miðvikudagur, maí 27, 2009

Mogginn.. enn og aftur

Hér sit ég og ætti að vera að semja umsókn til Nýsköpunarsjóðs námsmanna sem skal skilast inn á föstudaginn. En ég get ekki hætt að hugsa um tvær greinar úr Mogganum í dag.

Önnur var um hvalveiðar, eftir Sigurstein Másson. Stutt og laggóð grein þar sem tíunduð voru rök gegn hvalveiðum. Ég skil ekki enn, þrátt fyrir vandlegan lestur greinarinnar, af hverju það er eitthvað verra að veiða hvali en önnur dýr. Sigursteinn tiltekur ómannúðlegar aftökuleiðir. Ég held að engin aftökuleið sé mannúðleg. Bandaríkjamenn nota rafmagnsstóla, sprautur og fleira til að slátra ógæfufólki. Það má velta fyrir sér hve margir saklausir hafi fallið í valinn þar í landi í þágu réttvísinnar. Við hvalveiðar eru hins vegar notaðar einhverjar spjótbyssur og eins og búast má við tekur svolítinn tíma að koma dýri sem er trúlega mörghundruðsinnum stærra og þyngra en skyttan sjálf fyrir kattarnef. Spurning hvort reynandi væri að nota eitthvað í ætt við rafmagnsstólinn til að murrka lífið úr blessuðum skepnunum. Eins og Agnes benti svo á í kómhendu við síðustu hvalveiðavangaveltur mínar, þá eru kengúrur drepnar úr þyrlum með hríðskotabyssum í Ástralíunni.
Skot í hausinn er heldur ekki mannúðlegt skv. minni bók. Engin aftökuaðferð er mannúðleg. Þaðan af síður er það mannúðlegt að kvelja dýr í þágu vísinda.
Nautaat er viðbjóðslegt og allar aðrar "íþróttir" sem ganga út á að murrka lífið úr skepnum og enn viðbjóðslegra er að telja það til afþreyingar fyrir mannfólk.
Allt í lagi, berjist gegn hvalveiðum, en mikið vona ég að það sé þá bara einhver byrjunarreitur, ég verð að viðurkenna að mér finnst sjálfri liggja meira á t.d. að berjast dauðarefsingum í heiminum en hvalveiðum. Á eftir þeim má svo snúa sér að því að banna fólki að kvelja dýr í eigin þágu. Síðan mætti velta fyrir sér þeirri spurningu í víðu samhengi hvort verjandi sé að drepa dýr til manneldis. Hvalir eru dásamleg dýr, en af hverju snýst málið ekki um að bera virðingu fyrir öllu lífi á jörðinni?

Svo var grein eftir konu sem ég man ekki hvað heitir, en var titlaður ráðgjafi, um Waldorf-skólann í Lækjarbotnum. Þessi grein virtist vera skrifuð af tilefnisleysi, a.m.k. var hún ekki svar við neinni gagnrýni. Í besta falli var hún hugsuð sem gagnrýni á almenna skóla á Íslandi, en mig grunar að hún þjóni frekar þeim tilgangi að vera auglýsing fyrir einkarekinn skóla. Þetta er ályktun úr lausu lofti gripin, svo við látum hana liggja milli hluta. Í greininni koma nefnilega fram margir þarfir punktar um uppeldi barna.
Hvernig er hægt að forða barni sínu frá því að hafa sjónvarp, hryllingsmyndir, tölvuleiki, internet, ípott og farsíma á heilanum? Ég vil meina að það sé hægt með ýmsu móti. T.d. með því að horfa ekki sjálfur á sjónvarp öll kvöld, eyða ekki óhóflegum tíma í tölvu, með ípottinum eða farsímanum. Hvernig er hægt að vera laus við meðvirkni í uppeldi? Ég segi: Með því að vera samkvæmur sjálfum sér og vera sjálfur ekki meðvirkur.
Greinarhöfundur lýsir því fjálglega að barnið hennar hafi á einu ári í almennum skóla breyst í þunglyndan sjónvarpssjúkling. Svo þegar það hafi komist aftur í Waldorf-skólann hafi það orðið jafndásamlegt og áður. Eigi rengi ég sögu hennar. En mér finnst þarna birtast skólabókardæmi um viðhorf sem ég álít foreldrum hættulegast: Að gera skólann, stofnunina, kennarann, kerfið, ábyrgt fyrir hegðun barna sinna. Vissulega hefur skólinn gríðarleg áhrif, en hann er ekki ábyrgur! Hér er kennarinn innra með mér vaknaður í vígahug!
Nú hef ég einhverja innsýn í antrópósófísku mannspekina og kynntist nokkrum krökkum sem gengu í Waldorf-skóla í Þýskalandi, nánar tiltekið í Hamborg. Sjálf gekk ég í Albert-Schweitzer skólann þar í borg þegar ég var 16-17 ára, sem byggir á svipaðri stefnu. Meginmunurinn er helst fólginn í því að meiri áhersla var á tónlist í Albert-Schweitzer skólanum. Og já, ég hefði viljað ganga í þennan skóla alla mína tíð... en það hefur trúlega eitthvað með mitt áhugasvið að gera...
Hins vegar varð mér ekki meint af almennum skólum og ég fékk líka að sjá að það hentar ekki öllum að vera í svona "sérskólum" ef ég má kalla þá það.
En í Moggagreininni var jafnframt fullyrt að börnum sem gengju í Waldorf-skóla gengi einstaklega vel í almennum framhaldsskólum og ættu meiri möguleika á velgengni í lífinu, því í þessum skólum væri svo vel hlúð að tilfinningagreind, en hún kæmi manni almennt lengra en bókvitið. Margt má til sanns vegar færa af þessum fullyrðingum, vissulega, og eins og áður hefur komið fram, þá er ég frekar gefin fyrir þessa stefnu en almennt skólakerfi.
En utan um skólastarf af þessu tagi getur myndast sápukúluheimur, ofurverndað umhverfi, sem á lítið skylt við lífið þar fyrir utan. Einhvern tíma þarf maður að stíga út úr sápukúlunni og þó stefnan undirbúi flesta mjög vel undir skellinn sem verður þegar lífið tekur við er enginn fullkomlega varinn.
Antrópósófíska mannspekin er um margt frábær, en hún er ekki skotheld frekar en annað. Þá eru Waldorf-skólar almennt mjög góðir skólar en þeir veita ekki fullkominn undirbúning undir lífið frekar en aðrir skólar. Ég á fleiri en einn og feiri en tvo vini sem hafa lent á villigötum í lífinu þrátt fyrir að hafa verið í Waldorf-skóla um lengri eða skemmri tíma, sumir frá leikskóla og gegnum stúdentspróf. Málið er því miður ekki svona einfalt eins og það hljómar í greininni góðu.
Það er víða pottur brotinn í menntakerfi landsins sem byggir á "hefðbundnum" leiðum, það efast enginn um og hugsanlega er það meiri gallagripur en títtnefnd antrópósófía. En ég hygg að best sé að vega og meta þarfir hvers og eins áður en ákvörðun er tekin um í hvaða skóla skuli senda viðkomandi. Mest þykir mér þó um vert að muna að skóli ber ekki ábyrgð á uppeldi barna. Og hene nu!

Svei mér þá, kennarastarfið hefur spillt mér. Ég er farin að rífa kjaft um uppeldismál... hvað sögðuð þið að ég væri gömul???

2 ummæli:

  1. Nafnlaus8:57 f.h.

    Og svo fer þetta fáránlega mikið eftir kennurunum sem börnin fá - hvort sem skólinn heitir Waldorfeitthvað eða almennur. Ég myndi ekki vilja skipta kennaranum hans Finns núna út fyrir nokkurn mann eða konu eða stefnu. Því miður er hún ekki útskrifuð og fær ekki að halda áfram með bekkinn á næsta ári, við foreldrarnir erum gráti nær að berjast fyrir því að fá undanþágu.

    SvaraEyða
  2. Ég er fyrir lifandis löngu farin að rífa kjaft um uppeldismál sjálf og er rétt skriðin yfir tvítugt.

    Það er alltaf gert allt of lítið úr ábyrgð foreldra. T.d. ef börn eru með slæmar tennur þá er það tannlæknum eða ríkisstjórn að kenna... ha? Eru það ekki mamma og pabbi sem láta sykur og gos ofan í börnin daglega?
    Ég hlakka til að eignast börn (eftir 5 ár eða meira!!) til að sýna þessum vitleysingum hér á landi hvernig á að gera þetta!

    SvaraEyða