fimmtudagur, apríl 02, 2009

Langafasta er löngu byrjuð, en ég játa það á mig að ég er enn ekki byrjuð að fasta... og ekki hefði veitt af. Aukinheldur er fasta kærkomið húsráð í kreppu. Ég ætlaði að fasta á leti... það má þó kannski færa rök fyrir því að ég hafi staðið við það plan að einhverju marki.

Þegar hér er komið sögu hef ég lokið þremur námskeiðum af fimm bóklegum, en ég þarf alltaf að minna mig á að þau eru aukaatriði. Aðalatriðin í náminu eru tónsmíðarnar, í öðru sæti píanóið. Svo koma fræðin. Það getur þó verið afar erfitt að stilla sig inn á þetta og finna jafnvægið.... enda hefur lífið sínt mér að ég er afleitur línudansari. Ég hef aldrei höndlað neitt sérstaklega vel aðstæður sem kalla á jafnvægishæfni. Það horfir þó til betri vegar með smám saman minnkandi koffínneyslu og yogaiðkun.

Þegar mikið er að gera og enn meira er í húfi, verð ég ofurmeðvituð um tímann, eins og pistlaskrif mín bera glögg merki um. Ég er endalaust að fást við tímann. Ég þarf að nota tímann, ég þarf að ramma tímann utan um allt sem ég þarf að gera. Þegar ramminn er of lítill og nær ekki utan um þetta allt fyllist ég hræðslu, því að þá verður eitthvað að víkja og ef maður tekur rangar ákvarðanir á slíkum ögurstundum, getur ekkert hróflað við því. Þetta vekur mann til vitundar um orkuna, máttinn og möguleikana í núinu. Hinu eilífa og endalausa núi. Í núinu standa allar dyr opnar. Það er eins og að vera staddur í forstofu með mörgum dyrum og handan þeirra allra er eitthvað dásamlega spennandi. Ég sé ekki nákvæmlega hvað það er, en veit að það er dásamlegt. En svo vakna ég aftur til meðvitundar.

Núið er svo snúið af því það er aldrei búið.

Ef ég ætla að hanga í forstofunni allt mitt líf og njóta þess að horfa á allar opnu dyrnar, þá verður það á endanum hlutskipti mitt. Skyldi vera hægt að fanga orkuna í ofurnúinu?

Ég held að lífið sé ekki svona fullkomið. Lífið er bara hlykkjóttur skógarstígur með fullt af greinum sem slást í andlitið á manni og sumt verður á vegi manns og annað ekki. Ég þarf að læra að gera mistök, velja mér dyr og labba áfram en ekki aftur á bak. Kannski fer ég á mis við eitthvað og það verður bara að hafa það.

Í núi dagsins í dag sé ég óendanlega fegurð í ófullkomleikanum.

3 ummæli:

  1. Það eru miklar pælingar í gangi þarna hjá þér en mundu að það er líka hægt að hugsa OF mikið, stundum þarf bara að stökkva á það sem tilfinningin segir manni.
    Bestu kveðjur frá okkur brósanum, Gréta

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir þennan pistil, Þórunn Gréta, hann hitti í mark hjá mér í dag. Kveðja, Gulla á Akureyri

    SvaraEyða
  3. Nafnlaus1:56 e.h.

    Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.

    SvaraEyða