föstudagur, júlí 31, 2009

Sumarsögur I hluti

Ég er þá aftursnúin til Reykjavíkurinnar eftir vel heppnað ferðalag um norðan og austanvert landið. Við vorum afar óheppin með veður, svo allt það tan sem safnast hafði á Austurlandi og Reykjavík í júnímánuði er löngu horfið. Ég mun því mæta föl sem nár í skólann þann 24. ágúst næstkomandi. Hvurjum er sossum ekki sama??? Stundum var kalt í veðri, stundum bara milt og áreitislaust, en afar sjaldan skein sól. Hún skein þó í sinni, sem skyldi ekki vanmeta.

Ég fékk að upplifa að vera maki á ættarmóti í Hjaltastaðaþinghá. Ég ímynda mér að það hafi verið svipað og menntaskólasammenkomst, því ég hitti marga sem voru með mér í menntaskóla. Það var voða gaman. Aukahugleiðing um ættarmót birtist áður en langt um líður.

Svo fór ég á tónleika í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði. Þar sungu Ásgeir Páll baritón og Þorvaldur bassi við píanóleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Þetta voru hressir og skemmtilegir tónleikar. Við fórum að sjálfsögðu baksviðs og töluðum við stjörnur kvöldsins:

Davíð við Þorvald: Þakka þér kærlega fyrir tónleikana, þakka þér fyrir allt nema rússnesku aríuna.

Ég við Davíð (hvellum rómi): Nema rússnesku aríuna? Hún var æði!

Davíð við mig: Já, hey! Heldurðu að ég viti ekki hvað bassi og rússneska gerir fyrir þig?


Engin ummæli:

Skrifa ummæli