Mér þykir viðeigandi að taka upp léttara hjal. Ekki nóg með að ég hafi sjálf ekki staðið mína jákvæðni-plikt, heldur fór allt í bál og brand við Rauðavatn í morgun. Ég hef ákveðið að segja ekki skoðun mína á neinu því sem gengið hefur á, heldur gefa öllum þeim sem villast inn á þessa síðu, innsýn í bókmenntirnar sem eru á náttborðinu hjá mér. Ég vona að í þessum hópi leynist nokkrir vörubílstjórar, svo þeir geti brosað gegnum tárin.
[...]
15. október 1956
Ég get ekki horft framan í nokkurn mann það sem eftir er, sérstaklega ekki krakkana í skólanum. Aldrei hef ég verið auðmýkt jafnhryllilega, mín bíður sennilega ekkert betra í framtíðinni en að vinna í kartöfluskúrunum í samfélagi við óupplýstan sveitalýð. Maður væntir þess af vinum sínum að þeir styðji mann í neyð en þessa stundina er Pickle steinsofandi í hinu herberginu. Þetta er allt fávitanum bróður hennar að kenna, hann kom með múlasnann að sundlauginni.
Við Pickle vorum að synda, áhyggjulausar og kátar. Ég var í rósóttu bikini og með rósótta sundhettu. Þá kemur Lemuel arkandi með einhverja bikkju í taumi og segir: "Komdu, ég skal leyfa þér að fara á bak á Jarpi."
Ég sagðist vera hrædd við hesta, hann sagði að þetta væri ekki hestur heldur múlasni og ég þyrfti ekkert að óttast, hann skyldi teyma undir mér einn hring umhverfis garðinn.
Mín trygga vinkona, Pickle, sagði, og ég hef það orðrétt eftir: "Farðu bara, hann er gæfur eins og lamb."
Ég skrönglaðist á bak. Það hafði ekki verið lagt á hann, enginn hnakkur, bara indíánskt söðulklæði. Ég spurði Lem hvernig ég ætti að fara að því að tolla á baki.
Hann sagði: "Þú heldur þér bara í bikkjuna."
Ég sagði: "Meiði ég hann ekki?"
Hann sagði: "Nei, múlasnar finna ekki til."
Hann teymdi bikkjuna einn hring umhverfis garðinn og ég hafði gaman af, þar til allt í einu að rifjaðist upp fyrir mér saga, sem Dottie hafði sagt mér af stelpu í Memphis, sem datt af hastbaki og slasaðist illa. Hesturinn steig ofan á annað brjóst hennar og kramdi það, með þeim afleiðingum að síðan var hún flöt eins og straubretti öðrum megin. Ég sagði Lem að nú væri komið nóg, ég vildi fara af baki.
Þá vildi svo illa til að vespa stakk Jarp. Lem var nýbúinn að segja að múlasnar fyndu ekki til, nema hvað, skepnan tekur kipp og æðir af stað, beint af augum, stökk út úr garðinum og út á þjóðveg þrjú og þaut með hraða ljóssins niður allan veg. Ég hélt dauðahaldi í faxið með annarri hendi og um gleraugun með hinni. Ég er viss um að ég hossaðist ekki minna en hálfan metra upp í loft í hverju stökki. Ég kallaði í sífellu: "Hó, hó, hó," en helvítis bikkjan lét það sem vind um eyrun þjóta. Ég sá jeppalest koma á móti mér, og það sem verra var, jepparnir voru fullir af hermönnum. Þetta leit illa út, ég sá ekki betur en þeir stefndu beint á mig, en sem betur fer höfðu þeir vit á að víkja út í vegarkantinn, svo það slapp fyrir horn. Þegar ég þaut framhjá, æptu þeir og blístruðu eins og vitleysingar og þá uppgötvaði ég að ég var berbrjósta, efri hluti baðfatanna hafði losnað og sigið niður á maga. Þannig var þá komið fyrir mér, ég á snaróðum múlasna, sem lét ekki að stjórn, nakin að ofan og það frammi fyrir heilli hersveit. Ég er viss um að jepparnir voru ekki færri en tvö hundruð. Ekki gat ég fleygt mér af baki, það hefði jafngilt sjálfsmorði. Ég varð að velja á milli siðgæðis eða dauða, og ég segi það satt, það munaði minnstu að ég veldi dauðann. Þú hefðir átt að heyra í hermönnunum. Það mætti halda að þetta væri í fyrsta skipti, sem þeir sæu berbrjósta kvenmann ríðandi á múlasna. Jafnvel ég hef flett National Geographic.
[...]
Svona skrifar Fanny Flagg í bókinni Hvítt skítapakk og flekkóttur svertingi. Ég rakst á þessa bók á bókasafninu um daginn og mundi þá að Soffía hafði sagt mér að lesa hana fyrir margt löngu síðan. Þessi titill gleymist ekki svo auðveldlega. Ég fer að skila henni á safnið, svo þið getið tekið hana næst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli