mánudagur, nóvember 03, 2008

Far vel, Skjár einn (eða hvað sem þú orðið heitir)

Þar sem ég í makindum horfði á House síðastliðið fimmtudagskvöld ásamt unglingnum á heimilinu var í hverju einasta auglýsingahléi vakin athygli á því að nú væri Skjár einn að verða áskriftarsjónvarp og allir ættu að drífa sig í að tryggja sér aðgöngumiða í hversdagsbíó áður en það væri um seinan. Maður gæti misst af einni af 40 endursýningum á Americas Next Topmodel og öllum stórskemmtilegu auglýsingahléunum sem gera það að verkum að maður þarf að hanga í klukkutíma yfir sjónvarpsþætti sem annars tæki 20 mínútur. Og svo kemur rjóminn á marengstertunni: RÚV fær svoogsvomikið forskot á aðrar sjónvarpsstöðvar frá skattgreiðendum. Er það sanngjarnt?

Þú spurðir, ég svara. Já, það er sanngjarnt að RÚV fái fjárframlög frá skattgreiðendum, því ríkisrekin sjónvarpsstöð er nauðsyn, en það skal viðurkennast að þau eru heimskulega innheimt. RÚV er langbesta útvarpið og langbesta sjónvarpið á landinu. Rás eitt er best, þar á eftir kemur Rás tvö og sjónvarpið er síðan í þriðja sæti. Ég hef aldrei verið áskrifandi af Stöð 2 og mér dettur ekki í hug að borga fyrir áskrift að auglýsingahléum og óhóflegum endursýningum. Það breytir ekki þeirri staðreynd að rekstrarkerfið hjá RÚV er meingallað. Ég er fylgjandi ríkisrekinni sjónvarpsstöð, en það verður líka að reka hana skynsamlega. Ríkisstjórnin gæti sparað RÚV stórfé og stórbætt mannorð miðilsins með því að breyta lögum um rekstrarformið á þann veg að leggja niður þessi frámunalega heimskulegu afnotagjöld. RÚV á að fá ákveðin hluta af innkomu ríkisins af skattgreiðslum og afnotagjaldaruglið á að afnema. Þar með sparast allur kostnaður við innheimtu afnotagjalda og miðlinum yrði hugsanlega í minna mæli bölvað í sand og ösku af aðdáendum óraunveruleikaþátta.
Ástæða þess að ég er fylgjandi ríkisrekinni sjónvarpsstöð er fyrst og fremst sú að ég hata auglýsingahlé og að veðrið sé í boði TM sem styður ísl-ska kvenn-knattsp-dnu. Hins vegar er nú svo komið að hin ríkisrekna, afnotagjaldainnheimtandi ohf-stöð er farin að troða auglýsingahléum inn í dagskrána og fréttamenn, veðurfræðingar, sjónvarpsþulur og allir sem þar koma fram og brosa framan í myndavélarnar eru með merki einhvers stórfyrirtækisins stimplað á ennið á sér. Þetta þyrfti RÚV ekki að gera ef þeir fengju bara sína peninga lögum samkvæmt frá ríkinu og þyrftu ekki að borga starfsmönnum laun fyrir að innheimta afnotagjöld, gætu sparað sér útprentun á greiðsluseðlum og gætu sparað kostnað við handrukkarana sem gá hvort einhver sé að horfa á óskráð sjónvarpstæki heima hjá sér. Það mætti redda þeim uppbyggilegri störfum í leikmunadeildinni t.d. Og síðast en ekki síst, þá mætti fólk kaupa sér eins mörg sjónvörp og því sýndist, því það væri hvort eð er búið að borga afnotagjöldin af sínu skattfé. Og ég skal veðja upp á hárið á mér að auglýsingahórdómurinn verður ónauðsynleg tekjulind, a.m.k. í svona fáránlegu mæli sem hann er orðinn. Ég er líka svo handviss um að allir starfsmenn RÚV eru að bíða eftir þessu, en ríkisstjórnin og blessað tilgangslausa Alþingi nenna ekki að greiða götu þessa óskabarns þjóðarinnar með uppbyggilegum hætti. Nota bara snudduna og fara svo að gera eitthvað annað þótt barnið sé komið yfir þrítugt.
Skjár einn, vertu blessaður. Ég mun ekki sakna þín. Þetta var göfugt framtak, ókeypis alþýðusjónvarp, en dagskráin er ekki svo nauðsynlegur hluti af lífi mínu að ég geti hugsað mér að borga fyrir hana. En takk fyrir að koma af stað umræðu um RÚV. Það er með þetta eins og svo margt annað, ef bara ég fengi að ráða, þá yrði allt í lagi!

RÚV, ég elskaði þig! Frekar vil ég aftur frí á fimmtudögum en þetta endemis hórarí!

Hvað söng ekki Kalk/Klamydía X?

Sjáið þið eftir því
þegar sjónvarpið fékk frí?
Þegar ríktu friður, ró og næði
Ríkissjónvarpið var æði!

Svo sá RÚV í því hag
að senda út á fimmtudag
og þá fengu landsmenn frægan Matlock
fengu aldrei aftur Skonrokk.
Matlock át Skonrokk!

Nú er af sem áður var
allar nýju stöðvarnar
varpa myndum út í eitt
en þær sýna ekki neitt

Getið þið gefið svar?
Hvar eru gömlu kempurnar?
Hvað varð um Trausta veðurspámann?
Hvað varð um löður, fílinn Blámann?
Ég vil fá hann!

Nú er af sem áður var
Allar tíu stöðvarnar
varpa myndum út í eitt
en þær sýna ekki neitt.

Mér er um og mér er ó.
Hvar er Sonja Diego?
Hvar eru smjattpattarnir
og prúðuleikararnir?

Hvar er Guðni Kolbeinsson?
Hvar er Magnús Bjarnfreðsson?
Hvar er Þrándur Thoroddsen?
Og hvað varð um Dave Allen?

Hvar eru allir þeir menn
sem við dýrkuðum í denn?
Hvar er allur þessi her
sem að gerði mig að mér???

2 ummæli:

  1. Nafnlaus10:01 e.h.

    Ég er algjör RÚV-grúppía, en finnst samt ekkert galið að það fari af auglýsingamarkaði.

    Auglýsingasalan krefst þess að áhorfstölur séu háar og þ.a.l. hefur RÚV sett mikla peninga í kaup á sýningum á útlenskum fótboltamótum, Aðþrengdum eiginkonum og Hvaða Samantha?

    Ef það myndi hætta hvoru tveggja, auglýsingasölu og kaupum á dýru erlendu afþreyingarefni, gæti það sérhæft sig í innlendu efni, fréttum og þáttum frá samstarfsstöðvum sínum í Evrópu.

    Allir græða - einkastöðvarnar myndu sitja einar að auglýsingatekjum og vinsælu afþreyingarefni og fjölbreyttara efni frá fleiri löndum yrði í boði fyrir okkur sem langar í svoleiðis.

    -Gunnhildur

    SvaraEyða
  2. Jám.
    Er mjög háð mörgu á Skjáeinum. En sé sömu björtu hliðina á brotthvarfi hans og komandi atvinnuleysi. Nefnilega tækifæri til að leggjast í skriftir í stað þess að sitja ferkanteyg yfir öllum Law&Orderunum og C.S.I.-unum. Það sama gildir um algjört sjónvarpshlé á fimmtudögum. Vonast líka eftir að það verði tekið upp. Ég stefni á að verða afkastamikið kreppuskáld.

    SvaraEyða