sunnudagur, febrúar 17, 2008

Ég missi svefn

Það þarf yfirleitt lítið til þess að ég missi svefn. Ég hef alltaf verið afar svefnstygg. Ég veit reyndar ekki hvað orsakaði svefnstyggðina í mér þegar ég var kornabarn og vissi fátt um heiminn annað en hvað var mamma, hvað var pabbi og hvað var mjólk. En hitt veit ek að í dag missi ég svefn af ýmsum ástæðum. Hér skulu nokkrar upp gefnar:

1) Hnatthlýnun, mengun og náttúruspjöll. Ég trúði Einari hennar Agnesar fyrir þessu vandamáli, því hann stundar doktorsnám í eðlisfræðum, á sviði einhvers konar hafísfræða... ég kann nú varla að hafa þetta eftir. Spurning hvort ég megi ekki bara segja veðurguðfræði, en það er trúlega alltof andlegur titill og mun vart eiga upp á pallborðið hjá eðlisfræðingum... nema ef vera skyldi þeim sem stúdera skammtafræði. En hvað um það, Einar sagði mér að fara bara að reyna að sofa á nóttunni, en hætta að nota bílinn minn. Bílnotkun mín er í algjöru lágmarki, en ég hætti samt ekki að missa svefn.

2) Byssuæðið í Bandaríkjunum. Mér finnst hræðilegt að þeim dugi ekki að senda heri sína til að skjóta og sprengja mann og annan í loft upp til að komast í olíuauðlindir annarra þjóða. Til þess að fullnægja drápsgleði sinni þurfa þeir líka að vera að skjóta hver annan bara svona af því bara.
Það er margt dásamlegt í þessum heimi sem kemur frá Bandaríkjunum, liggur þá beinast við að nefna ofangreinda Agnesi, en ég fyrirgef þeim aldrei að ala börn sín upp við að það sé í lagi að sofa með byssu við rúmið sitt til að skjóta hugsanlega innbrotsþjófa.
Eitt af því fáa sem ég lærði í lagadeildinni var að það væri ekki lögbrot að fórna minni hagsmunum fyrir meiri, þ.e. ef einhver ógnar manni með hnífi, þá má maður snúa upp á höndina á honum og bakar sér ekki skaðabótaskyldu ef hann handleggsbrotnar, vegna þess að handleggsbrot er yfirleitt léttvægara en sár eftir hnífsstungu. Þetta gildir bara ekki lengur ef maður ætlar sér að skjóta innbrotsþjófinn sem ætlar að laumast út með steríógræjur heimilisins undir hendinni, því mannslíf getur aldrei talist minna virði en steríógræjur. Það er ófyrirgefanlegt kúkabragð að ætla sér að nota byssu í sjálfsvörn. Svo er jafn mikið kúkabragð að skjóta alla sem verða á vegi manns bara af því bara.

3) Obama. Ég er dauðhrædd um manninn. Hann er góður maður og gegn og alltaf þegar slíkir menn veljast til forsetaembættis í blessuðum Bandaríkjunum, þá eru þeir skotnir. Alveg eins gott að kjósa bara lúðaforseta strax, þá verður enginn skotinn... a.m.k. ekki forsetinn.

... og þannig mætti lengi telja. Mér var einu sinni ráðlagt að hætta að fylgjast með fréttum fyrst ég gæti ekki sofið af áhyggjum af heimsmálunum. Ég reyndi það líka, en þá missti ég svefn yfir því hvað ég væri hroðalega kærulaus að fylgjast ekki með gangi mála í heiminum. En í gær var mér allri lokið. Um morguninn vaknaði ég mygluð eftir sundurslitinn svefn og fór að reyna að hugsa hvað væri nú farið að valda mér svefntruflunum. Ég uppgötvaði mér til mikillar skelfingar að nú er ég farin að missa svefn vegna hljómsveitarstjórnunarmaníu.
Á föstudögum er ég samfellt frá kl. 13:30-17:30 í tímum hjá Gunnsteini Ólafssyni, þar af fara tvær klukkustundir í tónbókmenntir og svo tvær í hljómsveitarstjórnun. Síðastliðið föstudagskvöld lagðist ég svo til svefns eftir annasaman dag og viti menn. Mig bara dreymir hljómsveitarstjórnunartíma alla nóttina, ég að stjórna og stjórna og í hvert skipti sem eitthvað dramatískt kemur í tónlistina, þá hrekk ég upp og æpi: Já! Þetta er a-moll... JÁ! Þetta er hækkað sjöunda af fimmta! Þetta er fermata! Einn og tveir og blásarar út! Já! Þetta er þýskur! Og strengir inn... og presto! Úff hvað ég var uppgefin.

Ætti ég að fá mér valíum?

5 ummæli:

  1. Nafnlaus12:22 f.h.

    hahahaHAHAHAHA

    lol

    rotfl...

    (þetta á náttúrlega bara við um síðasta hluta færslunnar!)

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus1:34 e.h.

    Ég las bókina "The power of now" á sínum tíma og þar leiddi Eckhart Tolle mig inná ákveðna sannleiksbraut. Við erum oft svo trufluð af hugsunum okkar, þær eru stanslaust í gangi og aldrei nein hvíld. Þú ert augljóslega mikill pælari, hugsar sjálfsagt alltof mikið stundum. Hvíldin kemur þegar þú hættir að hugsa, þ.e maður þarf að geta aðgreint sig frá hugsunum sínum. Margir nota íhugun, ég lærði t.d innhverfa íhugun (TM hugleiðslu) þegar ég var 10 ára, hún er stórkostleg en ég vannýti þá kunnáttu sjálf því miður. Þegar ég stundaði hugleiðslu sem mest var ég svo lánsöm að upplifa tæra vitund og henni verður ekki lýst með orðum, hins vegar var hvíldin sem henni fylgdi all rosaleg. :)
    Bókin hans Eckharts er reglulega auðlesin og skemmtilega upplýsandi um okkur sjálf. En...hvað vorum við aftur að tala um?......
    Kaffisamsæti í náinni framtíð skvísa og reyndu nú að slaka svolítið á, veröldinni verður ekki bjargað með frekari áhyggjum, miklu mun heldur þegar menn læra að slaka á....eða hvað?

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus9:14 f.h.

    Téð Agnes, fædd á Landspítalanum og uppalin á Egilsstöðum, verður alltaf jafn hissa þegar hún er tengd við Bandaríki NA á þennan hátt. Á einni viku gerðuð þið Unnar það bæði! Aldrei huxa ég um mig sem 'frá Bandaríkjunum'.

    Galdurinn er að hugleiða málið, ákveða hvað maður geti gert (skv. Einari er best að kaupa ekki hús við sjó á Reykjanesinu) og hætta svo að hafa áhyggjur. Það er hins vegar eitt að gera sér grein fyrir þessu og allt, allt annað að fara eftir því...

    Agnes

    SvaraEyða
  4. Nei, ekki valíum en þú ættir hinsvegar að fá þér áhyggjubrúðu. Þær fást í Nornabúðinni og fólk sem ég elska mjög mikið fær afslátt. Af því bara.

    SvaraEyða
  5. Hildigunnur: Já, hlæðu bara ;)

    Laufey Lind: Já, kaffisamsæti í síðasta lagi í páskafríinu. Ég bjalla í þig.

    Agnes: Við verðum að redda þessu! NÚNA!

    Sápuópera: Þú ert meðða, ég kem bráðum og kaupi dúkku.

    SvaraEyða