þriðjudagur, október 16, 2007

Moli

Í Kastljósinu í gær var sagt frá kettinum Mola, sem býr við Holtsgötu í Reykjavík og komst í sjálfheldu á húsþaki. Slökkviliðið var kallað á vettvang og tóku björgunaraðgerðir um klukkustund.

Það var einn vætusaman septembermorgun árið 2005 að glænýbakað par, sem ekki hafði fengið svefnfrið fyrir lóðaríisgörgum heimiliskattar karlkyns helmingsins, hélt í rómantískan bíltúr í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Þar var systir kvenkyns helmingsins til heimilis ásamt betrihelmingi og áttu þau sjaldséða gersemi, graðan og sérlega glæsilegan fress, sem hét hinu einkar virðulega og kynþokkafulla nafni Jan Olaf.

Það var Jan Olaf að þakka að glænýbakaða parið þurfti ekki að ganga með bauga niður á bringu það sem eftir lifði af vetri, því hann var ekki lengi að fylla Kisu af kettlingum.

Um tveimur mánuðum síðar gaut Kisa svo fjórum laglegum krúttkettlingum sem allir fengu góð heimili rétt fyrir jól, en einn þeirra, hann Zorró, eignaðist heimli við Holtsgötu og fékk nýtt nafn, Moli.

Kisa horfði af mikilli andakt á son sinn í sjónvarpinu í gær og spurði sjálfa sig hvernig í ósköpunum stæði á því að honum tækist að fá meiri athygli en hún. Það ætti ekki að vera hægt. Í morgun ákvað því hún að efna til samkeppni við son sinn og hefur gargað og heimtað að komast inn og út, hoppað upp og niður á húsgögnin, en því miður aldrei komist í sjálfheldu. Við sjáum svo hvað setur, en í tilefni af frægð Mola Kisu og JanOlafssonar hef ég ákveðið að gramsa aðeins í albúminu.

2 ummæli:

  1. Ég horfði einmitt með andakt á fréttina allendis grunlaus um að þetta væri svo að segja langömmubarn mitt! Annars verð ég að segja að eftir þetta finnst mér nafnið Zorró vera betur við hæfi en Moli.
    Og btv, takk fyrir síðst!

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus4:37 e.h.

    Æ mússímú hvað þetta eru sætar kisur:) En ég þarf nauðsinlega að heyra í þér væna svo hringdu nú í mig við tækifæri.

    SvaraEyða