sunnudagur, nóvember 02, 2008

Menning og málefni

Mamma kom í Reykjavíkina og bauð okkur hjónaleysum í tvö leikhús og gasalega fínt út að borða. Við sáum Hart í bak í Þjóðleikhúsinu á föstudagskvöld. Mamma og Davíð höfðu aldrei séð það áður og maður er náttúrulega ekki Íslendingur nema hafa séð það alla vega einu sinni. Ég hafði áður séð það hjá Leikfélagi Reyðarfjarðar fyrir árum og dögum og skrifað gagnrýni um það í gamla Austra. Það var fín sýning, Helgi Seljan, núverandi Kastljósmaður var þar í hlutverki Láka. En sýningin í Þjóðleikhúsinu þótti mér falleg í alla staði. Svolítið eins og að horfa á gamla bíómynd, en mig langaði einmitt á svoleiðis sýningu. Hverfa bara aftur í tímann og þurfa ekkert að hugsa voða mikið um einhvern boðskap sem er matreiddur ofan í mig á einhvern afbrigðilegan hátt. Mig langaði bara í slátur, ekki slátur með remúlaði og ólívum, og það fékk ég. Verkið er náttúrulega ofuríslenskt, en klárlega eitt af þeim betri leikverkum fyrr og síðar sem varpa eiga ljósi á íslenskan samtíma. A.m.k. af þeim sem ég hef séð eða lesið. Efnisinnihald skýrt og hálfsvartur húmor inn á milli. Leikurinn allur hinn besti, en þó miskastað í unglingsstelpurnar Sirrý og Gógó sem leiknar voru af tveimur kjarnorkukonum. Svo finnst mér alltaf hálffúlt þegar leikarar mæta ekki í framkall. Svoleiðislagað hef ég aðeins séð í Þjóðleikhúsinu og aðeins oftar en ég kæri mig um að muna.
Svo sáum við Fló á skinni í gær, sem var kærkomið eftir allar bömmerfréttirnar sem fyllt höfðu vitin alla vikuna. Það var náttúrulega algjört bull eins og við var að búast, sýningin frekar lengi í gang, en tók við sér undir lok 1. þáttar og hélt dampi eftir það, svo við fengum hláturjógað sem við þurftum á að halda. Fjandi góðir félagarnir Guðjón Davíð, Hallgrímur og Jóhannes Haukur.
Mjög gott, ég hafði ekki menningað síðan á Messiaen tónleikunum í Langholtskirkju. Skammast mín svolítið fyrir að hafa misst af Gangverkinu hjá Nemendaleikhúsinu. Mér finnst líka bara yfirleitt gaman að fara í leikhús og ég veit eiginlega ekki af hverju ég er að blaðra svona mikið um hvað mér finnst um sýningarnar... hvaða máli skiptir það svo sem??

Annars er starfsvika framundan í skólanum.. hún verður notuð til að borga upp heimaverkefnaskuldir og leggja inn á heimaverkefnareikningin. Það verður ljúft að eiga inneign þegar allt fer í gang aftur.

Afmælisbarn gærdagsins er amma á Skipó. Til hamingju!

1 ummæli:

  1. Nafnlaus12:56 f.h.

    Takk fyrir síðast, mín kæra. Hart í bak er einfaldlega LEIKRITIÐ - frábær sýning sem allir ættu að sjá. Leikritið var skrifað 1962, en gæti hafa verið skrifað í gær. Leikrit allra tíma.
    Kveðjur í bæinn þinn.
    Mamma

    SvaraEyða