Síðasta vika hófst á mánudegi. Mér finnst mánudagur alltaf vera fyrsti dagur vikunnar og því verður ekki haggað. Á þessum fyrsta degi síðustu viku, sem var mánudagur, eins og lög gera ráð fyrir þegar vika er annars vegar, vaknaði ég, leit út um gluggann og við blasti slagviðri. Ég hafði nokkrum vikum áður í einhverri bjartsýni pakkað heimskautaúlpunni lengst inn í skáp, en hana gróf ég upp samstundis, skrýddist bomsum og hélt út í bylinn. Það var ekki þurr þráður á mér þegar ég kom á áfangastað og þornaði síst á leiðinni út á flugvöll, en þar skyldi ég sækja bílaleigubíl og stýra honum alla leið til Stykkishólms með þrjá kokka innanborðs, þar á meðal verðlaunakokkinn Ólaf Ágústsson. Tilgangurinn sem helgaði meðalið var hrekkjabragð á menningarráðstefnu. Þar voru endurfundir á hverju strái, hófust reyndar strax í Reykjavík með því að hitta hann Óla minn, því við höfðum lítið sést frá því við tókum til við að pumpa fyrir Rocky Horror í gamla daga, ég af veikum mætti til að losa mig við nokkur kíló fyrir dæmalaust efnislítinn búning og hann til að safna vöðvum fyrir hlutverk ofurmennisins...
well in just seven days
I can make you a maaaaaa - ha - ha - ha - haaaaaaan
Það var stuð í Stykkishólmi, en rigningin og rokið náðu alla leið frá Reykjavík til Stykkishólms og aftur til baka sem var kl. 04:30, en þá lagði ég bílnum hér í vesturbænum. Við tóku tveir sólarhringar af hífandi roki. Í hvert skipti sem ég fór út á þessum sólarhringum trúði ég því að nú hlyti vindinn að hafa lægt. En svo var ei. Þangað til seinni part föstudagsins, þegar lygndi og brast á með brakandi sólskini og rómantík. Og nú, viku seinna er ekkert lát á sólskininu og allir löngu búnir að gleyma hvernig veður blés vikunni úr vör, því við vitum alveg hvernig kipp lífið Meðal-Íslendingsins tók eftir að sólin tók að verma Reykvíska reiti.
Ég get hins vegar fullvissað ykkur um að þetta var frábær vika. Mér finnst hins vegar ótrúlegt að ég nái að afkasta jafn miklu í þessari viku sem nú hefur hafið göngu sína. Það sést t.d. á samanburði þessa mánudags og hins síðasta. Ég þurfti að vinna í klukkutíma og vera á æfingu í klukkutíma. Svo lagði ég mig á Klambratúninu með Jane áður en ég fór á jazzpíanónámskeiðið, sem er eins konar spa fyrir mig. Ef ég mætti velja milli spa og píanótíma, þá myndi ég alltaf velja píanótíma. Einkum og sér í lagi eftir blund á Klambratúni í glampandi sól.
Skólinn kláraðist á laugardaginn með seinni umferð tónsmíðatónleika Listaháskólans og síðasti vinnudagurinn var í dag.
Skál!
þar sem ég komst ekki á tónleikana þína finnst mér við hæfi að minna þig á að mæta á sýninguna mína...
SvaraEyðalokasýning næsta föstudag.