föstudagur, apríl 18, 2008

Hlýnun jarðar

Sjálfstæðismenn fara nú mikinn og þykjast hafa viðlíka þekkingu á loftslagsbreytingum og handarbakinu á sjálfum sér. Hinn lögfróði Sigurður Kári efaðist um sannleiksgildi hafísbráðnunar sem hægt er að sjá á myndum, t.d. hér og bar við þeim rökum að honum væri svo kalt að það gæti ekki verið nein hlýnun á ferðinni.
Hinn stjórnmálafróði Hannes Hólmsteinn varar fólk við því að hlusta á siðapostulann Al Gore því allt sé lygi sem hann segir.

Nú hef ég enga sérþekkingu á loftslagsbreytingum og mér finnst heldur ekkert sérstakt um Al Gore. Fyrst Hannes Hólmsteinn er svona mikill nákvæmnismaður í akademískum vinnubrögðum eins og hann vill vera láta í Fréttablaðinu í dag, þá get ég alveg haldið óýktan fyrirlestur í Háskólabíó og spurt áheyrendur hvernig á því standi að það sé álíka frískandi að hjóla í Reykjavík eins og að sitja í reykmekki inni á Ölstofunni meðan enn var reykt á öldurhúsum borgarinnar. Al Gore fór skv. Hannesi Hólmsteini rangt með þrjár staðreyndir og þess vegna ber að vara menn við boðskapnum í heild. Hefur ekkert með álit Hannesar á manneskjunni Al Gore að gera, en pistil Hannesar hefði mátt stytta um helming ef hann hefði sleppt yfirlýsingum þess efnis. En það var nú gott að Hannes fann það í hjarta sínu að fyrirgefa Al Gore heimsóknina, því hann lagði blessun sína yfir íslenska stóriðju. Hannes er sumsé með það á hreinu að Íslendingar gleypi gagnrýnislaust við öllu sem spekingur segir, svo lengi sem hann sé Bandaríkjamaður og frægur.

Kæri Hannes, þetta er stór misskilningur hjá þér. Þeir einu sem gleypa við öllu sem gengur upp úr frægum Bandaríkjamönnum eru sjálfstæðismenn. Þú þarft ekkert að óttast um að við hin grípum þetta gagnrýnislaust á lofti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli