... hvurs kyns vökva við skrifborðið mitt. Ég hellti svo myndarlega yfir mig, frá bringu niður á sokka í ANNAÐ SKIPTIÐ Í DAG að samstarfsmaður minn, sem situr á næsta borði, sagði við skrifstofustjórann að ég væri líklega komin með tourette. En svo við tökum nú Pollýönnu á þetta, þá voru einhver furðuleg öfl á sveimi í vinnunni minni í dag, sem sögðu mér að drekka vatn, í bæði skiptin sem ég hellti yfir mig. Venjulega ratar ekkert annað en kaffi í bollann minn og það hefði kostað tvær heimferðir að hella svona miklu kaffi yfir sig. Þetta þýðir að vísu að ég drakk ekkert vatn í vinnunni í dag, þrátt fyrir að hafa í tvígang ætlað það. Það breytir ekki þeirri staðreynd að eftirleiðis ætla ég að venja mig á að nota kaffistofuna.
En talandi um að drekka ekki. Ég hef ekki drukkið kók síðan ég veit ekki hvenær. Þegar mér er boðið kók, þá segi ég: Nei, takk, ég bara drekk ekki kók. Þetta eða eitthvað svipað segi ég svo alltaf þegar mér er boðinn drykkur sem ég drekk ekki. Í þau skipti sem ég afþakka óáfenga drykki er ég aldrei innt ástæðna fyrir því af hverju ég drekki ekki viðkomandi drykk, ég er bara látin í friði, eða jafnvel er mér stundum boðið eitthvað annað. En þegar ég afþakka áfenga drykki, þá er ég iðulega innt ástæðna og þegar ég hef nefnt þær til sögunnar er ég oftar en ekki beðin um enn frekari skýringar og skilgreiningar. Ég hef aldrei spáð neitt í þetta fyrr en á föstudagskvöldið, en þá var ég á mannfagnaði þar sem menn lögðu sig fram um að sannfæra mig um að það væri lífsnauðsynlegt og allsendis óhættulegt að drekka áfengi, auk þess sem það væri sjálfsögð kurteisi við gestgjafann. Ég veit ekki af hverju ég hef aldrei veitt þessu athygli áður, en allt í einu núna er ég farin að klóra mér í hausnum og spyrja sjálfa mig hvers vegna það að drekka ekki áfenga drykki þarfnast frekar skýringa en það að drekka ekki kók eða einhvern annan drykk? Hvaða fjárans máli skiptir það? Það eru bara til þrjú svör við spurningunni "Af hverju drekkurðu ekki áfengi?"
1) Ég er á bíl.
2) Ég er bindindiskona/maður.
3) Ég er óvirkur alkóhólisti.
Ég get ekki séð að nokkurt þessara svara þarfnist frekari skýringa. Það er þó greinilega, ef marka má mína reynslu, helber misskilningur... Í samfélagi dagsins í dag liggur við að það sé dónaskapur að drekka ekki.
Þetta er alveg rétt hjá þér. Og það merkilega er, að þeir sem geta ekki sætt sig við það að til sé fólk sem afþakkar áfengi, er nákvæmlega sama fólkið og réttlætir hvern einasta sopa af áfengi sem það drekkur sjálft.
SvaraEyðaÍ þann árafjöld sem ég ekki drakk kaffi, fann ég oft og iðulega fyrir hornaugum þegar ég sagðist ekki drekka kaffi. Ég vandi mig því á að afþakka þann ágæta drykk með frasanum. Nei takk, ég er búin að drekka yfirdrifið nóg af kaffi. Jafnvel þó ég hefði ekki smakkað það í marga mánuði eða ár.
Það eru reyndar til fleiri góðar ástæður fyrir því að drekka ekki áfengi. Það er t.d. bragðvont (í eðli sínu, annars væri framleiddur óáfengur vodki) og svo er líka til í dæminu að fólki þykir áhrifin vond. Að vísu er ég sjaldan tekin trúanleg þegar ég gef þá skýringu.
SvaraEyðaÉg er ekki dugleg drykkjukona og er oft spurð hvort ég sé alkóhólisti. Ég hef tekið eftir því að ef ég segi að ég sé einkar leiðinleg með víni (sem er mikill sannleikur) finna viðstaddir gjarnan hjá sér hvöt til að sannreyna það. Rétt eins og það sé mjög óvenjulegt að drukkið fólk sé leiðinlegt.
Vá já, þetta er alveg furðulegt. Svo er nefnilega eitt svar í viðbót, "ég er ólétt". Og þá eru alltaf einhverjir sem finna sig knúna til að sannfæra viðkomandi að það sé samt allt í lagi að fá sér eitt glas. Hvað er eiginlega að því að sleppa því að drekka, af hverju má það ekki? Merkilegt.
SvaraEyðaÞað er nefnilega til fólk sem líður beinlínis illa ef einhver er í grenndinni sem drekkur ekki, eða er ekki að því, akkúrat á meðan það er að því.
SvaraEyðaÞannig eru sumir alkóhólistar.
Í minni vinnu er dónaskapur að reykja ekki...
SvaraEyða