föstudagur, maí 16, 2008

Í trylltum dansi

Eftir sundurslitin vinnudag á miðvikudaginn hélt ég sem leið lá á Laugaveginn, en ég átti fund við Agnesi og Báru. Það er þrennt sem gerist alltaf þegar þetta þríeyki hittist. Við borðum, á matseðlinum er alltaf pizza og við munum aldrei hvað það er langt síðan síðast. T.d. sullaðist hvítlauksolían út um allt, sem hefði alveg getað gerst á Pizza '67 í Fellabæ forðum daga. Þegar við elduðum pizzu á Njálsgötunni sagði Bára, eftir að við höfðum NB komist að því að næst myndum við ekki hittast allar saman fyrr en eftir í fyrsta lagi ár, "Við sjáumst á morgun, það er hvort sem er alltaf eins og við höfum hist síðast í gær". Fullkomlega rétt athugað.
Í þetta skiptið var Bára á hraðferð á æfingu, daginn eftir til Vestmannaeyja og daginn eftir það til Noregs. Við náðum nú samt að borða heila pizzu. Við Agnes ákváðum að labba niður Laugaveginn og finna kaffihús, svo Bára gæti bara fundið okkur aftur ef æfingin yrði stutt. Vitandi að Kaffitár er bara opið á daginn, ákváðum við samt að gá, því það er langbesta kaffihúsið í bænum. Viti menn, á skilti fyrir utan stóð: Miðvikudagur, opið til 23:30. Við vorum bænheyrðar og gengum inn. Við veittum því reyndar athygli að gólfið var autt, svo við ákváðum að spyrja hvort það væri verið að skúra og við hefðum bara séð ofsjónir, en þá sagði kaffibarþjónninn: "Nei, nei, það er opið, það er bara Tangó". Við hváðum og hann sagði: "Þið megið vera með, það er verið að kenna Tangó". Þannig að við Agnes eyddum því sem eftir lifði kvölds í Tangótíma á Kaffitár sem kostaði heilar fimmhundruð krónur. Verst að við heyrðum ekkert í símunum þegar Bára hringdi aftur, því við vorum bara með tangótónlist í eyrunum svo hún fékk ekkert að prófa. Að því klúðri frátöldu, held ég að ég hafi fundið uppskrift af fullkomnu vorkvöldi í Reykjavík.

1 ummæli:

  1. Frábært! Tangó er æðislegur. Mig hefur alltaf langað til að dvelja um tíma í Finnlandi því þar hittist fólk síðdegis til að dansa tangó. Síðdegistangó? Hljómar vel, ekki satt?

    SvaraEyða