Svona eins og manni líður eftir próf. Allt heimilisfólkið búið í prófum, karlpeningarnir tveir fóru saman á geimveruhasarmynd í bíó. Ég komst ekki með, því ég átti að vera að spila á píanó í Kassanum í Þjóðleikhúsinu í kvöld, hvar lokaverkefni Elísabetar Jökulsdóttur úr Leiklist - fræði og framkvæmd er sýnt. Svo var sýningunni bara aflýst af einhverjum óviðráðanlegum orsökum og ég bara hálffegin að mega anda rólega heima hjá mér í kvöld. Leikritið hennar Elísabetar heitir Mundu töfrana og verður önnur og síðasta sýning (a.m.k. af þessari útgáfu) í Kassanum nk. föstudagskvöld kl. 20:00.
Svona fyrst ég er alein heima og enginn heyrir til er best að segja gamansögur á kostnað heimilisfólksins.
Einhvern tíma um daginn vorum við heimilisfaðirinn að elda mat í sameiningu og þegar maturinn var um það bil að verða til var unglingurinn hvergi sjáanlegur. Faðirinn hringdi þá í einkasoninn og spurði hverju þetta sætti. Unglingurinn kvaðst vera á leiðinni heim og birtist í eldhúsinu nokkrum mínútum síðar með fýlusvip. Þegar við spurðum hann hvort hann væri ekki hress, þá sagðist hann hafa ætlað að gera algjört mega böst eftir að símtalinu lauk, því faðirinn hafði gleymt að skella á þegar hann kvaddi. Sonurinn ákvað að komast nú að raun um það hvort við eyddum ekki öllum okkar frístundum í að baktala hann, svo hann hafði símann áfram á eyranu, lagði við hlustir og hlakkaði til að reka það ofan í okkur þegar hann kæmi heim.
"En svo var Þórunn Gréta bara að syngja lögin úr Dýrunum í hálsaskógi og þú varst bara að tala um að piparinn væri búinn, þannig að þetta var ekkert merkilegt!!"
Þá vitum við það. Unglingunum er ekki bölvað á þessu heimili og söngur er í hávegum hafður þegar verið er að elda. Hins vegar hefðum við vissulega getað verið að tala um eitthvað viðkvæmt, svo það er vissara að muna að skella á þegar símtali lýkur. Skrifa það í bókina mína.
Ég og fyrsti yfirmaður minn hér á Lyngásnum skemmtum okkur stundum við að syngja lög úr Dýrin í hálsaskógi - hefðum náttúrulega frekar átt að æfa Kardimommubæinn. En hvað um það, þáverandi sýslumaður á Eskifirði hélt að við værum snar spinnegal þegar hann mætti hingað og starfsmenn dómsins og voru að syngja um Mikka ref og Lilla klifurmús :)
SvaraEyðaKveðja
Rannveig