föstudagur, október 24, 2008

Stórfrétt

Ég gleymdi alveg að skrifa pistil um stærstu tíðindi sem orðið hafa í mínu lífi í langan tíma.

Síðasta miðvikudag septembermánaðar ákvað ég að nú væri kominn tími til að hætta að drekka kaffi. Ég hef lengi strítt við svefntruflanir og einhvern tíma bentu heilsuspekingar mér á að kaffidrykkja hefði almennt slæm áhrif á svefn, þó maður drekki bara einn bolla á morgnana. Ég ákvað því að það væri til nógu mikils að vinna, svo ég gaf upp á bátinn þetta eina fíkniefni sem ég hef leyft mér að nota. Ég vaknaði á fimmtudagsmorgni, fór í skólann og fann engan áþreifanlegan mun... framan af degi! Svo eftir hádegi var ég orðin helst til framlág og í tónsmíðatímanum klukkan tvö geispaði ég út í eitt, svo það endaði með því að ég þurfti að biðja kennarann minn afsökunar og sagði honum bara hvernig á þessu stæði.

Hann svaraði: "Já, ertu hætt að drekka kaffi, gott hjá þér. Það er svo rosalega gott að byrja aftur!"

Dagarnir liðu og fráhvarfseinkenni fóru að gera vart við sig. Allan daginn hafði ég tilfinningu inni í hausnum sem helst mætti líkja við að hafa vatn í eyrunum. Það var eins og eitthvað væri að leka til og frá inni í hausnum á mér. Þessi tilfinning hvarf svo á þriðju viku og þá fór ég að hugsa mér gott til glóðarinnar, nú færi ég örugglega að sofna eins og engill og stökkva fram úr á morgnana eins og nýslegin álkróna. Og það stóð heima. Í eina viku. Við tók svo tímabil þar sem ég svaf næstum ekki neitt en dreymdi og dreymdi alla nóttina... tilgangslausa hversdagsdrauma þar sem ekkert gerðist. Ég bara labbaði Laugaveginn, fór í skólann og í vinnuna og heim... Eftir að því tímabili lauk var allt komið í sama horf og fyrir kaffileysið. Lengi að sofna, framlág á morgnana og hálfsofin. Þannig að ég sá að áhrif kaffileysis á svefn og vakningu eru lygi og datt íða aftur. Fékk mér kaffi í morgun. Það rifjaðist að vísu upp fyrir mér að ég hafði ákveðið að gefa þessari tilraun minni tvo mánuði og byrja aftur að drekka kaffi á jólunum, en ég sprakk eftir tæpan mánuð.

Ég hef alla vega lært að kaffi er alvöru fíkniefni. Fráhvörfin eru gríðarleg og ég geri mér ekki grein fyrir því hvort ég er haldin afneitun á slæm áhrif kaffis á svefn eða hvort þau eru í alvörunni lygi. Ég ætti kannski að reyna aftur og halda þá alla vega út fram að jólum.

Eða hvað?

11 ummæli:

  1. Veistu, ég hélt líka að kaffidrykkja hefði þessi áhrif á svefninn hjá mér og steinhætti að drekka kaffi þegar líða tók á daginn. Og, mikið rétt, ég hætti að glaðvakna eftir tveggja eða þriggja tíma svefn og liggja vakandi í klukkutíma eða meira. En svo gleymdi ég mér í einhverju boði og fékk mér kaffi eftir kvöldmatinn en hvað heldurðu? Ég steinsvaf alla nóttina eins og ekkert væri. Síðan þá hef ég endrum og eins fengið mér kaffi á kvöldin án þess að það hafi nein áhrif á svefninn. Ég er farin að hallast að því að þetta sé aldurstengt. Þú getur því huggað þig við að í ellinni geturðu látið eftir þér að drekka kaffi.

    SvaraEyða
  2. Já, þetta hefur greinilega mismunandi áhrif á fólk. Einn kunningi minn hætti í sumar og sagðist hafa fundið mun í þrjá daga orðið alveg eins og venjulega. Einu sinni gat ég ekki sofið á kvöldin ef ég drakk kaffi eftir hádegi.

    Veit hins vegar óbrigðult ráð við svefnleysi. Síðan ég byrjaði á þessu hef ég misst meðvitund um leið og ég legg höfuð á kodda, fullkomlega úrvinda. Og á ekki annars úrkosti en að hendast á fætur eins og byssukúla í síðasta lagi uppúr sjö á morgnana.

    Barneignir.

    SvaraEyða
  3. nei. kaffi er ekki fíkniefni. og ég fæ ekki heldur sérstaklega sent kaffi frá sviss. ehemm. ég held einmitt að súkkulaði sé ekki vanabindandi heldur. pottþétt ekki.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus1:30 e.h.

    Ég hætti einu sinni að drekka kaffi bara til þess að sanna fyrir ektamanninum að ég gæti það! Byrjaði snarlega aftur eftir að umsaminn mánuður var liðinn. Fann engan mun á svefni, þó.

    SvaraEyða
  5. Nafnlaus10:32 e.h.

    Veistu, ég reyndi þetta líka einu sinni, skipti alveg yfir í koffeinlaust te, en ákvað svo í miðjum hausverkjaklíðum að leyfa mér þennan eina munað þar sem ég er bæði hætt að drekka og reykja:)

    kv.saló

    SvaraEyða
  6. Nafnlaus12:28 e.h.

    Kaffi hefur ákveðin hægðalosandi áhrif og upprunalega var drykkurinn hugsaður sem slíkur. Í dag er drykkurinn ekki bara nytsamlegur í ofangreindum skilningi heldur skerpir hann einnig athyglisgáfuna, kemur með lítið menningarpartý í munninn og er ekki síðri með nikótíntyggjó en sígarettum. Ég verð bara hrygg að hugsa til þess að þú hafir næstum því ætlað að sofa betur á kostnað þess að kúka verr, missa fókus og detta úr kontakt við hina ótal mörgu menningarheima kaffidrykkjunnar. Ég fagna endurskoðun þinni. Sæl að sinni.

    SvaraEyða
  7. Nafnlaus12:29 e.h.

    Já og svo er kannski kaffihittingur í jólafríinu?
    kv. Laufey

    SvaraEyða
  8. Tja, ég hætti að drekka kaffi í sumar, líklega hefur þetta mismunandi áhrif á fólk og fólk misháð þessu, en ég var alveg bakk í þrjá daga, með hausverk og vanlíðan. Eftir það leið mér prýðilega. Aðalmunurinn hjá mér er að nú vakna ég á morgnana og þarf ekki kaffibolla til að ná meðvitund, sem mér finnst góð tilfinning. Finn engan mun á svefninum, þannig lagað. En ég er farinn að fá mér kaffibolla aftur af og til, en passa mig á að fá mér ekki á hverjum degi til að ávanabindingin brjótist ekki fram. En það er bara ég, mér er skítsama hvað aðrir gera.

    SvaraEyða
  9. Nafnlaus7:51 e.h.

    Koffínið í kaffinu er ávanabindandi og það tekur svona um eina viku að vinna það úr líkamanumþ. Allavega samkvæmt einhverjum BBC þætti sem var síðasta vetur um mat ! Mjög áhugavert

    Kv. Heiðdís

    SvaraEyða
  10. Nafnlaus9:45 e.h.

    Iss, kaffi er besti drykkur. Þá sjaldan sem ég ligg andvaka þá bara laga ég mér kaffi. Eftir einn bolla af heitu, nýlöguðu kaffi þá sofna ég eins og engill.
    Og hún Gras-Þórunn langamma þambaði bleksterkt svart kaffi lon og don og varð allra kerlinga elst.
    kveðja
    Rannveig Árna

    SvaraEyða
  11. Nafnlaus11:56 f.h.

    Tek undir með barneignaráðinu til svefns.

    SvaraEyða