fimmtudagur, apríl 26, 2007

Hugleiðingar daganna

1) Ég fyllist iðulega vonleysi svona rétt fyrir kosningar. Allir keppast um athygli allra og ég er kominn með athyglisbrest fyrir löngu. Loforðin á hverju strái, málþing með fulltrúum stjórnmálaflokkana um tónlistarnám og hvaðeina. Allir vilja allt fyrir alla gera. Svo daginn eftir kosningar byrjar sama fólk aftur að tala um að Róm hafi ekki verið byggð á einum degi. Og ég byrja aftur að rífa hár mitt og skegg. Sumsé, allt verður alltaf eins og það hefur alltaf verið. Engra breytinga er von. Sem fyrr verður mitt framlag til málanna kjörstjórnarseta. Veit ekki enn í hvaða kjördeild, en það þýðir að ég fæ ekki að sjá neitt sjónvarp og þar með ekki júróið. Verst ég er ekki enn búinn að þýða textann yfir á þýðverzku, hann er svo fjandi leiðinlegur að ég hef hreinlega ekki nennt því. Harpa verður samt helst að geta sungið hann fyrir svissnezku vini sína á júródaginn. Við finnum eitthvað út úr þessu.

2) Ég áttaði mig á því um daginn, þegar ég kallaði: "Davíð, Davíð, Kisu leiðist svo mikið, heldurðu að hún sé lasin?" og sá á svipnum á honum að hann nennti ekki að svara þessari spurningu í hundraðasta skiptið, að ég yrði trúlega afleit móðir ef til þess kæmi. Þar með sannfærðist ég um það í þriðja skiptið. Í fyrsta skiptið sem ég sannfærðist um það, þá óttaðist ég að ég myndi skamma þau alltof mikið, í annað skiptið var það á ættarmóti þegar ég fékk móðursýkiskast af áhyggjum af því að börnin væru að leika sér alltof glæfralega og Einar frændi minn benti mér á að börn dræpust ekkert af því að fá marblett á hnéð, ég hefði sjáf átt mörg met í fóta-og handatognunum sem barn og væri enn sprelllifandi ... og nú þetta. Sveimérþáallatíð.

3) Ég fékk hláturskrampa af málfræðiþætti Tvíhöfða. "Það að nota alltaf fornöfn í boðhætti, þetta er náttúrulega bara þágufallssýki. ... Svona þegar íslenskan á svona mikið af fallegum atviksorðum. ... ef þetta heldur svona áfram, þá bara kveiki ég í mér." Alltaf gott að fá hláturskrampa, því þá framleiðir maður peptíð sem gera mann hamingjusaman. Nema þegar ég fæ hláturskrampa, þá brosi ég allan hringinn, hristist öll og fæ illt í magann. En það er samt gaman. Og fyndið.

3 ummæli:

  1. mér þætti nú kostulegt að sjá og heyra Hörpu syngja júrólagið á þýsku hehe... og hvaða rugl er þetta með afleitu móðurina, þú yrðir alveg frábær :)

    SvaraEyða
  2. Uss já, hafðu engar áhyggjur af þessu! Stöðugt áreiti er fljótt að venja mann af of mikilli taugaveiklun!

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus11:51 f.h.

    Ef ég kem til með að eiga annað líf vil ég fá að vera dóttir þín. Kanski svolítið skrýtin ættfræði, en samt - þú yrðir frábær móðir.
    AG

    SvaraEyða