Það hægðist all verulega á mér eftir prófin. Það er alltaf sama sagan fyrir mig að taka próf. Ég hef verið í prófum að lágmarki tvisvar á ári frá átta ára aldri eða svo, með engum hléum. Einhvern tíma á ferlinum þróaði ég með mér þá aðferð að hætta að borða, sofa sem minnst og fara sem minnst út úr húsi í próftíð. Það virðist vera alveg sama hvað ég reyni að breyta út af þessum vana, það tekst aldrei. Ég rígheld í gömlu aðferðina sem veldur alltaf flensu og heiladoða í nokkra daga eftir að prófum lýkur. Svo kann ég ekki að vera með flensu og fer alltaf út og í vinnuna sem veldur helmingi lengra kvalatímabili og ég smita trúlega alla nærstadda. En þetta horfir allt til betri vegar, ég keypti mér nefnilega te með engifer, sítrónu og sólhatti í heilsuhúsinu, sem ég hef tröllatrú á að lækni öll mín sár.
Guðlaugur Þór orðinn heilbrigðisráðherra. Ágústa Johnson skammt undan og landið breytist í einn stóran Latabæ áður en kjörtímabilið er á enda runnið. Ég get ekki annað en undrast á því háttalagi blámanns að velja karlmann með BA í stjórnmálafræði til að fara með þennan málaflokk og horfa fram hjá Ástu Möller, konu með hjúkrunarfræðimenntun. Ekki svo að skilja að ég sé sérstakur aðdáandi hennar, en mér hefði þótt rétt að líta bæði til menntunar og kynferðis í þessu samhengi.
Annars gerði ég lauslega úttekt á menntun þingmanna, þá ekki síst blárra, og niðurstaðan þótti mér merkileg í meira lagi. Meðalþingmaðurinn er bara ekki með framhaldsmenntun, sumir ekki einu sinni með stúdentspróf. Hvað þýðir það? Kosturinn við þetta er augljós, þeir hafa þá sjálfir væntanlega einhvern tíma staðið í brauðstritinu kynnst því hvað það er að vera vinnandi Íslendingur. Ókosturinn er þó enn augljósari. Þeim finnst af þessari sömu ástæðu sjálfsagt að skapa sem flest störf fyrir ófaglært fólk, verksmiðjustörf. Staðsetja svo verksmiðjurnar úti á landi, til að tryggja að það skapist nú sem mestur menningarlegur munur milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins til að geta verið í friði fyrir þessu landsbyggðarpakki sem heimtar jafnrétti til náms og svoleiðis dót. Þetta úti á landi lið getur bara unað glatt í sinni verksmiðju. Og ef það vill ná langt í þjóðfélaginu með áralanga reynslu af verksmiðjuvinnu, nú þá er bara hægt að bjóða sig fram til Alþingis fyrir bláa eða græna. Nokkuð öruggt þingsæti, jafnvel ráðherrasæti. Það var jú Alþingisfólkið sem reddaði málunum, eins gott að sýna hollustu yðar í verki og vera með í leiknum.
Þetta var svo nákvæmlega ástæðan fyrir því að ég fylltist mjög ofbeldisfullum hugsunum í garð þeirra sem örguðust út í Íslandshreyfinguna fyrir að bjóða fram til þings. Steingrímur J. röflaði yfir því að Ómar hafi ekki gengið til liðs við sinn flokk og hinir kenndu honum um að 6000 atkvæði hefðu fallið í valinn. Þetta var nú eitt af því asnalegasta sem ég hef heyrt. Það var deginu ljósara allan tímann að Íslandshreyfingin væru hægri grænn flokkur. Ómar er hægrisinnaður umhverfissinni og það er jafnaugljóst að hægrisinnaður einstaklingur kemur aldrei til með að kjósa vinstri græna, sama hvað hann er mikill umhverfissinni, eins og að Ómar Ragnarsson fari að ganga til liðs við vinstri grænan flokk. A.m.k. ef allir eru eitthvað með hugann við það sem þeir eru að gera. Svo um leið og Íslendingur kemst inn á þing, hættir hann að sjá eigin ábyrgð. Mér þykir fyrir því, en það er bara engum öðrum að kenna en stjórnmálaflokknum sjálfum, ef hann fær ekki atkvæði. Þau atkvæði sem féllu Íslandshreyfingunni í skaut tjáðu nákvæmlega það sama og önnur atkvæði, þau bara skiluðu ekki inn þingmanni.
O, jæja... það verður fróðlegt að sjá hvað gerist. Samfylkingin lofaði stimpilgjöldin í burtu. Ég er búin að borga, svo ég græði ekki á því.
Skrambinn. Ég ætlaði ekki að blogga um pólitík. Enda er hún tík. Þetta var óvart. Fyrirgefið.
Brauðstritið er í þann veginn að hefjast, en fyrst verður haldið í ferðalag um Austurland sem mun standa yfir í heila viku. Þá fæ ég að passa litla bróður og svoleiðis, það verður gaman.
Mikið er ég sammála þér hvað pólitíkina varðar. Það er alltaf svo auðvelt að kenna öðrum um eigin ófarir.
SvaraEyðaMálið með Ástu Möller er að hún er í bullandi atvinnurekstri, rekur elliheimili, og er þar af leiðandi bullandi vanhæf í embættið.
SvaraEyðaÉg vil bara sjá sem mesta dramantík, skítkast og klúður í íslenzkum stjórnmálum. Við erum upp til hópa hæst ánægð með lífið, skítsama um lítilmagnan og finnst við fátæk að komast ekki tvisvar á ári á fyllerí til útlanda.
SvaraEyðaEins og þú kannast við:
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við óheiðarleikann í íslenzkum stjórnmálum.
Kjark til að fronta pólitíkusa og segja þeim að fara til helvítis og vit til að vera þeim góð sem minna mega sín.
Langar að fara á kaffihús með þér fljótlega og spjalla.
Ég er sammála. Fannst afspyrnu hallærislegt af Steingrími að hnýta í Ómar. Kerfið sem við búum við er þannig úr garði gert að hverjum sem er er frjálst að stofna stjórnmálahreyfingu og bjóða sig fram til setu á þingi og það á enginn neitt með að agnúast út í aðra fyrir að nýta sér þann rétt.
SvaraEyða