Einu sinni sagði vinur minn við mig: Ég held að þú sért alveg eldgömul sál.
Ég hef aldrei tekið neina afstöðu til endurholdgunar, en svaraði því til að ég vissi nú ekkert um það hvort ég væri eitthvað sérstaklega gömul sál, en ég væri alveg örugglega þreytt sál. Sál, sem eiginlega nennti þessu ekki lengur, en þætti þetta samt ekkert arfa leiðinlegt.
Ég fæ oft þessa tilfinningu. Ég hef einlægan og ástríðuþrunginn áhuga á því sem á annað borð heillar mig, en nenni oft ekkert að gera í því. Set mér markmið, en nenni ekki að ná þeim. Mér er alveg sama hvort ég nái langt eða stutt. Mig langar bara að vera góður vinur.
Ég er sjálf ekki hrædd við dauðann, mér er nokk sama hvað tekur við. Ef lífið klárast, orkan úr líkamanum eyðist við dauðann og ekkert er eftir, þá tek ég því opnum örmum. Hins vegar þykir mér svo vænt um fólkið mitt að mér finnst það huggandi tilhugsun að það sé einhvers staðar á sveimi eftir að það hverfur brott.
Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar ég var lítil hve djúp speki leynist í músaboðorðum músaguðanna sem sagt er frá í Pílu Pínu.
Etið og verið glöð
Elskið og verið glöð
Deyið og verið glöð.
Ef maður deyr og er glaður, sáttur við það sem á undan gekk, þá skiptir engu máli hvað gerist næst eða yfir höfuð hvort eitthvað gerist næst.
Hins vegar uppgötvaði ég á dögunum að endurholdgun er staðreynd, þegar því laust niður í huga mér hver ég var í fyrralífi. Ég var John Lennon. Hann dó 8. desember 1980, um það bil sem mamma var komin 4 mánuði á leið. Þegar fóstur hefur verið í þetta langan tíma í móðurkviði mun hugur þess vera um það bil að byrja að mótast. Nákvæmlega 5 mánuðum eftir dánardægur Lennons kom ég svo í heiminn, fjórum dögum á eftir áætlun. Þetta liggur í augum uppi og útskýrir svo ótal margt í minni tilveru. Nokkur dæmi:
1) Af hverju ég er svona hroðaleg tímaskekkja, af hverju ég er svona hroðalegt blómabarn og bóhem. Í mér blundar hippi sem var ekki saddur lífdaga.
2) Af hverju ég gafst svona snemma upp á etanólsukki. Ég var í vímu allt mitt fyrra líf...
3) Af hverju ég missi svefn yfir manndrápum og hlýnun jarðar, en nenni ekki að gera neitt í því... ég hef áður reynt að vekja heimsbyggðina til umhugsunar og sá að það þýddi ekki neitt.
4) Af hverju Yoko Ono reisti friðarsúluna í Viðey. John Lennon býr á Íslandi. Hefur ekkert með orkuverðið að gera. Glætan.
Ég óska ykkur öllum ástar og friðar og kólnunar jarðar á komandi ári.
Gleðilegt ár John!
SvaraEyðaVarð bara að kommenta, Píla Pína var (og er) uppáhalds platan mín, rakst á hana á tónlist.is um daginn og þvílíkt og annað eins fortíðar flipp.
Sagan hefur neninilega meiri boðskap enn ég hefði geta ímyndað mér og spannar allan tilfinningaskalann.
kveðja úr baunalandi
Sko, svoldið absúrd að þú sért JL endurborinn - hlýtur að virka illa á manninn þinn þegar hann faðmar þig, hehe.
SvaraEyðaEn veistu að ég held að það sé ekki aðalatriðið hvað maður lifir lengi heldur hvernig maður notar tímann sem maður hefur.
kv.
Rannveig móðursystir