Ég er komin heim á hagann, þrátt fyrir að vera fjarri heimahögunum.
Við héldum til Keflavíkur syndsamlega árla morguns þann 1. júní og við tók það menningarlegasta ferðalag sem ég hef á ævinni tekið þátt í. Hentaði mér ákaflega vel. Veðrið hefði að vísu frekar hentað til sólbaðs en söguslóðaferða, en skipulaginu varð ekki haggað. Sem betur fer. Það skal tekið fram að ferðasagan í heild er efni í doðrant, jafnvel í tveimur bindum, svo hér er aðeins stiklað á mjög stóru.
Hópurinn hópaðist saman í rútu fyrir utan flugvöllinn í Frankfurt, sem ferjaði liðið til Eisenach, fæðingarborgar Bachs. Daginn eftir var Wartburgarkastali skoðaður og þar á eftir fæðingarheimili Johanns Sebastians Bachs. Skoðunarferðin þar um hófst á því að spilað var á miðalda-hljómborðs-hljóðfæri. Ég fékk að pumpa pumpuorgelið meðan d-moll toccatan var spiluð.
Svo var það Erfurt, skoðuð undir leiðsögn afar eftirminnilegs trompetleikara, sem virtist ekki vita neitt skemmtilegra en að sýna ferðamönnum borgina og spila á trompet. Svona eiga leiðsögumenn að vera. Hann lét fararstjórann í hópnum hafa nafnspjaldið sitt og ég vonast til að sjá hann þeyta lúðurinn á Íslandi áður en langt um líður.
Næst var Leipzig og Tómasarkirkjan. Þar voru Bach, Mendelsohn og Páll Ísólfsson. Það var rós á leiði Bachs.
Wittenberg var skemmtileg borg. Það væri gaman að vita hvort hún er alltaf jafn lifandi og þegar miðaldahátíðin "Brúðkaup Lúthers" er í gangi. Ef svo er, þá þarf engum að leiðast sem þangað kemur.
Eisleben var skrýtinn staður, en um kvöldið var tónlistarhátíð í klausturgarðinum. Svo rjóminn sé fleyttur ofan af atriðunum, þá verður ekki hjá því komist að nefna flautuleikara í sérflokki sem spilaði með barrokkhljómsveit og svo stórskemmtilegt jazzband, skipað mönnum sem virtust allir vera á sextugsaldri og voru ekki með neitt ljós en spiluðu undurvel í kolniðamyrkri.
Marburg er háskólabær í brekku og þar er vinalegt og ljúft. Nóg af rjóma, kökum og kaffi og þægilegt andrúmsloft. Þjóðverjar unnu fótboltaleik og allt ætlaði um koll að keyra, við sátum nokkur saman á bekk einhvers staðar úti og allt í einu birtist eldri kona og gaf okkur kökur, bara svona í tilefni af EM og allir vinir. Að vísu fá Marburgarbúar refsistig fyrir nokkuð sem ég geri betur grein fyrir síðar.
Í Marburg kvöddum við svo hópinn, tókum okkur bílaleigubíl, sem var ódýrara en að ferðast með lest, því miður fyrir umhverfið, og keyrðum á honum til Dresden. Við urðum bæði bálskotin í Dresden. Heimsóttum söfn, sigldum með gufuskipi um Saxelfur, fórum á orgelandakt í Frúarkirkjunni og gistum á krúttlegu gistiheimili við Mendelsohnallee.
Frá Dresden fórum við svo til Weimar. Ef Þýskaland er sundlaug af menningu og sögu, þá er Weimar alveg örugglega djúpa laugin. Við komum þangað á fimmtudagskvöldi, gistum á Hótel Liszt við Liszt Strasse. Fórum í hús Franz Liszt og í Franz Liszt tónlistarháskólann, en þangað langar mig fjarska mikið til að fara þegar ég verð orðin stór. Hús Franz Liszt hefur staðið óbreytt frá því hann flutti þaðan, rúmið, píanóið, skrifborðið ku allt vera á sínum stað. Vantaði bara fótatakið. Á föstudagskvöldið fylltist miðbærinn af unglingum og Hallærisplan unglinga í Weimar er við þýska þjóðleikhúsið, fyrir aftan stytturnar af Göthe og Schiller.
Weimar kvöddum við með trega og héldum til Buchenwald. Davíð hafði áður komið til Dachau, ég til Bergen Belsen og Auschwitz. Það er vart hægt að lýsa með orðum hvernig tilfinningar fylla mann við að heimsækja þessa staði. En mér finnst Þjóðverjar alveg mega fá prik fyrir að halda þessum stöðum við, safna saman heimildum um það sem þarna fór fram og draga ekkert undan. Fegra ekki eigin hlut og viðurkenna eigin sekt. Mér er sem ég sæi Bandaríkjamenn reisa einhver viðlíka söfn í Guantanamo í framtíðinni, sýna myndir og segja "Svona fórum við með saklaust fólk". Ég sé nefnilega engan mun á Íraksstríðinu og Seinni heimsstyrjöldinni. Mér finnst nefnilega alveg jafn rangt að drepa hundraðþúsund manns eins og að drepa hundraðþúsundmilljón manns. Eins finnst mér alveg jafn rangt að taka þúsund manns til fanga án dóms og laga, svívirða þá og pynda og að fara þannig með milljón manns. Það skal tekið fram að tölurnar í þessu dæmi eru ekki byggðar á neinni tölfræðilegri samantekt.
Þýskalandsförinni lauk á heimflugi frá Frankfurt á sunnudegi. Á fimmtudegi brugðum við okkur svo af bæ á nýjan leik. Nú var ferðinni heitið austur á land. Við áttum yndislega daga, þrjá á Borgarfirði, tvo á Héraðinu. Fórum í Runu, á hestbak, heimsóttum fólkið okkar og höfðum það náðugt. Hlakka til að fara aftur austur á Bræðslutónleikana.
En um leið og ég steig aftur fæti á reykvíska grund fékk ég enn eina pestina sem ætlaði mig lifandi að drepa um helgina. Þeir dagar sumarsins sem áttu að vera farnir í æfingar, iðni og að heimsækja vini, hafa farið í snýtingar, hóstaköst og óráð.
Myndir og molar munu birtast í skömmtum fram eftir sumri.
Að lokum óska ég eftir því að lesendur mínir sameinist í einnar mínútu þögn til minningar um Brynju Benediktsdóttur, leikhúskonu. Manni finnst stórt skarð höggvið í íslenskt listalíf í hvert sinn sem hörkufólk á borð við hana kveðja hið jarðneska líf.
En sumir segja að maður komi í manns stað. Þá hlýtur kona að koma í konu stað.
Sæl Þórunn Gréta! Mig langaði bara að kvitta þar sem ég lít nú stundum við hérna hjá þér! Langt síðan maður hefur séð þig, vonandi rekst maður á þig fyrr en síðar ;) Kveðja frá Akureyri, Dagmar Ýr
SvaraEyða