sunnudagur, maí 24, 2009

Hver er ég?

- Sjálfhverfupistill II -

Eins og fram hefur komið marg oft á þessari síðu er ég æði misstolt af þjóðerni mínu. Ég er stolt af náttúrunni og bókunum. Ég er hins vegar miður mín yfir meðferð þjóðar minnar og reyndar heimsbyggðarinnar allrar á náttúrunni og oft er ég líka miður mín yfir því sem stendur í bókunum.
Til þess að grafast fyrir um uppruna minn er nærtækast að leita í tvær áttir. Til norðurlanda og til Írlands. Þegar við Agnes veltum einhvern tíma fyrir okkur hvaðan við værum sprottnar sannfærðumst við um að ég væri komin af írskum þrælum. Hún á sér öllu flóknari uppruna. Ég man ekki hvernig við rökstuddum það þá, en mér fannst það flott. Mér finnst víkingar ekkert gáfulegur þjóðflokkur. En þegar þeir námu land á Íslandi með nokkra tugi stolinna og hlekkjaðra Íra meðferðis, voru einhver hundrað til tvöhundruð ár síðan ritöld hafði hafist á Írlandi. Írarnir kváðu undir dróttkvæðahætti og notuðu endarím og höfðu gert um áratugaskeið. Þessi trix eignum við Íslendingar Agli Skalla-Grímssyni, en þau hefur hann líklega lært af fóstru sinni, Þorgerði Brák, dóttur Írlands. Írarnir kunnu að skrifa og skrásetja. Mér finnst líklegt að ef engir hefðu Írarnir á Íslandi verið, þá ættum við engar fornsögur í dag. Og þannig gæti ég lengi haldið áfram, en mæli þess í stað með leiksýningunni Brák í landnámssetrinu í Borgarnesi. Yndisleg sýning.
Samt læt ég ekki staðar numið hér. Þegar ég var að læra tónsmíðar hjá Úlfari minntist hann oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á eitthvað sem kemur í öllu sem ég geri sem minni á írsk þjóðlög. Samt hef ég ekki kafað neitt ofan í írska tónlist. Einhvern tíma sagði hann beint: "Þú hlýtur að vera komin af Írum."
Í öllum kreppu- og kosningalátunum hef ég af miklum eldmóði bölvað Íslandi. Í fyrsta skipti á ævinni datt mér í hug að grafast fyrir um raunverulegan uppruna minn. Svo ég skráði mig afar vísindalega inn á Íslendingabók og sló inn nafni Egils Skalla-Grímssonar. Mér til mikillar armæðu virðist ég vera komin af Þorgerði Egilsdóttur gegnum langafa á Ekkjufelli. Það eru ekki nema þrjátíu ættliðir milli mín og þessa grábölvaða raðmorðingja. Með tárin í augunum og vonbrigðakökk í hálsi sló ég svo inn nafni Melkorku Mýrkjartansdóttur. Í gegnum sama langafa má rekja ættir mínar í beinan karllegg til hennar, sami langafi tengir mig raðmorðingja og konungbornum írskum þræl og jafnmargir ættliðir í millum. (Með þeim fyrirvara að sjálfsögðu að allir séu rétt feðraðir og mæðraðir í bókinni, en um það veit að sjálfsögðu enginn.)
Aukinheldur má rekja ættir mínar í beinan legg til Guðrúnar Ósvífursdóttur, Gunnlaugs ormstungu og Snorra Sturlusonar, allt í gegnum langafa á Ekkjufelli. Af þessu þætti mér freistandi að draga þá ályktun að langafi á Ekkjufelli væri komin af Íslendingasögunum, en hinir langafar mínir og langömmur af Írum, en til þess að færa megi sönnur á það er frekari rannsókna þörf.

Írar eru ekki með allskostar hreint sakavottorð, veit ek það. Þeir eru enn í dag í tilvistarkreppu, bera djúp sár eftir ofurfylgni við kaþólskan sið og hafa jafnvel fengið blóðbað hjá lýðveldishernum. Ég er ekki vel að mér um írska pólitík, svo mér er hollast að tjá mig ekki meir um hana.
En víkingarnir og villimennirnir á norðurlöndum hafa nú, þrátt fyrir slagsmál um yfirráð auðlinda í hafi og fleira því um líkt byggt upp mestu velferðarparadís heims og menning þeirra einkennist af sósíalrealískum bókmenntum. Krónurnar þeirra standa styrkum fótum meðan krónan íslenska flýtur kútlaus á brotsjó. Og nú er okkur lofað velferðarkerfi að fyrirmynd norðurlanda. Úff, hvað við eigum langt í land. Við vorum komin svo skelfilega langt í átt til illferðakerfis að Bandarískri fyrirmynd, bara í fyrra.

Ég er litlu nær um uppruna minn í dag og þaðan af síður veit ég hvert er gáfulegt að leita sér fyrirmynda. En ég held að nú sé komið á hreint að ég get ekki neitað þeirri staðreynd að ég er Íslendingur. Skítugur af raðmorðum og drullusokkshætti fram til ársins 2009. Mér er því hollast að taka þátt í uppbyggingu norræns velferðakerfis. Hvernig svo sem almenningur á að standa í því. Landflótti til meginlandsins er svo áætlaður snemmsumars árið 2011 í síðasta lagi. Niðurtalning mun birtast með reglulegum hætti þangað til.

En hvað sem því líður, þá fæ ég SAMT útbrot þegar ég heyri minnst á sósíalrealískar bókmenntir, hvað þá meir, en finnst ég vera heima hjá mér þegar ég heyri írsk þjóðlög.

1 ummæli:

  1. Þennan pistil þótti mér skemmtilegt að lesa. Sérlega er ég þakklát langafa á Ekkjufelli að tengja okkur við allt þetta fræga fólk. Eitt er það þó, systir mín, sem við deilum ekki - og það er að vera komin af írum. Ég er víkingur, það vita allir. K

    SvaraEyða