mánudagur, mars 17, 2008

Furðulegt háttalag dóms um dag

Hneyskli mánaðarins er án efa Asperger dómurinn. Reyndar virðast dómarar landsins vera á einhverju skaðabótaæðistrippi sem sjá mátti einnig á Rasistadómnum hans Ómars R.

En að halda því fram án þess að leita sér haldbærra upplýsinga um Asperger heilkennið að stúlka með þá greiningu hafi átt að geta séð fyrir afleiðingarnar af því að skella hurð af afli en dómkveðja samt tvo matsmenn um rennihurðir segir okkur að virðing fyrir fólki sé á undanhaldi í landinu. Í dómnum er mikið blaðrað um hurðina, sem í þessu tilviki hefur trúlega gegnt hlutverki vopns og ég gat ekki skilið dómsorðin betur en að hún hafi þótt helst til hættuleg.

Hættuleiki hurðarinnar þykir mér þó frekar vera aukaatriði þegar málsatvikin eru með þessum hætti.

Við Íslendingar búum svo vel að eiga gildandi lagagrein um mál af þessu tagi, ákvæðið víðfræga úr mannhelgisbálki Jónsbókar, voru ágæta lagasafni frá því herrans ári 1281:

Mannhelgi.
Kap. 8. Um óðs manns víg ok hversu með hann skal fara.
Ef
óðr maðr brýst ór böndum ok verðr hann manns bani, þá skal bæta af fé hans … ef til er … En ef óðr maðr særir mann, þá skal arfi uppi láta vera sárbætr ok læknisfé af fé hins óða.”

Til eru fordæmi frá 20. öld um að þetta ákvæði sé lagt til grundvallar skaðabótaskyldu fatlaðs einstaklings, sem í því tilviki særði reyndar ekki fórnarlambið nema á sálinni. Þó ekki sé minnst á þetta ákvæði í þessum dómi virðist liggja í loftinu að það sé lagt til grundvallar. Lítum aðeins á dómsorðin, feitletranir eru frá mér komnar:

“Við mat á því hvort tjónvaldur geti borið skaðabótaábyrgð á grundvelli sakarreglunnar þurfa að liggja fyrir að sérstakar huglægar afsökunarástæður eigi ekki við um hann svo sem æska eða skortur á andlegri heilbrigði. Í málinu liggur fyrir að B hefur verið greind með Aspergerheilkenni. Í fyrirliggjandi bæklingi um þá fötlun segir meðal annars að Aspergerheilkenni sé ekki sjúkdómur heldur fötlun skyld einhverfu. Kemur þar og fram að ólíkt flestum einhverfum hafi einstaklingar með Aspergerheilkenni ekki alvarlega skertan mál- og vitsmunaþroska. Komi lykil­einkenni Aspergerheilkennis fram á tveim sviðum, annars vegar í félagstengslum og samspili við aðra og hins vegar í sérkennilegri og áráttukenndri hegðun og áhugamálum.

[...]


B var nýorðin 11 ára þegar atburður sá sem hér er fjallað um átti sér stað. Af því sem að framan er rakið þekkti hún muninn á réttu og röngu og er ekkert í málinu sem bendir til þess að fötlun hennar hafi skert dómgreind hennar eða að vitsmunaþroski hennar hafi verið minni en almennt hjá börnum á sama aldri. Ekkert liggur fyrir um það í málinu að B hafi ætlað sér að skella hurðinni á stefnanda umrætt sinn heldur er líklegra að hvatvísi hennar hafi þar ráðið för eða reiði vegna þess að henni hafði sinnast við skólabræður sína. Á hinn bóginn mátti henni vera ljóst, að sú háttsemi hennar að loka hurðinni með afli eins og slegið hefur verið föstu að hún gerði, væri hættuleg og hlaut hún að gera sér grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar sú háttsemi gat haft í för með sér. Verður ekki séð á hverju stefnda A byggir að krafa stefnanda sé utan þess sviðs sem tjónvaldur kunni að bera ábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins, en sú krafa hennar er ekki rökstudd. Að því virtu sem nú hefur verið rakið ber B skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.”

Dómurinn setur fram þá staðhæfingu, byggða á heimildum úr bæklingi að 11 ára stúlka með Asperger hafi þekkt muninn á réttu og röngu. Stúlkan er a) barn og b) með andlega fötlun. Hér er því gengið út frá því að 11 ára börn þekki muninn á réttu og röngu og að Asperger heilkenni hafi ekkert að segja. Að auki kemur fram í dómnum að einstaklingar með Asperger hegði sér ekki eðlilega í félagstengslun og samspili við aðra en staðhæfa samt sem áður um færni stúlkunnar til að taka réttar ákvarðanir í aðstæðum sem eru henni væntanlega sökum heilkennisins, afar erfiðar. Mér persónulega finnst ekki annað koma fram í dómnum en að fyrir liggi huglægar afsökunarástæður, bæði vegna æsku og skorts á andlegu heilbrigði... en ég er ekki löglærð, svo hér náttúrulega aðeins um að ræða hugleiðingar leikmanns og rétt að árétta það.

Þá er í dómnum ekkert komið inn á það hvort kennarinn, stefnandinn, hafi hegðað sér skynsamlega í umgengni við stúlkuna. Nú skal ég ekki segja um hvort lögmaður stúlkunnar hafi eitthvað komið inn á það, en mig rámar nú samt í einhverja meginreglu auk sjálfrar sakarreglunnar að sá sem fer fram á skaðabætur þurfi að sýna fram á að hann hafi ekki sjálfur boðið hættunni heim með gáleysi sínu. Gera má ráð fyrir að kennari barns með Asperger hafi einhverja vitneskju um andlegt ástand þess og geri sér að einhverju leiti grein fyrir því að það bregðist ekki við eins og önnur börn. Bonus Pater. Var það skynsamlegt að stinga höfðinu inn um hurðina? Láta börn með Asperger auðveldlega tala sig til? Berja þau ekki frá sér þegar svo ber undir? Bara smá svona aukapæling, ég þekki engann með Asperger.

Þá er komið að því sem mér finnst vera helsta brotalömin í málinu. Dómarar EIGA að vera hlutlausir. Því er ég sammála. Þeir eiga aðeins að afgreiða þær kröfur sem eru gerðar fyrir dómnum og ekki að taka neitt til rannsóknar að eigin frumkvæði. Hver gæti verið ástæða þess að einu gögnin sem lágu fyrir í málinu um Asperger heilkennið hafi verið bæklingur?

Í fyrsta lagi veit ég ekki hvort farið var fram á gjafsókn í málinu, en hafi það verið gert, hafa málsaðilar væntanlega fengið synjun, því þeim var gert að greiða málskostnað auk tíu milljónanna í skaðabætur.

Í öðru lagi kemur þetta fram í lögum um meðferð einkamála:

61. gr. 1. Ef ekki verður farið svo að sem segir í 2. eða 3. mgr. 60. gr. kveður dómari einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila. Í beiðni skal koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það er sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með mati.

63. gr. 1. Matsmaður skal semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit hans er reist á. Matsgerð skal fengin matsbeiðanda í hendur, en matsmanni er þó rétt að krefjast áður greiðslu skv. 2. mgr.
2. Matsmaður á rétt á hæfilegri þóknun fyrir störf sín samkvæmt reikningi og endurgreiðslu útlagðs kostnaðar úr hendi matsbeiðanda. Matsmanni er rétt að krefjast greiðslu fyrir fram vegna ferðakostnaðar, svo og tryggingar samkvæmt ákvörðun dómara fyrir þóknun sinni ef með þarf.

Af þessu má í fyrsta lagi ráða að móðir stúlkunnar hefði þurft að fara fram á dómkvaðningu matsmanns fyrst dómarinn fór ekki fram á hana sjálfur og ekki er ljóst hvort hún hafi gert það. Í öðru lagi kemur fram að dómkvaðning matsmanna er gerð á kostnað þess sem fer fram á matið. Hafi það átt fyrir henni að liggja að greiða sérfræðingum fyrir að leggja mat sitt á málið má hugsanlega draga þá ályktun að hún hafi sett fyrir sig að greiða þennan kostnað úr eigin vasa.

Gera má ráð fyrir því að Seltjarnarneskaupstaður hafi krafist þess að dómkvaddir yrðu matsmennirnir um hurðirnar, enda sá angi málsins höfðaður á hendur þeim og síðast þegar ég gáði var það ekki fátækasta sveitarfélag landsins. Sveitarfélagið hefur því varla munað um að splæsa í tvo hurðasérfræðinga.

Foreldrar barna sem stríða við fötlun þurfa oft að leggja út gríðarlegan kostnað til að verða við sérþörfum barna sinna. Þetta er ekki skrifað til að skamma dómara, það þýðir ekki neitt. Ég er fyrst og fremst að velta því fyrir mér hvort það sé ekki í höndum ríksins að tryggja það með lagasetningu að þegar mál er höfðað á hendur barni með fötlun að dómkvaddur sé matsmaður með sérþekkingu á fötluninni og að foreldrar barnsins þurfi ekki ofan á allt annað að borga brúsann. Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að þeir geta átt yfir höfði sér að greiða tíu milljónir úr eigin vasa þegar kennarar ákveða að stinga hausnum á sér milli stafs og hurðar þegar barnið tekur bræðiskast.

Svo finnst mér út af fyrir sig í meira lagi vafasamt að kennari geti höfðað mál á hendur nemenda. Nemendur með sértæk vandamál eru ekki þeir einu sem geta “brotist úr böndum”. Reyndar þekki ég aðeins dæmi þess úr mínu lífi að “óbreyttir” nemendur valdi usla í kennslustundum. Hér á að vera um vinnuveitendaábyrgð að ræða. Kennarinn átti að sjá sóma sinn í því að stefna Seltjarnarneskaupstað fyrir allt heila klabbið. Þá hefði hegðun hans líka klárlega verið tekin til skoðunar í dómnum.

En kannski eru þetta skilaboð um að yfirvöld landsins vilji halda áfram sortera fólk eins og í gamla daga. Hafa fötluð börn sér og ófötluð sér. Hvur veit?

Kæru lesendur, getið þið sagt mér hvað maður er gamall þegar maður byrjar að þekkja muninn á réttu og röngu?

7 ummæli:

  1. Nafnlaus12:50 f.h.

    Vel að orði komist :)
    Kv. Sunna R.Þ.

    SvaraEyða
  2. Nafnlaus8:34 f.h.

    Heyrðu, verjanda stúlkunnar sást víst yfir að byggja vörnina á fötlun stúlkunnar.
    Það verður víst að koma öllum málsatvikum að áður en dómur er kveðinn upp en ekki eftir uppkvaðningu.
    En Guði sé lof fyrir að fjölskyldan er með fjölskyldutryggingu sem borgar brúsann ef málinu verður ekki snúið í Hæstarétti.
    kveðja
    Rannveig Árna

    SvaraEyða
  3. Rannveig: Það er greinilegt að ekki dugir að deila við dómarann, né heldur dómritarann ;) En segðu mér, hvar fær maður svona innanhússupplýsingar, t.d. um fjölskyldutryggingar stefnda? Af hverju eru slíkar upplýsingar ekki opinberar líkt og dómurinn sjálfur? Fyrir svo utan að það þarf ekki að segja mér að tryggingarnar borgi þetta bara vesenislaust án þess að greiðslubirgði fjölskyldunnar aukist. Bara við það eitt að klessa á dauða bíla hækka iðgjöldin upp úr öllu valdi, ég hef prófað það. Eitthvað hlýtur þá að kosta þegar maður er dæmdur sekur fyrir að berja fólk í hausinn með hurðum.
    Það kemur mér hins vegar ekki á óvart að einhver brotalöm hafi verið í málflutningnum, en það er nú svo. Hvað segja innanhússmenn í dómshúsunum annars um það að þekkja muninn á réttu og röngu, gerir maður það 11 ára?

    SvaraEyða
  4. Ég held alla vega að 11 ára gamalt barn skelli ekki hurð á höfuð neins með það að markmiði að valda varanlegum skaða og 25% örorku. Höfum við ekki öll einhverntíman rokið í fússi inn í herbergi með foreldra eða systkin á hælunum og skellt hurðum? Og þá væntanlega ekki með þeim ásetningi að valda skaða, heldur bara til að fá að vera í friði. Þetta mál er allt hið fáránlegasta og hef ég mikla samúð með foreldrum stúlkunnar.

    Einhversstaðar finnst mér ég hafa lesið að venjuleg heimilistrygging bæti ekki þetta tjón. Tryggingin greiði aðeins tjón sem barn undir 10 ára aldri veldur. Hvað varðar sérstakar tryggingar fyrir börn með geðræn vandamál/fatlanir þá er afar erfitt ef ekki ómögulegt að fá svoleiðis á Íslandi í dag.

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus10:16 f.h.

    Ja burtséða frá því hvað ég vinn, þá held ég að 11 ára barn geri nú ekki svona hluti að yfirlögðu ráði.
    Ég las bara einhvers staðar á netmiðli þetta með fjölskyldutrygginguna, enda held ég að það komi dómnum sem slíkum ekkert við.
    Það var talað um fjölskyldutryggingu en ekki venjulega heimilistryggingu í þessari umfjöllun sem ég las.
    Dóminn er hægt að nálgast í heild sinni á netinu undir domstolar.is, en svo hafa blaðamenn grafið upp þetta með vörnina og trygginarnar.
    En alla vega hlýtur þessi dómur að verða til þess að menn athugi sinn gang.
    Hver á að tryggja hvern fyrir hverju, o.s.frv.
    kv.
    Rannveig Árna

    SvaraEyða
  6. Þó ég hafi ekki kynnt mér málið nægilega, né velt yfir því vöngum, þá þykir mér nú ærið tilefni að staðfesta þá skoðun mína að ef um óviljaverk er að ræða, köllum við það slys. Ekki árás.

    Þar með ætti málinu að ljúka.

    Það grátlegt að hörmungar af þessu tagi geti haft jafn fáránlegar afleiðingar og raun ber vitni, það er kominn tími á siðferðisbyltingu hér á landi.

    Gleðilega páska

    SvaraEyða
  7. Mér finnst athyglisvert að bera þennan dóm saman við dóma í hreinræktuðum ofbeldismálum, þar sem gerendurnir eru hvorki börn né með neitt þekkt heilkenni, nema þá kannski sértæka ofbeldisröskun. Fangelsisdómar eru bæði algengari og þyngri nú en fyrir áratug (ég er reyndar ekkert sannfærð um að fangavist sé æskilegasta leiðin til að uppræta ofbeldi) en það er fremur sjaldgæft að þolendum séu dæmdar háar bætur.

    Eigi alls fyrir löngu var maður dæmdur í fangelsi fyrir hrottalega líkamsárás og nauðgun. Eins árs fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundna. Auk þess voru fórnarlambinu dæmdar bætur upp á 600 þúsund kr. Þess ber að geta að fórnarlambið var unnusta ofbeldismannsins svo líklega hefur hún ekkert þjáðst í samanburði við kennarann.

    SvaraEyða