið hefur verið fram :)
Og PS... Ég veit mætavel að það er gott að búa á Héraði... en ég er nokkuð viss um að mér verður ekki tekið fegins hendi ef ég kæmi þarna aftur, stóriðjuandstæðingnum. En mér er umhugað um framtíð staðarins, annars væri ég ekkert að spá í þetta.
SvaraEyðaSæl aftur
SvaraEyðaÞú varst fljót að svara mér og mér fannst þú gera það vel :) Ég vildi nú bara koma þessu á framfæri þar sem mér fannst mínir punktar ekki alveg koma nógu vel fram í pistlinum frá þér. Það er alveg ljóst að heilbrigðistþjónustan er til skammar á Fljótsdalshéraði og ég held að það séu allir sammála um það, líka starfsfólkið þar. Þetta er ömurlegt hlutskipti að vinna við og þvílíkt álag sem er lagt á fólk. Þannig að ég er algjörlega sammála þér varðandi það, einmitt ekki síst í ljósi þess að settar voru á stað virkjunar og álversframkvæmdir en síðan ekkert spáð í að auka fjárstreymi til sjálfsagðra þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu.
Varðandi skoðanir þínar á þessum framkvæmdum þá er ég nú nokkuð viss um að þú færð að vera með þær í friði upp á Héraði, veit ekki alveg með Firðina samt. :) En þar má nú engin opna munninn nema að hann sé 100% samþykktur framkvæmdunum.
Kv Fjóla
HVA??
SvaraEyðaEr ekki lang sniðugast að fara með óléttar konur sem eru að missa vatnið bara á fjórðungssjúkrahúsið, botnlangann handan skarðs og fjarða, á Norðfirði?
Sæl Þórunn Gréta
SvaraEyðaNúna er ég nýflutt hérna austur með mína fjölskyldu. Ég verð að segja að ég er alls ekki óánægð með þá þjónustu sem ég hef fengið á Heilsugæslunni síðan ég flutti. Hérna finnst mér allt ganga miklu hraðar og betur heldur en fyrir sunnan og núna hef ég góðan samanburð undanfarin tvö ár, þar sem ég hef þurft að leita mikið til lækna vegna veikinda dóttur minnar. Í litlu samfélagi eins og þessu þá þurfum við að horfast í augu við það að við fáum ekki sömu þjónustu og á stóru sjúkrahúsum á Akureyri og Reykjavík og það finnst mér eðlilegt. Mér finnst heislugæslan hér ekki vera ömurleg og í molum, en auðvitað má miklu betur gera. Ég held að vanda HSA megi frekar rekja til slæms reksturs og stjórnunar. Það er ekki lengra síðan en 15 ár að ekki heyrðust neinar raddir um aðbúnað aldraðra á sjúkrahúsum, og fannst engum athugavert við að gamalmenninn okkar væru nokkur saman á stofu. En sem betur fer aukast kröfurnar með breyttum tíðaranda. Ég held að svona breytist ekki yfir nótt, það tekur auðvitað nokkur ár að breyta húsbúnaði sjúkrahúsa svo við getum boðið eldri borgurum þá þjónustu sem þeir eiga skilið, ég lít á þetta sem óumflýjanlegan aðlögunartíma. Því er svipað háttað með fæðingardeildina. Núna eru kröfurnar þær að ekki er hægt að bjóða upp á fæðingarþjónustu meðan við höfum ekki aðstöðu til keisaraskurða. Meðan blessað fjórungssjúkrahúsið er í Neskaupsstað kemur ekki til að boðið verði upp á fæðingarþjónustu á Héraði, aðallega vegna þess að það er ekki hægt að halda úti tveimur skurðstofum á ekki stærra svæði, með ekki fleiri íbúa. Meðan svo er verðum við að eiga börnin okkar í Neskaupsstað..... verra gæti það nú verið.
Í sambandi við starfsmanna vanda sjúkrahússins þá vísa ég því aftur til stjórnar HSA, það er ekki forsvaranlegt að borga læknunum hérna 1,3 milljónir í mánaðarlaun eins og vel er þekkt. Ef við gætum deilt þessum launum með hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum ættum við sjálfsagt ekki í þessum vanda.... en þetta er bara mín skoðun:)
Æ Æ, gleymdi að skrifa fullt nafn :)
SvaraEyðaSigrún Jóna Hauksdóttir
Fellbæingur (aftur)
Sæl Sigrún, sérlega gaman að heyra í þér, ég hef nú bara ekki séð þig í bráðum hundrað ár held ég ... en ég fagna þessum góðu fréttum, mér finnst gott til þess að vita að á einhverjum vígstöðvum sé veitt viðunandi þjónusta. Það er líka enn betra til þess að vita hvað þú ert jákvæð og æðrulaus kona. Auðvitað er margt sem spilar inn í þetta og hægt að diskútera langtímum saman, en ég ítreka að þessi pistill var fyrst og fremst hugsaður sem hugleiðing um hvort ekki hafi verið byrjað á öfugum enda þegar stóriðjan tók að tröllríða öllu. En ég er nú bara kommúnisti, svo hvað er að marka mig?? ;) Hafðu það svo sem allra best fyrir austan og knúsaðu alla fjölskylduna þína frá mér!
SvaraEyðaLeguplássum hefur fækkað, fæðingardeild hefur verið lögð niður. Á sama tíma hefur í búum fjölgað. Þetta eru bara staðreyndir en ekki skoðun. Ég man nú ekki betur en að það hafi verið notað sem rök með álverinu að með tilkomu þess ætti menntafólk, þ.m.t. læknar og hjúkrunarfólk, að flykkjast austur. Er ekki allt orðið fullt af atvinnulausum ljósmæðrum þarna núna?
SvaraEyðaÉg er algjörlega sammála þér Þórunn Gréta!! Fjölskyldan mín er nýbúin að vera í þeirri stöðu að reyna koma ættmóðurinni inn á langlegdeild -hefði þurft að komast á hjúkrunarheimili en því er ekki til að dreifa í þessu stóra sveitarfélagi með alla "gömlu" sveitina í kring. Staðreyndin var sú að það þurftu 2 sjúklingar að deyja til þess að amma mín fengi pláss inni á sjúkrahúsin. Fallegt ha!
SvaraEyðaHún hefur enga aðstöðu til að vera með neitt af dótinu sínu. Pínulítill fataskápur og náttborð er það sem hún hafði til að koma heilli ævi af búslóð í.
hún er á stofu með 2 öðrum -stundum 3 og önnur konan þjáist m.a. af andlegum eiginleikum sem veldur því að hún æar og óar í tíma og ótíma og heldur vöku fyrir ömmu á nóttinni (sú þriðja er sov heppin að geta slökkt á heyrnatækinu).
Og þetta er aðstaðan sem við bjóðum gamla fólkinu okkar upp á eftir að það hefur unnið baki brotnu alla ævi í íslensku samfélagi og borgað sína skatta! Finnst öllum þetta virkilega í lagi?
Fæðingardeild.. jú jú, það er vissulega deild á Norðfirði en nú hefur það gerst 2x í vetur að það hefur verið ófært á neskaupstað og konur því átt börn í heimahúsi -því aðstaðan á sjúkrahúsinu var engu betri. Sniðugt ha!
Ég er ekki viss um að menn geti einfaldlega kennt slæmum rekstri um. Sjúkrahús og heilsugæslur um allt land eru fjársvelt og hafa verið lengi. Ég held að það þyrfti að endurskipuleggja þetta blessaða heilsugæslukerfi í heild sinni til að ná fram einhverjum breytingum.
Laun læknanna eru ekki vandamálið. Þeir búa einnig við gríðarlegt álag og bakvaktir sov mér finnst allt í lagi að þeir séu á þokkalegum launum. HINS VEGAR eru laun sjúkraliða, ófaglærðra og hjúkrunarfræðinga til háborinnar skammar fyrir þetta samfélag, sem ég held að flestum ætti að vera orðið ljóst. Þetta fólk vinnur ákaflega óeigingjarnt starf og fær lítið þakklæti -frá hinu opinbera alltsvo.
Best að ég komi því að strax að starfsfólkið á sjúkrahúsinu á egilss hugsar ákaflega vel um ömmu mína og í raun merkilegt hvað þeim tekst að halda öllu vel gangandi miðað við álagið sem þau búa við.
...jæja.. þá er ég búin að rasa út í bili :)