Mér hefur verið tíðrætt um samfélagsmein af ýmsum toga í skrifum mínum og hef e.t.v. á köflum hljómað eins og ég hefði aldrei þjáðst af neinu slíku sjálf. Það er þó stór og mikill misskilningur og viðurkennist hér með. T.d. eyddi ég þegar ég var á gelgjuskeiðinu fleiri klukkutímum en ég hefði viljað fyrir framan spegil og hafði miklar áhyggur af því að nýfengin brjóst og tilheyrandi kvenspik gætu valdið mér mannorðsmissi og óvinsældum um alla framtíð. Í stað þess að hætta að borða greip ég þó sem betur fer (eða hvað??) til þess ráðs að smyrja bara nógu miklum varalit á mig til að dreifa athygli fólks frá belgnum á mér. Ég er sem betur fer bæði vaxin upp úr varalitnum og speglinum og kýs að líta öðrum augum á málin í dag.
Hins vegar uppgötvaði ég, mér til mikillar hrellingar að ég hef líklega þjáðst af álíka samfélagsmeini í allri sólinni undanfarna daga. Til að byrja með var ég stödd í rigningu í Hamborg og Berlín mestan part góðviðrisins. Síðan ég kom heim hef ég svo þurft að vinna inni frá morgni til kvölds og horft út í 15° hitann með kökk í hálsi. Mér líður eins og ég sé föðurlandssvikari ef ég er ekki úti í þau fáu skipti sem það er sól á Íslandi. Þegar ég fór að velta fyrir mér raunverulegri ástæðu fyrir því að geta ekki unnið ógrenjandi á góðviðrisdögum rann upp fyrir mér ógnvænleg staðreynd. Þetta stafar að mestum hluta vegna þess eins að mig langar til að verða örlítið dekkri á hörund en pappírinn í prentaranum hjá mér. Ég er föst í fjötrum útlitsdýrkunarinnar. Ég er með tanórexíu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli