þriðjudagur, október 02, 2007

Stúmm

Dagurinn í dag hefur farið í að skipuleggja hvernig ég eigi að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér. Þar af leiðandi hefur mér gengið ákaflega erfiðlega að hugsa um nokkuð annað, því mér er meinilla við ... ekki að viðurkenna að ég hafi haft rangt fyrir mér, heldur að hafa haft rangt fyrir mér. Svo verður maður víst að taka afleiðingunum af því líka.

Og svei.

----

Meðan ég fletti Blaðinu yfir morgunkaffinu og sá myndina af mannleysunni sem er táknmynd samfélagsins sem býr til anórexíu og þunglyndi. Ég skil ekki af hverju hún er alltaf í blöðunum. Ef títtnefnd mannleysa hefði svipaða sögu að baki í einhverju öðru landi en Íslandi, þá efast ég um að hún ætti vini. Hvar annars staðar í heiminum væri einfrumungi boðið í fréttaviðtal fyrir það að hafa gefið út bókina Biblía fallega fólksins?

Ég átta mig reyndar ekki alltaf á því hvort íslenskir fjölmiðlar séu skipaðir svona ótrúlega kláru fólki sem eltir svona einfrumunga á röndum, lætur þá halda að þeir séu alveg ótrúlega sniðugir til að þeir segi eitthvað heimskulegt fyrir framan alþjóð, svo við hin getum setið heima og hlegið, eða hvort þeim finnist þetta í raun merkilegar fréttir sem þeir eru að flytja okkur.

Eftir að hafa velt þessu fyrir mér um stund og ekki komist að neinni niðurstöðu fletti ég áfram.

Á öðrum stað í Blaðinu voru svo tvær góðar og skarpgreindar konur, sem ég er svo lánsöm að hafa fengið að kynnast eilítið, þær Halla og Birgitta spurðar um álit sitt á "lýta"aðgerðum eða fegrunaraðgerðum.

Það hefði reyndar verið sniðug hugmynd hjá Blaðinu, svona fyrst þeir voru á annað borð að troða einfrumungnum í fréttirnar, að láta hann svara þessu líka... bara svona svo hinn skellihlæjandi almenningur gæti borið saman það sem er að gerast í hausnum á hugsandi fólki og mennskum lindýrum.

En þær Birgitta og Halla komu báðar inn á það sem kalla mætti vanda samfélagsins.

Ég hef mikið velt þessu fyrir mér. Af hverju vill samfélagið að öllum líði illa með sjálfa sig? Og hverjir eru samfélagið? Hverjir eru þetta samfélag sem setur reglur um "rétt" útlit og hverjir eru svo restin af samfélaginu sem situr heima í þunglyndi yfir því að geta ekki farið eftir reglunum? Af hverju ætti maður að taka mark á samfélaginu? Þetta samfélag sem við lifum í er svo meingallað að það er ekki þess virði að fólk með sjálfsvirðingu taki mark á því.

Birgitta nefndi að algengt væri að fólk gengist undir fegrunaraðgerð til að bæta sjálfsmynd sína og þekkti dæmi um að slíkt hefði gengið eftir.

Nú skal ég ekki mótmæla því, þessa staðhæfingu hef ég oft heyrt áður. Brotin sjálfsmynd er öllum til ama. Hins vegar spyr ég mig af hverju fólk byggi sjálfsmynd sína svo mjög á útliti sínu að það geti ekki höndlað lífshamingju nema láta laga á sér ytra borðið.

Vandinn er ekki bara samfélagsins sem býr til staðalímyndir, heldur líka hins samfélagsins sem tekur mark á þeim. Þess vegna segi ég eins og Halla, ef það eru skilaboð til þín frá samfélaginu um að þú eigir að líta einhvern veginn öðruvísi út en þú gerir nú þegar, þá er það þér algerlega í sjálfsvald sett hvort þú hlustir á það eða ekki.

Allir sem ég þekki eru gáfaðir og taka ekki mark á amöbum, þó þær séu með magavöðva.

4 ummæli:

  1. heyr heyr - hef engu við þetta að bæta
    hafðu það gott

    SvaraEyða
  2. Í Ástralíu hefur Sjóherinn greitt fyrir brjóstastækkanir kvenkyns meðlima. Til að bæta sjálfsmynd þeirra...

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus4:29 e.h.

    Þetta er hárrétt athugað.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus11:45 f.h.

    Þetta finnast mér afskaplega skemmtileg lýsing á einfrumungi. Hún var lesin hér upphátt fyrir fjölskyldu mína, sem hafði afar gaman af.

    Skemmtilegt blogg.

    Gábbulegt að kalla sig Gillznegger, eða e-ð álíka.

    Kveðjur úr Bjálfatröðinni

    SvaraEyða