fimmtudagur, júní 18, 2009

Aðþrengdar eiginkonur I

Ég er forfallinn aðdáandi Aðþrengdra eiginkvenna. Í Fréttablaðinu í dag birtist pistill sem ég var allsendis ósammála varðandi þessa þætti. Aðalsmerki þessara þátta, það sem límir mann við skjáinn, er einmitt það sem pistlaskrifarinn kvartar yfir. Það gerist yfirleitt ekki margt í hverjum þætti, en rosalega margt er opnað, þ.e. margir hnútar eru skildir eftir óleystir og í flestum tilvikum getur brugðið til beggja vona... ef ekki þriggja eða fjögurra vona. Svo þegar eitthvað gerist kemur strax annar hnútur og ég veit ekki með ykkur, en ég er alltaf óð í að fá hnútinn leystan strax. Það skal tekið fram að ég hleð ekki niður höfundavörðu efni af netinu, í fyrsta lagi af prinsippástæðum, í öðru lagi af því það er miklu skemmtilegra að vera "gamaldags" húkt á sjónvarpsþáttum.
En sumsé, ég á fyrstu seríuna á DVD og er búin að horfa á allt aukaefnið. Mér finnst handritsvinnan í þessum þáttum hreint meistaraverk og þessi sería sem hefur verið í sjónvarpinu núna engin undantekning þar á. Pistlaskrifari Fréttablaðsins kvartaði eins og áður segir undan því hvað atburðarrásin hefur verið hæg í þessari seríu og að í síðasta þætti hafi loksins eitthvað gerst. Ég er svo dásamlega ósammála þessari athugasemd. Mér hefur fundist serían álíka fullkomin og hinar sem á undan eru gengnar, þangað til kom að þessum misheppnaðasta þætti í sögu eiginkvennanna. Edie var fórnað fyrir hina ömurlegu persónu Dave Williams. Hún verðskuldaði þátt um sig, en þetta drepur líklega framhaldið. Það var gaman að hafa Dave þarna, maður hafði megna óbeit á honum og gargaði jafnvel á sjónvarpstækið, en það er annað hvort einhver skuggaleg umpólun yfirvofandi í furðuveröldinni við Bláregnsslóð eða einfaldlega endir á þessum allt að því lang bestu sjónvarpsþáttum sem framleiddir hafa verið.

Svo er það spurning hvort maður eigi að fyrirgefa ein mistök.

Þær skipa sér í röð Simpson's, Foster's Home for Imagnary Friends, Matlock og Derrick. Þetta verður ekki síðasta eiginkvennarýni á þessari síðu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli