þriðjudagur, júní 19, 2007

Í bleikum fötum

Til hamingju með daginn, konur og karlar. Samt aðallega Gunnhildur Finns og Soffía, því þið eigið afmæli.


Hvar væri þjóðfélagið statt ef bara karlar hefðu kosningarétt og viðhorf landsmanna í takt við þann tíðaranda? Ég væri trúlega ekki í skóla, ekki í vinnu, ætti trúlega fimm börn og væri á svipuðum stað í virðingastiganum og búfénaður.

Í tilefni dagsins fór ég að velta fyrir mér klysjum.

“Konur eru konum verstar” var vel þekkt orðtak (ef orðtak skyldi kalla), vonandi er hann það ekki lengur. Skyldi leynast í þessu sannleikskorn? Ég kýs að svara þessu neitandi, því ég neita að trúa þessu. Hins vegar held ég að samfélagið losnaði við mein á borð við anórexíu, bráðdrepandi útlitsþráhyggju, afleiddu þunglyndi og kvíða ef konur hættu að taka þátt í því að skapa banvænar kvenímyndir. Það mætti því umorða þetta hvimleiða orðtak í: “Kvenímyndir eru konum verstar”. En á móti kemur að það er mjög hæpið að halda því fram að konur eigi þar enga sök á. Konurnar sem eru efstar í virðingarstiganum búa ímyndina til, sannfæra svo konurnar á fyrirsætukontórnum um að þetta sé málið, sem síðan sannfæra dætur þessa lands um að með því að líta svona út geti maður lagt heiminn að fótum sér og allir taka að elska mann med det samme. Þessar konur eru konum verstar.

“Konur eru líka menn”. Konur eru ekki menn. Konur eru konur og menn eru menn. Mér finnst fúlt að konur vilji vera menn. Mér finnst fúlt að kvenkennarar vilji ekki vera kennslukonur og kvenbankastjórar vilji ekki vera bankastýrur... (bíddu, eru til bankastýrur á Íslandi) með því að forðast það að nota kvenkyns orð og orð sem eru löguð að því að kona sinni ákveðnu starfi, gangast konur við því að kvenkynið sé annars flokks. Ég ætla að verða tónskáldkona og píanókennslukona og mér finnst það töff. Mig langar ekkert til að verða karl.

Hins vegar eru konur manneskjur alveg eins og karlar og það er til háborinnar skammar að aðeins hin loðnari tegund manneskja á þessari jörð fái notið hinna ýmsu réttinda, fríðinda og launakjara sem í boði eru. Konur eiga ekki að fara fram á mannsæmandi laun, heldur kvensæmandi laun. Laun sem sæma konum. Og svo framvegis.

Í þessu samhengi rifjast upp fyrir mér að ég var stödd á biðstofu um daginn og tók mér í hönd u.þ.b. 10 ára gamalt glanstímarit. Í því var grein eftir Kolfinnu Baldvinsdóttur sem var eins og töluð út úr mínu hjarta. Hún var að tala um þjáningarnar sem fylgja því að kaupa sér brjóstahaldara. Ég fæ reyndar hnút í magann í hvert skipti sem ég þarf að stíga inn í mátunarklefa, svo þetta gildir um fatakaup almennt í mínu tilviki. Brjóstahaldari er nauðsynlegt fat, saumað úr ca 20 fersentímetrum af skjóllitlu efni og miðað við verðlagið ætti saumafólkið að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Eftir að hafa svo fengið taugaáfall yfir verðlaginu þarf maður ekki bara að klæða sig úr peysunni til að máta þetta heldur þarf maður að standa allsendis varnarlaus bak við einhverja tjaldtusku fyrir framan spegil úti í búð með skrafandi fólk og gargandi börn fyrir utan með tútturnar og síðuspikið úti um allt. Þetta er skýringin á því að ég er, eins og svo margar kynsystur mínar, haldin skódellu. Það er svo ljúf sárabót eftir að hafa haft síðuspikið fyrir augunum og mátað nokkrar flíkur sem stoppa ýmist við brjóst eða mjaðmir og engin leið er að hneppa eða renna, að hlaupa bara í næstu skóbúð. Þar þarf maður bara að sýna á sér sokkana. Hins vegar á ég mér líka þá ósk heitasta eins og hún Bára vinkona mín, að skóframleiðendur framleiði í meira mæli skó sem eru eins og lappir í laginu. A.m.k. verð ég óþægilega oft vör við það að lappirnar á mér séu ekki í laginu eins og skór (rétt eins og mér finnst fæst föt sem ég máta vera eins og líkami í laginu).

Framleiðendaklúður ársins 2007: Ég lagði gleraugunum mínum um daginn og keypti mér augnlinsur. Það kallaði einnig á augnlinsuvökvakaup og þegar heim kom byrjaði ég að föndra við linsuþvott og ísetningu. Hins vegar lenti ég í stökustu vandræðum þegar kom að því að opna brúsann, því það var einhver barnalæsing á honum og þegar sjónleysinginn ég ætlaði að fara að lesa mig til um það, sá ég mér til mikillar skelfingar að letrið utan á linsuvökvabrúsanum er u.þ.b. 5 punktar. Davíð gat ekki einu sinni lesið það. Þetta hlýtur að heita að skjóta sig í fótinn. Ég mæli með því við þá lesendur mína sem hafa í hyggju að markaðssetja vöru sem gagngert er ætluð hálfsjónlausu fólki, að nota örlítið stærra letur.

6 ummæli:

  1. Nafnlaus10:07 f.h.

    Ekki dettur mér í hug að kalla mig tónskáldkonu, enda vil ég ekki viðurkenna að karlar eigi rétt á skáldanafninu fram yfir okkur, (ekki talar maður um tónskáldkarl? Tónskáldmann?)

    Að öðru leyti alveg sammála og vitna í þessa færslu.

    SvaraEyða
  2. Aetladi ad tjá mig um "tónskáldkonu"-hugtakid, en var greinilega ekki eina manneskjan sem tók eftir thessu.
    Svo lengi sem ákvedinn titill er í hvorugkyni, sé ég ekkert ad honum.

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus6:08 e.h.

    Jahá! Þetta er mikil lesning og rótar upp í huganum. Sumu er ég sammála, en öðru ekki. Í mínum huga erum við öll menn, og þá er ég að nota orðið maður eins og þú notar orðið manneskja, og þar af leiðir að ég tel konur líka vera menn. (Dýra)tegundin "menn" greinast svo í undirtegundirnar konur og karla. Ég vil endilega nota sem oftast starfsheiti sem ekki fela í sér ákveðið kyngervi og er því sátt við að vera (leikskóla)kennari. Ég tel það til mikilla bóta fyrir alla að ekki felist ákveðin kyngreining í starfsheitum og held í þá von að sú tilhögun geti lagt eilítið lóð á vogarskálarnar í þá átt að launamunur kynjanna hverfi og starfsstéttir sem hingað til hafa verið skipaðar öðru kyninu verði smá saman jafnari í kynjahlutföllum, eins og sjúkraliðar og leikskólakennarar.
    Ég er ánægð með að vera kona og vildi (flesta daga) ekki skipta við nokkurn karl, en vil gjarnan út frá femínískum forsendum sjá meiri jöfnuð á sem flestum sviðum mannlífsins.
    En kannski er þetta óraunsætt hjá mér...?!

    Þetta er mín skoðun núna, en hver veit nema hún eigi eftir að breytast með auknum aldri og þroska :)

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus7:20 f.h.

    Gleymdi að nefna þetta við þig í gær, enda varstu með gleraugu : ) Ekki setja linsur í þig fyrr en minnst hálftíma eftir að þú vaknar. Eftir 7 ára linsunotkun og 2 augnaðgerðir var mér loxins sagt að æðarnar í augunum þurfi að fá að þenjast út eftir að maður vaknar. Linsurnar hefta þetta blóðflæði og geta því verið skaðlegar ef maður er of snöggur til á morgnanna. Jamm.
    Agnes

    SvaraEyða
  5. Ég er þeirrar skoðunar (eins og margoft hefur komið fram) að karlar og konur eigi það helst sameiginlegt að vera af tegundinni homo sapiens sapiens.

    Ég er fyrir löngu búin að fá ógeð á þeirri hugmyndafræði að kvenréttindi séu eitthvað issjú. Jafnrétti og mannréttindi eru hugtök sem við ættum að nota í staðinn.

    Sérréttindi kynjanna eru náttúruleg, að ala börn eru sérréttindi kvenna en sérréttindi karla eru að geta pissað standandi. Launamunur, stöðuúthlutanir, tískufélagsmótun og þessháttar er mannanna verk og ekki fallegt.

    Eyrún

    Blogger segir katmyt sem minnir mig á það að ég á eftir að kaupa kattarmat.

    SvaraEyða
  6. Nafnlaus9:32 e.h.

    Seint lesa sumir en lesa þó. Takk fyrir afmæliskveðjuna.

    Ef þú ert komin heim frá Þýskalandi (áttirðu ekki einmitt að koma heim í dag? Eða varstu kannski að fara í dag, ég veit það ekki, þær eru svona þessar gömlu frænkur) þá er okkur ekkert að vanbúnaði að hittast í kaffi. Þú ert með ímeilið mitt, ég er á dagvöktum þessa viku og í banastuði fyrir kaffi eftir vinnu.

    Gunnhildur

    SvaraEyða