Við Davíð lögðum upp í enn eina sumarferðina árla föstudagsins 26. júlí. Keyrðum suðurfyrir og áðum m.a. á Þórbergssetrinu. Þar er fyrirmyndarsafn sem er allt í senn fallegt, fróðlegt og skemmtilegt. Safnakonan las fyrir okkur nýfundið bréf Steinþórs Þórðarsonar til Þórbergs bróður síns og reiddi svo fram kaffi og randalín.
Náðum landi í mömmukoti undir náttmál, fórum í góða sturtu og skriðum undir sæng. Í býtið héldum við með mömmu í aftursætinu sem leið lá niður í Runu. Mættum Eivör við Hofsströnd og fórum að hlakka til kvöldsins.
Frændurnir Halldór Magnússon og Hugi Steinsson litu í heimsókn eftir sjóferð.
Frændfólkið úr móðurlegg mínum fór að týnast að auk eins Hafnfirðings, þrjú tjöld risu við Runu og gist var í flatsæng inni.
Bræðslan var yndisleg eins og alltaf. Tónlistaratriðin hvert öðru betra og stemningin í takt við rómantíkina sem fyllti huga minn um leið og ég renndi inn fjörðinn fyrr um daginn. Hitti sæg af gömlum vinum og nýjum. Frétti svo seinna af öðrum eins sæg sem ég sá ekki í mannhafinu. Bið hér með að heilsa þeim öllum og sendi þeim faðmlag.
Undurfagur sumarmorgun rann upp og framreiddur var morgdegismatur á planinu við Runu. Ásta Kristín var þar aðalgestur ásamt foreldrum og félaga sínum, Simon.
Á sunnudeginum héldum við upp í Hérað og dvöldum þar til fimmtudags.
Á Skipalæk er heilmikið stuð. Amma á fullu, Gréta er á staðnum og Sigurjón Torfi er að sjálfsögðu aðalmaðurinn. Karítas frænka heldur í höndina á honum og hann elskar hana. Ég fór í fjóra reiðtúra og í hverjum þeirra rifjaðist upp fyrir mér hvað ég sakna þess að komast á hestbak þegar mér sýnist. Einhvern tíma skal sá dagur renna upp að ég hafi greiðan aðgang að hrossum á ný.
Hitti Söndru Ösp og Soffíu, fór í heimsókn til afa og rak augun í glænýtt píanó í matsal sjúkrahússins. Spurði strax hvort ég mætti ekki taka í gripinn og spilaði þar til kaffitímanum lauk. Skál fyrir píanóinu og megi það verða notað sem oftast. Á sjúkrahúsum eru nefnilega skemmtilegustu áhorfendurnir.
Ég var treg í taumi þegar kom að heimferð. Vildi ekki spönn frá rassi.
Keyrðum norðurfyrir og kíktum í töðugjöld á Skörðugili í Skagafirði. Kvenfélagskökur með kaffinu, majónes og marengs. Keyrðum á móti verslunarmannahelgarumferðinni sem lá frá Reykjavík. Af öllu því sem í boði var um verslunarmannahelgina langaði mig bara á Álfaborgarsjensinn.
Þvottur og vinna biðu þegar í bæinn kom. Og svo Tónlistarhátíð unga fólksins. Ég hafði áhyggjur af því þegar ég sótti um námskeiðspláss að mér yrði neitað um inngöngu á þeirri forsendu að ég teldist ekki lengur til ungs fólks, en ég virðist hafa sloppið fyrir horn. Námskeiðið mitt byrjar 14. ágúst, svo það er ekki seinna vænna en að koma sér í sæmilegt form.
---
Áttaði mig á því þegar við skriðum heim í hagahreiðrið að ég hafði tekið mér algert frí frá veruleikanum, hlustaði ekki á fréttir, las ekki blöð, las ekki veraldarvefinn og saknaði einskis. Að vísu heyrði ég út undan mér eina frétt þess efnis að vinstri græn telja nauðsynlegt að smala þingi saman strax vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar sem rekja má til innanbúðardeilna. Ég held að það sé samsæriskenning að deilur séu innan ríkisstjórnarinnar. Mér hefur nefnilega sýnst ríkja fullkomin samstaða innan hennar um að gera ekki neitt. (Að Jóhönnu Sigurðardóttur frátalinni, hún hefur unnið vinnuna sína.)
Ó mí lord... ég rembist eins og rjúpa til að verða ekki abbó, í staðinn gleðst ég með ykkur og sendi mjúkan koss! K
SvaraEyðaKristín Arna mín, gott að þú gleðst með okkur - það er svo mikilvægt - í staðinn fyrir hina tilfinninguna!!
SvaraEyðaKnús frá mömmu
Vá hvað mig langar mikið til að fara austur eftir þennan lestur!
SvaraEyða