föstudagur, febrúar 22, 2008

FB í nærmynd

Tíundubekkingurinn á heimilinu sagði frá því yfir kvöldmatnum í gær að þá um daginn hefði bekkurinn farið í vettvangsferð í Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann kvaðst hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með skólann. Tveir "gaurar" hefðu verið látin lóðsa bekkinn um húsakynnin, enginn kennari var með í för, hvorki frá grunnskólanum né frá FB, svo segja má að unglingarnir hafi verið á eftirlitslausu vappi um skólann, sem ætti að öllu venjulegu ekki að vera neinum skaðlegt.
Hins vegar vissu téðir "gaurar" lítið sem ekkert um starfsemi stofnunarinnar og í ofanálag rötuðu þeir varla um húsakynnin. Þeir munu reyndar hafa fundið smíðastofuna og boðað hugsanlegum tilvonandi fyrstaársnemum fagnaðarerindi: "Hér er frábært að vera í tímum, það er hægt að hanga og reykja hass í öllum tímum og fá 9".
Svo var komið við í íslenskustofunni, kennarinn þar inni mun hafa heilsað þeim og sagt: "Komið í íslensku í FB, það er svo æðislega skemmtil...." og þegar þar var komið sögu skelltu gaurarnir hurðinni og héldu kynningarferðinni áfram þar til þeir enduðu í einhverjum sal og sögðu:
"Já, hér er... ja, ég hef nú bara aldrei komið hingað áður."
Tíundubekkingunum var ekkert sagt um námsframboð, félagslíf né nokkuð frekar sagt frá starfsemi skólans. Þau sneru því til síns heima, engu nær um skólann sem þau heimsóttu og að því er virðist með nokkuð "skakka" mynd af skólanum, ef svo mætti að orði komast.

Ég ítreka að ég er að endursegja söguna eftir unglingi, svona blasti FB við honum og hann virðist, ásamt bekkjarfélögum sínum, vera búinn að strika FB út af óskalistanum um framhaldsskólavist.

Hver er tilgangurinn með að bjóða tíundubekkingum í heimsókn í framhaldsskóla? Ef það er að láta nemendur sem ekkert virðast vita um starfsemi stofnunarinnar leiða krakkana um bygginguna og sýna þeim ekkert, held ég að tíma tíundubekkinganna væri betur varið við borð í skólastofu að undirbúa sig undir samræmdu prófin. Af frásögninni að dæma virðist tíundubekkingunum sjálfum a.m.k. hafa fundist það.

3 ummæli:

  1. Nafnlaus9:40 e.h.

    ehehemm...
    Hæ frænka. Mig langaði aðeins að leiðrétta, var einmitt að kynna skólann minn í gær á kynningardegi FB. Fyrst komu krakkarnir við í hátíðarsal skólans þar sem 3 kennarar töluðu um sínar deildir og svo var sýnt myndband sem kynnir skólann og allar brautirnar sem eru kenndar í skólanum, Kanski bara málið að fylgjast betur með. ehehemm.., Svo var krökkum fylgt um skólan af útskriftarnemum sem höfðu allar upplýsingar á blaði fyrir framan sig og kennararnir voru rosa næs að taka á móti manni þegar maður kom með krakkana. Þessir 2 gaurar hafa bara verið einhverjir bjánar sem skemmdu kynninguna sína. Þetta hefur allavega virkað mjög vel hingað til og ég valdi að fara í FB eftir akkúrat svona kynningu.
    FB er kúl! ;)

    Kv Margrét

    SvaraEyða
  2. Það er gott að kynningarnar ykkar séu almennt betri en þetta. Ég hef nefnilega heyrt frá fleirum en þér að FB sé kúl og ég sagði það við Núma þegar hann var að segja okkur frá þessu. Hann sagði bara samt að honum litist ekkert á þennan skóla og að hann hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum. Kennarar eða yfirvöld skólans hljóta eftir allt saman að bera ábyrgð á þessu og eiga að fylgjast með því hvernig skólinn er kynntur. Það er ekki við ykkur að sakast ;) Þessi bekkur var bara óheppinn og skólinn líka að gera þessa krakka fráhverfa honum.

    Knús,
    Þórunn Gréta

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus11:55 e.h.

    ...FB? Er ME ekki málið? Það hélt ég alla vega. Það þurfti ekki einu sinni að kynna fyrir mér skólann, ég bara kolféll fyrir honum...örugglega þegar ég leit á hann frá nesinu, þessi tignarlega bygging uppi hjá klettum...Skólinn hreinlega laðaði mig að sér..

    Hmmm já eða MA, það er líka fínn skóli :)

    Knús í kaf mín kæra.

    SvaraEyða