Í heilræðadálki tískuhorns Fréttablaðsins mátti lesa þessa valinkunnu speki. Mikið finnst mér sorglegt að það þurfi að minna fólk á það.
Mér hefur gjarnan orðið tíðrætt um skaðleg áhrif tískuheimsins á fólk. Svo gerði ég merkilega uppgötvun á dögunum þar sem ég rökræddi hástöfum við félaga minn um nauðsyn þess að klæða sig eftir veðri í öllum þessum byljum sem herja á landið ísa um þessar mundir. Ég hafi nú aldrei á ævinni gerst svo hroðalegt fórnarlamb tískunnar að ég hafi látið mér verða kalt á tánum vegna þess að það væri svo hallærislegt að vera í ullarsokkum, enda af KRAFT-gallakynslóðinni sem kunni að klæða sig. Enda vissara, því í minningunni finnst mér ég hafa annan hvern vetrardag þurft að synda í gegnum snjóskafla til að komast í skólann.
Eftir að ég hafði látið gamminn geysa spurði hann sisvona: Og hvað var það svosem annað en tíska?
Þá hugsaði ég mig tvisvar um og tvínónaði um leið.
Það var tískan sem hélt á mér hita um gelgjuskeiðið. Reyndar var ég hugsanlega ginkeyptari fyrir þessum anga tískunnar en aðrir, Unnar Geir var t.d. ekki sérlega hrifinn af VIKING gúmmístígvélunum sem ég kaus að skrýðast við KRAFT-gallann og leyfði mér að heyra það alloft. Svo voru kannski heldur ekki margir sem klæddust honum utan yfir ballkjólinn, en ég man kvöldin mörg þar sem ég sá ekki eftir því, labbandi í frosti frá Valaskjálf og heim í Fellabæ. Ef ég hefði gengið þessa leið oftar en einu sinni á lykkjuföllnum nælonsokkabuxum og tutlukjól væri ég
trúlega með króníska blöðrubólgu og beinkröm. Nú, og fljótlega eftir að KRAFT-gallatískan góða leið undir lok tók mokkajakkinn við og telst til skólbetri fatnaðar. Kom sér ákaflega vel í frostinu í Hamborg og það sem meira var, hann var einn sinnar tegundar, enda úr fataskáp móður minnar, hannaður og saumaður af Eggerti feldskera, sérlegum einkavini Báru. Bilið milli KRAFT-gallanna og mokkajakkans brúaði ég af sérlegri smekkvísi með vaxjakka og gúmmítúttum.
Í dag eru það loðkragaúlpur, stígvél og ullarhúfur, já, skál fyrir því. Nú skammast enginn sín lengur fyrir að ganga í gúmmístígvélum eða kuldastígvélum.
Ég kýs þó ekki að líta á mig sem fórnarlamb tískunnar, heldur vildi bara svo skemmtilega til að ég var gelgja einmitt þegar skjólklæði áttu upp á pallborðið hjá ungviðinu.
Ég hef hugsanlega verið eilítið frumstæð í vali á fylgihlutum, þ.e. stígvélum, ullarhúfum, treflum og lúffum, en hey, í tísku, svona um miðbik líkamans... toppurinn og táin kannski undanskilin, en ekki verður á allt kosið... eða hvað?
Í tísku eða ekki í tísku... hver veit?
Man vel eftir kraftgallatískunni. Man frekar eftir því að hafa ekki eignast einn slíkan sökum fjárskorts heimilisins, enda Breiðhyltingur. Neyddist því til að fara í skræpóttum skíðagallanum og fékk stundum háðsglósur fyrir vikið. Reyndi að verða mér út um gallan með ólögmætum hætti en lánaðist ekki. Sumir klipptu teygjuna í mittinu, til að gera þá "tískulegri"?
SvaraEyðaNú í dag sé ég þessa sömu kraftgalla hanga á snögunum í leikskóla sonar míns. Horfi ekki lengur sömu öfundaraugum á fóstrurnar í göllunum og ég gerði til vina minna í "den tid" enda hafði ég efni á að kaupa mér almennilega dúnúlpu frá 66 gráðum norður á síðasta ári. Er ekki frá því að ákveðnir samnemar mínir horfi nú löngunaraugum á mína hlýju þykku úlpu, sem er líka svo flott.
:)
Kraftgallatískan gladdi mæður umræddrar kynslóðar mjög, ekki síst mæður gelgna!
SvaraEyðaKveðjur kærar,
múttan þín.
Sjálf fór ég alloft í lopapeysu á Orminn. Þar var enda svo til hagað að maður gat auðveldlega komið sér upp bæi krabbameini og lungnabólgu á svosem eins og einni klukkustund.
SvaraEyðaAnnars hef ég iðulega fussað yfir óhollri skótísku og gjarnan látið mig hafa það að vera á strigaskóm eða öðrum flatbotna skóm í hóp hávaxinna glæsikvenda á pinnahælum. Ég hef rökstutt það undarlega gildismat með því að um sjötugt muni enginn eftir því hvernig skóm ég klæddist áratugum fyrr, nema þá fæturnir á mér.
Hahaha... skemmtilega lesning.
SvaraEyðaÞað sem fer samt einhverra hluta vegna mjög í taugarnar á mér er það að margir staðir "niðri í bæ" eru með ákveðið "DRESSCODE" eða hvað það á að kalla það. Hettupeysur til dæmis bannaðar, ýmindaðu þér þá ef maður mætti í gúmmítúttum og kraftgalla af því það er 10 stiga frost úti...
Annars hef ég líka verið að velta tískunni fyrir mér. Ég stunda nætur lífið reyndar ekki neitt en það er yndislega fyndið að sjá stelpurnar sem eru á gelgjunni í dag reyna að fóta sig niður svell á laugarveginum í löngum pinnahælum, mínípilsum og flegnum bolum. hahaha ekkert rosalega elegant heldur á að líta. Mjög hallærisleg að sjá hvað tískan fer þeim innilega illa. ;)
Ég bið bara annars að heilsa í bili!
He. Ég bara skildi ekki þessa fyrirsöng. Meikið ekki á ykkur handleggina! Þarf virkilega að segja fólki það!?!?
SvaraEyðaÓ, afsakið mig. Ætlaði ekki að vera nafnlaus.
SvaraEyðaAgnes
Sko, þetta er ekki spurning um að vera fórnarlamb tískunnar, þetta er spurning um að láta ekki pranga hvaða tísku sem er inn á sig.
SvaraEyðaKraftgallatískan var náttúrulega bara himnasending fyrir foreldrana. Verst náttúrulega ef ekki var farið úr gallanum þegar setið var í stofu. Sparaði náttúrulega kyndingu að hafa einn löðursveittan og sjóheitan ungling í húsinu.
En að meika á sér handleggina! ég ætti ekki annað eftir, ég á nóg með að passa að andlitsmeikið klínist ekki í fötin mín :)
Ég var einu sinni að plampa í gúmmístígvélum í krapaslabbi í borginni og þá mætti ég konu sem var í háhæluðum skvísuskóm með böndum yfir ristina - það kalla ég að vera fórnarlamb tískunnar og að vera fullur afneitunar á að búa á Íslandi.
kv. Rannveig Árna